Fréttablaðið
3. júl, 2008

Listin að vísa til vegar

Hvernig er bezt að vísa drukknum manni til dyra? Á að vísa honum á rangar dyr í þeirri von, að hann rambi þá á réttu dyrnar? Þetta er klassískur vandi í hagstjórn: ráðgjafinn þarf stundum að benda á krókaleiðir að settu marki, ef ráðþegarnir slaga. Þessi saga kemur í hugann nú, því að gamall vinur minn, grandvar embættismaður til margra ára, spurði mig um daginn, hvort einhverjir kynnu að telja það vitna um tvísögu að lýsa eftir auknum gjaldeyrisforða Seðlabankans eins og ég hef gert við og við frá 1999 og vara nú einnig við hættunni á því, að Seðlabankinn eyði auknum forða í vitleysu með því að reyna að verja gengi krónunnar eðlilegu falli.

Frá mínum bæjardyrum séð er ekki um neina tvísögu að tefla. Þegar ég lýsi eftir auknum gjaldeyrisforða, miða ég áskorunina við seðlabankastjórn, sem þekkir muninn á háu gengi og lágu. Hinn kosturinn hefði verið að horfa fram hjá of litlum forða, láta sem allt væri í góðu lagi og bíða gengisfalls. Síðari kosturinn hefði verið ótækur, þar eð gengisfall er iðulega eins og öngull í laginu: þegar gengið lætur undan, fellur það niður fyrir eðlilegt mark, stundum langt, og rís síðan aftur upp við dogg. Gjaldeyrisforðann þarf að nota til að jafna gengissveiflur og draga úr offalli gengisins, en ekki til að hamla gengisfalli, ef gjaldmiðilinn var of hátt skráður fyrir. Seðlabanki með of rýran gjaldeyrisforða er eins og húseigandi, sem tímir ekki að tryggja húsið sitt.

Sami embættismaður sagði við mig: „Þú sakar Sjálfstæðisflokkinn með réttu um að gapa upp í brezka íhaldsmenn og bandaríska repúblikana og gleypa allt hrátt, en varst þú sjálfur ekki einn af þeim, sem á sínum tíma mæltu hvað mest fyrir skjótri einkavæðingu fyrir austan tjald og einnig hér heima?“ Jú, ég kannast við það. Í skýrslu til viðskiptaráðherra (sjá bók mína Hagkvæmni og réttlæti, 1993, bls. 130-142) mælti ég með einkavæðingu með dreifðri eignaraðild og ýmsum öðrum varnöglum. Um þetta sagði ég (bls. 132): „Hér heima þarf að gæta þess vandlega ekki síður en þar austur frá að búa þannig um hnútana í löggjöf og leikreglum, að tryggt sé, að fáein fjársterk fyrirtæki eða einstaklingar geti ekki lagt undir sig banka og önnur fyrrverandi ríkisfyrirtæki og komið í veg fyrir heilbrigða samkeppni á lánamarkaði. Jafnframt þarf að tryggja það með tiltækum ráðum, að ríkisbankar og önnur ríkisfyrirtæki séu ekki seld þóknanlegum viðskiptavinum stjórnvalda við sérstökum vildarkjörum, það er undir eðlilegu markaðsverði, svo sem nokkur brögð hafa verið að í Austur-Evrópu.“ Ég gerði ráð fyrir stjórnvöldum, sem myndu ekki neyta lags til að maka krókinn og mylja undir einkavini sína og vandamenn.

Átti ég heldur að leggjast gegn einkavæðingu með öllu því óhagræði, sem fylgt hefði óbreyttum ríkisbankarekstri? – og bíða þess, að stjórnmálastéttin tæki tilskildum framförum. Nei. Ég lýsti heldur eftir heilbrigðri einkavæðingu og reyndi jafnharðan að vekja athygli á gallaðri framkvæmd hennar eftir því sem tilefni gáfust til. Þau reyndust ærin bæði í Austur-Evrópu og á Íslandi. Hæstiréttur felldi fyrir nokkru úrskurð þess efnis, að framkvæmd útboðs ríkisins á tæplega 40 prósenta hlut þess í Íslenskum aðalverktökum 2003 hafi verið ólögmæt. Fulltrúi utanríkisráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu og síðar formaður nefndarinnar sat báðum megin við borðið, þar eð hann var einnig formaður stjórnar Íslenskra aðalverktaka. En þrátt fyrir spillingarhættuna kom ekki til álita að leggjast gegn einkavæðingu, þegar færi gafst, ekki frekar en í Rússlandi og annars staðar um Austur-Evrópu, enda gerðu það fáir. Vladímir Pútín, forseti Rússlands 2000-2008, réðst gegn sérdrægninni og spillingunni, sem fylgdi einkavæðingunni þar austur frá, og beitti fyrir sig hlutdrægu dómskerfi og öðrum meðulum. Langflestum Rússum líkar það vel, öðrum miður.

Alþingi hefur heimilað fjármálaráðherra að taka stórt lán til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Lánið nemur 6,3 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi. Þetta er viðskilnaður ríkisvaldsins eftir uppsveifluna. Ríkissjóður hefði átt að skila drjúgum afgangi í uppsveiflunni og safna eignum, en hann gerði það ekki. Nú hefur ríkisstjórnin ekki önnur ráð en að taka eitt lánið enn. Lántaka ríkissjóðs er óbrigðul ávísun á skattheimtu síðar. Börnin okkar sitja í súpunni.