11. jan, 2008

Lífskjaravísitala Sameinuðu þjóðanna 2005

Mynd 118. Lífskjaravísitala Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er meðaltal þriggja talna: (a) vísitölu langlífis, sem nýfædd börn eiga í vændum; (b) vísitölu menntunar, sem ræðst að einum þriðja af fullorðinslæsi og að tveim þriðju af samanlagðri skólasókn á öllum skólastigum, þó án tillits til gæða skólanna; og (c) vísitölu kaupmáttar þjóðartekna á mann, þar sem þess er gætt, að verðlag er af ýmsum ástæðum mishátt eftir löndum. Hugsunin á bak við vísitöluna er sú, að lífskjör almennings ráðist ekki eingöngu af kaupmætti  þjóðartekna á mann, heldur þurfi einnig að taka mið af heilsufari og menntunarstigi. Ísland er nú í fyrsta sinn í efsta sæti listans um lífskjör þeirra 177 þjóða, sem listi Sameinuðu þjóðanna nær yfir, en árin 2001-2006 var Noregur í efsta sætinu og þar áður Kanada 1990-2000, nema Japan skauzt tvisvar upp í efsta sætið (1991 og 1993). Noregur er nú í öðru sæti, síðan koma Ástralía og Kanada. Tölurnar taka til ársins 2005. Bandaríkin skipa nú tólfta sæti listans: þau hafa smám saman þokazt niður eftir lífskjaralistanum. Þau voru – ásamt Íslandi – í öðru til þriðja sæti listans 1980, og héldu öðru sætinu 1985 og 1990 á eftir Kanada og sukku síðan niður í sjötta sæti 1995 og áttunda sæti 2000. Takið eftir því, að Kúba er í 51. sæti listans (neðsta súlan á myndinni), aðeins 13 prósentum neðan við Bandaríkin. Hver trúir því? Niðurstaðan um Kúbu ræðst af því, að Kúbverjar lifa aðeins tíu vikum skemur að jafnaði en Bandaríkjamenn, búa við almennt læsi og senda 87% af hverjum árgangi í skóla á móti 93% í Bandaríkjunum. Þessar upplýsingar duga til þess að fleyta Kúbu upp í 51. sæti listans þrátt fyrir sjöfaldan mun á kaupmætti þjóðartekna á mann í Bandaríkjunum og á Kúbu. Sjá nánari greinargerð um málið í Við höldum hópinn og Smáa letrið.