Leynimakk um lögbrot
Fjallar um misheppnaða meðferð kjörgagna og viðbrögð þingnefndar við henni.
Kosningasvik eru sjaldgæf, mun sjaldgæfari en margir virðast halda.
Liðin tíð í okkar heimshluta
Byrjum í Bandaríkjunum þar sem málið hefur verið rannsakað í þaula. Kaninn býr að óvilhöllum rannsóknarstofnunum til að fást við slíka hluti. Ein slík stofnun heitir Brennan Center for Justice, hún tilheyrir lagadeild New York háskóla og dregur nafn sitt af William J. Brennan, fjölvirtum og frjálslyndum hæstaréttardómara.
Sérfræðingar stofnunarinnar hafa rannsakað meint kosningasvik og komizt að þeirri niðurstöðu að svik eru sárasjaldgæf í Bandaríkjunum nú orðið þótt kvittur um svik gjósi upp við og við, stundum jafnvel háværar ásakanir líkt og eftir kosningarnar 2016, 2018 og 2020. Rækileg eftirgrennslan í öllum 50 fylkjum landsins hefur þó leitt í ljós að ásakanir Donalds Trump fv. forseta og manna hans um kosningasvik af hálfu demókrata 2020 eru uppspuni frá rótum. Ásakanir Trumps eru jafnframt ískyggileg vísbending um að hann sjálfur og samherjar hans í Repúblikanaflokknum telji sig mega beita öllum brögðum í framtíðinni og ekki þurfi að lúta úrslitum kosninga.
Ástandið vestra var verra á fyrri tíð þegar aðbúnaður á kjörstöðum var lakari, tæknin fátæklegri og eftirlitið veikara. Þá kusu sumir oftar en einu sinni, fyrst fúlskeggjaðir og síðan sléttrakaðir. Aðrir kusu fyrir hönd látinna vina og vandamanna og frambjóðendur báru fé á kjósendur sem var og er ólöglegt. Fyrir kom að flokkseigendur fylltu kjörkassa með fölsuðum atkvæðaseðlum, var sagt, til dæmis í Chicago 1960 samkvæmt þrálátum en óstaðfestum orðrómi.
En þetta, segja sérfræðingarnir, er liðin tíð. Samt eru enn talsverð brögð að því að kjósendum sé haldið frá kjörstöðum, einkum blökkufólki og föngum. Bandaríkjamenn halda kosningar á þriðjudögum eins og til að veita vinnuveitendum færi á að halda launþegum frá kjörstað. Stundum eru hlutdrægir dómstólar notaðir til að útkljá kosningar eins og þegar Hæstiréttur Flórída stöðvaði talningu árið 2000 og kom því þannig til leiðar að Hæstiréttur Bandaríkjanna færði repúblikananum George W. Bush forsetaembættið með fimm atkvæðum gegn fjórum eftir flokkslínum. Traust kjósenda til Hæstaréttar dvínaði. Um aldamótin 2000 sagðist annar hver Bandaríkjamaður treysta stjórnvöldum, en 2015 aðeins fimmti hver. Traust kjósenda til kosninga mælist nú mun minna í Bandaríkjunum en víðast hvar í Evrópu.
Að mæla traust
Félagsvísindamenn og tölfræðingar mæla traust og vantraust í ýmsum myndum um allan heim. Rannsóknir þeirra á trausti til kosninga hverfast um þrjár spurningar:
- Hvað þarf til að kosningar standist viðteknar alþjóðakröfur um heiðarlega framkvæmd kosninga?
- Hvað gerist þegar framkvæmd kosninga nær ekki settu marki?
- Og hvað er hægt að gera til að rétta kúrsinn?
Ein helzta stofnun heims sem safnar gögnum um framkvæmd kosninga og greinir þau var stofnuð í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og Sidney-háskóla í Ástralíu 2012 og hefur nú bækistöðvar á Englandi og í Kanada. Hún kennir sig við Electoral Integrity Project og birtir rækilegar skýrslur um flest lönd heimsins með reglulegu millibili.
Ný skýrsla stofnunarinnar lýsir mati næstum 4.000 sérfræðinga á framkvæmd 337 kosninga í 166 löndum árin 2012-2018. Sérfræðingarnir búa til úr mati sínu vísitölu eða einkunn sem nær frá 0 upp í 100. Danmörk fær hæstu einkunnina 86. Bandaríkin standa langt að baki Norðurlöndum með einkunnina 61, sömu einkunn og Panama og Mexíkó borið saman við 75 í Kanada. Tyrkland er eina Evrópulandið, ef Evrópuland skyldi kalla, sem fær lægri einkunn en Bandaríkin, 45. Ísland fær lægstu einkunn Norðurlanda, 82. Af því má ráða að ábendingar ÖSE undangengin ár um galla á framkvæmd og fyrirkomulagi kosninga á Íslandi hafa skilað sér til einkunnagjafanna. Gallar á framkvæmd og fyrirkomulagi kosninga snúa ekki aðeins að mistökum eða jafnvel misferli við meðferð kjörgagna og talningu atkvæða heldur einnig að kosningareglum og lögum, þar á meðal misvægi atkvæðisréttar.
Kosningar í Evrópu
Frá aldamótum hafa kosningar í Evrópu yfirleitt farið vel fram án þess að vekja ásakanir eða grunsemdir um svik, alls staðar nema í suðausturhluta álfunnar. Löndin þar sem kosningar hafa farið úrskeiðis (eða þeim hefur jafnvel beinlínis verið stolið) eru Búlgaría, Georgía, Hvíta-Rússland, Rúmenía, Rússland, Serbía, Ungverjaland og Úkraína.
Eina umtalsverða misfellan frá aldamótum norðar og vestar í álfunni átti sér stað í Austurríki 2016. Eftir forsetakosningarnar þar 23. maí 2016 kom í ljós að kosningalög höfðu verið brotin í 14 af 117 kjördæmum. Stjórnlagadómstóll ógilti kosninguna þar eð mjótt var á munum og uppkosning fór fram í öllum kjördæmum 4. desember 2016. Forseti stjórnlagadómstólsins sagði: „Uppkosningin stefnir að einu marki: að efla traust á lögum, rétti og lýðræði“. Þannig fara menn að í siðuðum réttarríkjum.
En jafnvel þar sem framkvæmd kosninga má heita gallalaus spegla kosningakerfin vilja kjósenda misvel. Til að mynda er misvægi atkvæða miklu meira á Íslandi en annars staðar um Norðurlönd. Alþingi speglar vilja kjósenda mun síður hér en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Tvöföld slagsíða
Kosningakerfið hér heima líður fyrir tvöfalda slagsíðu. Allir vita að mun færri kjósendur eru að baki hverjum kjörnum þingmanni í dreifbýliskjördæmum en á suðvesturhorninu. Hitt vita færri að hér er önnur aðferð notuð til að úthluta þingsætum í lok talningar en notuð er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Allt er þetta með ráðum gert. Í krafti þessarar tvöföldu slagsíðu hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tekið sér samtals tvö til þrjú þingsæti í forgjöf að jafnaði, stundum fjögur, í flestum alþingiskosningum áratugum saman á kostnað annarra framboða. Þetta sést á einföldum samanburði á hlutdeild þessara flokka í kjörfylgi annars vegar og þingstyrk hins vegar.
Nýja stjórnarskráin kveður á um jafnt vægi atkvæði og myndi tryggja afnám þessarar forgjafar að því gefnu að
- Úthlutunarreglan sem kennd er við franska stærðfræðinginn Sainte-Laguë (norræna reglan) sé tekin upp í stað reglunnar sem er kennd við belgíska lögfræðinginn D’Hondt (íslenzka reglan) og
- Raðval (e. ranked-choice voting) sé tekið upp eins og tíðkast víða, til dæmis við borgarstjórakosningar í New York þar sem margir frambjóðendur eru í kjöri.
Dauð atkvæði
Raðval er hagfelld aðferð til að spegla vilja kjósenda sem nákvæmlegast með því að halda fjölda dauðra atkvæða í lágmarki. Náskyld raðvali er aðferðin sem nefnist „eitt færanlegt atkvæði“ (e. single transferable vote). Kjósendur raða þá framboðum í forgangsröð eins og gert var til dæmis í stjórnlagaþingskosningunni 2010 frekar en að greiða aðeins einu framboði atkvæði.
Nýja stjórnarskráin kveður á um raðval í ákvæðinu um forsetakjör, en þar segir: „Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti.“ Þannig er girt fyrir hættuna á að forseti sé kjörinn með 12% atkvæða að baki sér í kosningu þar sem átta aðrir frambjóðendur fengu 11% atkvæða hver um sig. Vilji kjósenda kemst betur til skila þegar þeir fá að raða frambjóðendum í forgangsröð.
Tökum annað dæmi. Hefði raðval verið notað til að velja milli þeirra 16 repúblikana sem kepptu um forsetaútnefningu Repúblikanaflokksins 2016 hefði Donald Trump ekki hlotið útnefninguna þar eð kjósendur margra keppinauta hans hefðu trúlega sett hann neðarlega á blað, en talningin tók ekki tillit til þess. Trump sigraði af því að mörg atkvæði greidd öðrum frambjóðendum duttu niður dauð.
Af þessu má sjá að allt þrennt skiptir máli: kjördæmaskiptingin, kosningaregluverkið og úthlutunaraðferðin. Allt þrennt þarf helzt að vera í góðu lagi. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð tíðkast raðval að vísu ekki, en annað er þar nokkurn veginn eins og það á að vera. Því er ekki að heilsa hér heima.
„Ef menn ætla að svindla …“
Og svo er auðvitað eitt enn sem ég á eftir að nefna til sögunnar.
Landslög mæla fyrir um meðferð kjörgagna, innsiglun þeirra og þannig áfram svo tryggt sé að ekki sé hægt að breyta kjörseðlum eftir á, fækka þeim eða fjölga. Þess vegna rak menn í rogastanz þegar formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi lýsti því yfir í blaðaviðtali um daginn að
„… þú getur tekið þessi innsigli af og sett þau aftur á án þess að nokkur taki eftir því. Þessi innsigli eru afar ómerkileg. Ef einhver vill svindla þá gera þessi innsigli ekkert gagn. Jafnvel þó það væru almennileg innsigli, ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum“.
Áður hafði hann sagt við blaðamann um kjörgögnin:
„Já, ekki innsigluð. Það hefur aldrei verið gert. … Þetta er bara vinnulag sem er búið að vera eins lengi og ég veit. Það er ekkert innsiglað, það er engin aðstaða til að innsigla þetta … Eins og ég segi, þetta hefur bara tíðkast og er bara venjubundið.“
Þegar reyndur kjörstjórnarmaður og dómari talar svona er ástæða til að staldra við, ekki sízt þegar misheppnuð meðferð kjörgagna hefur leitt til þess að þingsæti fluttust milli flokka í fimm kjördæmum af sex og fimm þingsæti færðust milli frambjóðenda á þann hátt að fimm „nýkjörnir“ þingmenn féllu af þingi við endurtalningu og fimm aðrir þingmenn töldust þá „kjörnir“ í þeirra stað. Það er því engum vafa undirorpið að mistökin höfðu mikil áhrif á úrslit kosninganna enda hafa sex frambjóðendur og tíu kjósendur kært meðferðina; einn lagði fram tvær kærur.
Af 11 kærum kjósenda krefjast fimm kærendur uppkosningar á landsvísu, fjórir krefjast uppkosningar í Norðvesturkjördæmi (en myndu varla slá hendinni á móti uppkosningu um allt land) og tveir setja fram aðrar eða óljósar kröfur. Af sex frambjóðendum sem kæra krefjast þrír uppkosningar í Norðvesturkjördæmi og þrír krefjast þess að fyrri talning standi (þótt hún sé röng skv. yfirlýsingu formanns yfirkjörstjórnar kjördæmisins). Enginn kærandi krefst þess að síðari talningin standi. Einn kærandinn færir rök að því að skýringar formanns yfirkjörstjórnar á síðari talningunni séu tölfræðilega ómögulegar. Fulltrúum í yfirkjörstjórn kjördæmisins ber ekki saman um málsatvik.
Nú skyldu menn ætla að undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa sem var falið að skoða málið reyndi að stíga varlega til jarðar og einsetti sér að stefna að einu marki: að „efla traust á lögum, rétti og lýðræði“ svo aftur sé vísað til Austurríkis. Því er þó ekki að heilsa, heldur starfar nefndin fyrir luktum dyrum að langmestu leyti. Hún hefur haldið 25 fundi, þar af 23 lokaða fundi án þess að birta efnislegar fundargerðir og tvo opna fundi með þrem lögfræðingum sem hægt er að skoða upptökur af á vefsetri Alþingis. Þingið hefur ekki birt upptökur af öðrum fundum og hefur neitað að birta upptöku af þeim fundi sem mér var boðið til ásamt þrem öðrum gestum. Einn gestanna hefur kært neitun þingsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Nýlega (2018) sögðust 42% Íslendinga vantreysta stjórnvöldum borið saman við 25% að meðaltali í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Leynd og pukur ehf.
Leyndin sem hvílir yfir starfi undirbúningsnefndarinnar lýsir sér meðal annars í skjali sem hún birtir á vefsetri þingsins. Þar er sýnt yfirlit yfir 25 úthringingar formanns yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis frá kl. 7:03 til kl. 14:57 hinn 26. september s.l., það er milli fyrri talningar og hinnar síðari. Símanúmerin sem hann hringdi í eru hulin svörtu bleki. Um innhringingar til formannsins er enn ekkert vitað né heldur hvað sagt var í símann.
Annars skil ég það vel að þingmenn í undirbúningsnefndinni kæri sig ekki um að upptökur af fundum þeirra séu gerðar aðgengilegar almenningi. Á þeim fundi þar sem ég var sátu nefndarmenn að því er virtist áhugalausir meðan við gestirnir fjölluðum um lögbrotin sem eru nú á allra vitorði, áhrif þeirra á traust almennings til alþingiskosninga og nauðsyn þess að gæta jafnræðis meðal kjósenda með því að halda uppkosningu á landsvísu líkt og gert var í Austurríki 2016 frekar en bara í Norðvesturkjördæmi. Bara einn nefndarmaður eða tveir spurðu okkur spurninga, hin þögðu. Ég hafði til að prófa þau lagt fram í kæru minni orðréttan vitnisburð um meinta ólöglega meðferð kjörgagna í Norðausturkjördæmi, vitnisburð sem hefur hvergi annars staðar komið fram. Enginn nefndarmaður sýndi því áhuga.
Leyndin yfir því sem fram fer á fundum nefndarinnar veldur því að við fáum ekki að vita hvaða nefndarmenn sjá ekkert athugavert við brot gegn kosningalögum eða gera lítið úr þeim og hvaða nefndarmenn vilja halda uppi lögum og reglu og tryggja að áleitnar grunsemdir um kosningasvik læsi sig ekki um landið. Vandinn er öðrum þræði sá að þau verða öll fyrir hnjaski ef uppkosning fer fram um allt land. Þess vegna eru nefndarmenn vanhæfir til að fjalla um málið. Hver sem niðurstaða þingsins verður mun Mannréttindadómstóll Evrópu þurfa að fjalla um þetta vanhæfi auk annars.
Kannski skýrist málið að einhverju leyti þegar nefndin skilar áliti. Leynimakkið hingað til lofar þó ekki góðu. Það lofar ekki heldur góðu að fráfarandi ráðherrar og forseti Íslands boða myndun nýrrar ríkisstjórnar fljótlega eins og þau viti nú þegar hver verða viðbrögð Alþingis við klúðrinu sem hafði svo mikil áhrif á úrslit kosninganna. Svo virðist sem málsmeðferðin í þinginu snúist um að finna leið fram hjá kröfunni um uppkosningu.
Yfir Íslandi vofir nú sú hætta að Alþingi, lögreglu og saksóknurum takist ekki að sannfæra fólkið í landinu um að allt hafi verið með felldu í kosningunum 25. september. Fari svo mun fjara enn frekar undan lýðræði í landinu. Lýðræðiseinkunn Íslands í alþjóðlegum skýrslum mun þá lækka enn meira en orðið er og dragast langt aftur úr einkunnum annarra Norðurlanda.