DV
28. feb, 2014

Leikreglur lýðræðis

Það er ekki einsdæmi, að stjórnvöld svíkist um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, sem þau hafa lofað. Það hefur gerzt í Færeyjum. Þar samdi þingskipuð stjórnarskrárnefnd vandað frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, sem hefur nú legið fullbúið fyrir lögþinginu í Þórshöfn í nokkur ár. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um, að fiskimiðin í lögsögu Færeyja séu þjóðareign og óheimilt sé að veita mönnum ójafnan aðgang að nýtingu þeirra. Auðlindaákvæðið í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár tekur m.a. mið af færeyska ákvæðinu.

Harðdrægir hagsmunahópar innan lögþingsins og utan, þar á meðal ýmsir hrunverjar frá árunum kringum 1990, standa í vegi fyrir, að færeyska þjóðin fái að fjalla um frumvarpið til samþykktar eða synjunar. Þetta eru að hluta sömu öfl og þau, sem fengu danska kónginn til að hunza úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 1946, þar sem Færeyingar ákváðu að slíta sambandinu við Danmörku að íslenzkri fyrirmynd. Kóngurinn gerði sér þá lítið fyrir og leysti í snatri upp þingið, sem hafði þá þegar lýst yfir sambandsslitum í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þegar haldnar voru nýjar þingkosningar að nokkrum mánuðum liðnum, sigruðu sambandssinnar, sem vildu og vilja enn óbreytt samband við Danmörku, og létu sem þjóðaratkvæðagreiðslan hefði ekki farið fram. Færeyingar fengu heimastjórn 1948 í sárabætur, mun minna en þeir höfðu ákveðið í þjóðaratkvæðinu tveim árum áður. Æ síðan hafa færeysk stjórnmál markazt af djúpstæðri sundrungu og úlfúð.

Þannig stendur á því, að Færeyjar lúta enn danskri forsjá m.a. í varnarmálum, dómsmálum, peningamálum og utanríkismálum gegn vilja færeysku þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1946. Þessa sögu þekkja því miður ekki margir utan Færeyja, þar eð eyjarnar eru svo fámennar, að útlendingar leggja sig yfirleitt ekki eftir fróðleik um þær nema Danir. Vegna lítils aðhalds að utan hafa færeyskir stjórnmálamenn og bandamenn þeirra um sérhagsmunamál litið svo á, að þeim séu flestir vegir færir.

Þessi saga frá Færeyjum sýnir, að til eru skýrar færeyskar fyrirmyndir að hvoru tveggja, sem hæst hefur borið á vettvangi stjórnmálanna hér heima frá hruni. Annars vegar eru svik Alþingis í stjórnarskrármálinu. Þingið sýnir engin merki þess, að það ætli sér að virða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012, þar sem tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi nýrri stjórnarskrá. Aðeins 17 þingmenn af 63 hafa fengizt til að lýsa því yfir, að þeir telji að „Alþingi beri að virða vilja kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu“ (sjá 20.oktober.is). Hins vegar eru yfirvofandi svik í ESB-málinu, þar sem þingið býr sig nú undir að ganga á bak ítrekaðra loforða um, að þjóðin fái að eiga síðasta orðið um aðild að ESB.

Formaður Sjálfstæðisflokksins tók af tvímæli um þetta á fundi með flokksmönnum sínum í Valhöll í vikunni. Þar sagði hann, að ákvörðun Alþingis um að slíta viðræðum við ESB snúist ekki um viðræðurnar, heldur um aðild. Formaðurinn heldur því blákalt fram, í andstöðu við ítrekaðar yfirlýsingar fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi, að þingið ætli sér að eiga síðasta orðið um aðild Íslands að ESB. Þarna birtist sama valdaránshugsun og sú, sem býr að baki þeim ásetningi að hafa að engu eða útvatna vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu. Alþingi virðir ekki þjóðina sem stjórnarskrárgjafa, þótt kjósendur hafi lýst afdráttarlausum stuðningi við nýja stjórnarskrá, þar sem skýrt er kveðið á um, að Alþingi fari með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar. Alþingi ætlar sér að ganga til næstu kosninga skv. kosningalögum, sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi virðir ekki heldur sjálfsagðan rétt þjóðarinnar til að eiga síðasta orðið í ESB-málinu. Alþingismeirihlutinn daðrar nú við að dæma Ísland úr leik sem fullburða lýðræðisríki.

Engin Evrópuþjóð hefur hafnað aðild að ESB án þjóðaratkvæðis. Norðmenn eru eina þjóðin, sem hefur hafnað aðild að ESB í þjóðaratkvæði, fyrst með 54% atkvæða 1973 og síðan aftur með 52% atkvæða 1994. Grænlendingar sögðu sig úr ESB 1982 að loknu þjóðaratkvæði, þar sem 53% kjósenda sögðu nei við áframhaldandi aðild og 47% sögðu já. Svisslendingar höfnuðu aðild að EES 1992 með 50,3% gegn 49,7%, og þá voru viðræður um aðild Sviss að ESB lagðar á ís. Þeim var ekki slitið. Þær eru enn í biðstöðu. Hitt hefur aldrei gerzt, ekki fyrr en nú, að viðræðum um aðild að ESB sé slitið einhliða af hálfu stjórnmálaflokka á þingi og valdið til að eiga síðasta orðið um aðild að ESB sé hrifsað af kjósendum.

Lýðræðisöflin verða að halda vöku sinni. Þingályktunartillaga utanríkisráðherra um að slíta viðræðum við ESB snýst ekki um aðild eða ekki aðild að ESB eins og formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram. Málið snýst um, að réttur þjóðarinnar til að taka ákvörðun eftir réttum lýðræðislegum leikreglum verði ekki frá henni tekinn.