Leiðsögn þjóðfundarins
Þjóðfundur um stjórnarskrá var haldinn í Laugardalshöll í Reykjavík laugardaginn 6. nóvember 2010. Fundinn sóttu 950 manns af landinu öllu, frá 18 ára til 91 árs að aldri, og var kynjaskipting nánast jöfn. Sjö manna stjórnlaganefnd, skipuð af Alþingi, skipulagði þjóðfundinn og birti helztu niðurstöður hans. Þjóðfundargestir voru valdir af handahófi úr þjóðskrá. Fjöldi fundarmanna, 950 manns, tryggir, að niðurstöður þjóðfundarins endurspegla vilja þjóðarinnar í tölfræðilega marktækum skilningi. Allir Íslendingar 18 ára og eldri áttu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum. Fyrri þjóðfundur, sem áhugamenn víðs vegar að höfðu haldið með sama sniði árið áður, reyndist gagnleg fyrirmynd.
Þau tvö atriði, sem flestir þjóðfundarfulltrúar töldu skv. talningu mikilvægast að búa um í nýrri stjórnarskrá, eru jafnrétti og lýðræði. Stjórnlagaráð hlýddi kalli þjóðfundarins m.a. með því að kveða á um jafnt vægi atkvæða og auðlindir í þjóðareigu.
Þetta sagði þjóðfundurinn m.a. um mannréttindi: „Vægi atkvæða verði jafnt.“ Takið eftir þessu: Ekki jafnara, heldur jafnt. Tillaga um jafnt vægi atkvæða var fyrst borin fram 1849. Það gerði Fjölnismaðurinn Brynjólfur Pétursson, vinur Jónas Hallgrímssonar, nýkominn af danska stjórnlagaþinginu, sem hann sat sem fulltrúi Íslands. Tillaga Brynjólfs náði ekki fram að ganga. Tilraunir til að jafna atkvæðisréttinn, oftast undir forustu Sjálfstæðisflokksins, báru smám saman árangur, en þó ekki meiri en svo, að enn er tvöfaldur munur á vægi atkvæða milli landshluta. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, sem annast kosningaeftirlit í Evrópu, telur af jafnréttisástæðum, að misvægi atkvæða skuli ekki vera meira en tíu prósent og alls ekki meira en fimmtán prósent nema í undantekningartilvikum. Þjóðfundurinn hlýddi kallinu.
Þessu bætti þjóðfundurinn við um lýðræði til að hnykkja á boðskapnum: „Á Íslandi skal vera virkt og gagnsætt lýðræði. Vægi atkvæða verði jafnt í einu kjördæmi, kosningar með persónukjöri, þingseta þingmanna háð tímatakmörkunum og þeim fækkað. Lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni. Skipan dómara skal endurskoðuð. Kjósendur með jafnan atkvæðisrétt geti einir breytt stjórnarskrá.“ Skilaboðin voru skýr.
Þetta sagði þjóðfundurinn um auðlindir: „Náttúra og auðlindir landsins eru óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að aðgengi almennings sé tryggt. Setja þarf skýr lög um eigna- og nýtingarétt þjóðarinnar á auðlindum, náttúru og lífríki. Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir.“ Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa ályktað, að í stjórnarskrá skuli kveða á um auðlindir í þjóðareigu. Þjóðfundurinn var sama sinnis.
Þetta hafði þjóðfundurinn að segja um valddreifingu, ábyrgð og gagnsæi: „Tryggja þarf þrígreiningu valds þar sem hlutverk og ábyrgð ráðamanna séu skýr. Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Stjórnarskráin ætti að tryggja gagnsæi og eftirlit með stjórnsýslu. Fagmennska ráði för við ráðningar í störf í stjórnsýslunni. Endurskoða þarf vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans. Takmarka ætti þann tíma sem alþingismenn mega sitja á þingi. Tryggja þarf sjálfstæði dómstóla.“
Stjórnlagaráð hlýddi kalli þjóðfundarins að langmestu leyti svo sem lög gera ráð fyrir. Eina umtalsverða frávikið varðar Alþingi. Í ljósi þarfarinnar fyrir að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, eins og Rannsóknarnefnd Alþingis lýsti m.a. eftir, ákvað Stjórnlagaráð að leggja til óbreyttan fjölda þingmanna og óbreytt, þ.e. engin, tímamörk á setu alþingismanna á þingi. Alþingi er skv. frumvarpinu látið eftir að ákveða fjölda kjördæma, frá einu upp í átta. Því má segja, að Stjórnlagaráð hafi að þessu leyti gengið skrefinu skemmra en þjóðfundurinn lýsti eftir.
Frumvarp Stjórnlagaráðs er ýmist gagnrýnt fyrir að ganga of langt eða of skammt. Það liggur í hlutarins eðli. Frumvarpið, sem er sprottið af þjóðfundi, er hófsamt sameiningar- og sáttafrumvarp. Því er ætlað að standa vörð um þingræðisskipulagið og styrkja stöðu þess með því að treysta valdmörk og mótvægi til að girða fyrir ofríki framkvæmdarvaldsins, efla Alþingi og styrkja sjálfstæði dómstólanna.