Lausaganga búfjár
Það er merkilegt, að Íslendingum skuli ekki duga færri en tveir umhverfisflokkar í aðdraganda alþingiskosninganna 12. maí. Til þess virðast liggja tvær meginástæður. Mörgum umhverfissinnum þykir það ótækt, að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sitji ein að fylgi þeirra kjósenda, sem setja umhverfismál á oddinn. Þetta er sama hugsun og bjó á bak við Þjóðvarnarflokkinn í gamla daga: þá fannst mörgum það óheppilegt, að Sósíalistaflokkurinn sæti einn að fylgi þeirra, sem settu andstöðu sína við veru bandaríska varnarliðsins hér á oddinn. Hin ástæðan er sú, að mörgum virðast Vinstri grænir ekki vera heilir í umhverfisstefnu sinni. Þeir leggjast gegn erlendri mengun af völdum stóriðju, en ekki gegn innlendri mengun – uppblæstri landsins! – vegna lausagöngu búfjár og hrossa. Vinstri grænir standast ekki þetta einfalda próf, ekki frekar en aðrir flokkar nema kannski Íslandshreyfingin, sem gengur þó ekki lengra en svo í stefnuskrá sinni: „Stórauka þarf uppgræðslu og stefna að nýtingu afrétta í samræmi við beitarþol þeirra.” Enginn þeirra fimm flokka, sem eiga nú fulltrúa á Alþingi, virðist skeyta nóg um uppblástur landsins af völdum lausagöngu til að hafa orð á honum í stefnuskrám sínum – þrátt fyrir brýningar Halldórs Laxness, Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu, Ingva Þorsteinssonar náttúrufræðings og margra annarra landgræðslumanna í hundrað ár. Framtíðarlandið flaskar einnig á þessu atriði: í nýja sáttmálanum er ekki að finna eitt orð um uppblástur örfoka lands.
Kannski eru Íslendingar Rússar, þegar öllu er á botninn hvolft, og eftir því hirðulausir um landið og miðin, samanber ekki bara uppblásturinn og meðfylgjandi moldrok í öll þessi ár, heldur einnig þorskinn, hvalveiðarnar, tryllitækin í innanbæjarumferðinni í Reykjavík og um hálendið og umgengnina í fjörunni til dæmis við Skúlagötuna, þar sem fólk hefur fleygt heilum eldhúsinnréttingum og sófasamstæðum til að koma sér undan lítils háttar skilagjaldi. Óþrifnaðurinn í miðri Reykjavík minnir helzt á Grænland. Þess er þá ef til vill ekki að vænta, að Íslendingar hafi miklar áhyggjur af uppblæstri landsins og höfuðorsök hans, sem er og hefur alltaf verið óheft lausaganga búfjár og hrossa.
Einföld tölvuleit á google.com ýtir undir þennan ágenga grun, því að þar kemur fram, að lausaganga búfjár og hrossa vekur viðbrögð vegna þess eins, að hún eykur slysahættu í umferðinni. Þessar færslur eru dæmigerðar: „Hyggst dómsmálaráðherra grípa til einhverra aðgerða í kjölfar alvarlegra slysa á þjóðvegum landsins sem rekja má til lausagöngu búfjár?“ (althingi.is) „Lausaganga búfjár er stórhættuleg, sauðfé/kýr/hross geta komið inn um framrúðuna og þá eru menn dauðir í viðkomandi bifreið.“ (bilatorg.is) „Lausaganga búfjár á þjóðvegum landsins er tímaskekkja sem löngu ætti að vera búið að girða fyrir. Nauðsynlegt er að setja strangari reglur um búfé við vegi, til að stemma stigu við eignatjóni og slysum …“ (sus.is) „Æ fleiri þéttbýlisbúar munu … fá samgöngur á heilann og finnast lausaganga búfjár vera eitt helsta samfélagsmein þjóðarinnar.“ (brsi.is) Takið eftir þessu: hvergi orð um umhverfisvernd, ekki heldur hjá Vinstri grænum: „Það er ekki eingöngu lausaganga búfjár sem skapar slysahættu í umferðinni heldur eiga margir kúabændur i erfiðleikum með að reka kýrnar í haga eða heim til mjalta yfir þjóðvegi landsins.“ (vg.is) Þeir virðast líta svo á, að þjóðlegur uppblástur landsins vegna lausagöngu búfjár sé í góðu lagi, en umhverfisspjöll af völdum stóriðju séu óþolandi.
Landgræðsla ríkisins var stofnuð með lögum um „skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“ 1907. Hún mun vera ein elzta stofnun sinnar tegundar í heiminum. „Enn á sér þó stað hraðfara eyðing gróðurs og jarðvegs á Íslandi“, segir á vefsetri Landgræðslunnar. Og það er engin furða, úr því að menn fást ekki enn til að ráðast að rótum vandans með því að loka sauðfé og hross inni í girðingum. Hvernig á Landgræðslan að geta grætt landið, meðan hún heyrir undir landbúnaðarráðuneytið, taugamiðstöð lausagöngunnar? Það þarf að færa Landgræðslu ríkisins yfir til umhverfisráðuneytisins og fela henni að stöðva lausagöngu búfjár og hrossa án frekari tafar í stað þess að halda áfram að fleygja skattfé í vonlausa baráttu við lausgangandi búpening og hross, sem eira engum gróðri. Auk þess legg ég til, eins og ég gerði 1993, að landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður. Strax í vor.