DV
16. mar, 2012

Klukkan gengur

Alþingi samþykkti 22. febrúar sl. svohljóðandi ályktun með 31 atkvæði gegn 15: „Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 … fari í eftirfarandi ferli: … tillögurnar í heild, með breytingartillögum stjórnlagaráðs ef við á, ásamt spurningum um helstu álitaefni, verði bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu … 30. júní 2012 samhliða forsetakjöri.“ Í þessu felst, að „Þingsályktunartillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu komi til lokaafgreiðslu Alþingis eigi síðar en 29. mars 2012 og verði hún samþykkt skal þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt tillögunni fara fram 30. júní 2012 samhliða forsetakjöri.“

Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er í föstum farvegi. Klukkan gengur.

Gæti klukkan stöðvazt? Gæti farvegurinn færzt til? Hvað þyrfti til þess? Stjórnarandstaðan gæti reynt að spilla ferlinu með málþófi, þ.e. með því að setja á endalausar ræður til að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins í tæka tíð, þ.e. „eigi síðar en 29. mars“.

Stöldrum við þennan möguleika. Gögn sýna, að tíundi hver Íslendingur ber mikið traust til Alþingis. Hvað fyndist fólkinu í landinu, ef þingmenn stjórnarandstöðunnar sæjust í sjónvarpi dag eftir dag flytja sömu ræðurnar fram á nætur í þeim eina og augljósa tilgangi að koma í veg fyrir, að þjóðin megi sjálf fá að segja álit sitt á frumvarpi Stjórnlagaráðs? Ef þingmenn stjórnarandstöðunnar, og þá einkum Sjálfstæðisflokksins, reyna að hefta framgang lýðræðisins með þeim hætti, mun slíkt framferði vísast kalla fram hörð viðbrögð innan þings og utan. Ég leyfi mér því að efast um, að stjórnarandstæðingar áræði að grípa til málsþófs. Þeir þurfa eins og við hin að virða leikreglur lýðræðisins og lúta niðurstöðunni.

Stjórnarskrárfrumvörp mæta ævinlega andstöðu. Það stafar af því, að stjórnarskrár mæla fyrir um réttindi og skyldur. Réttur eins leggur skyldur á herðar annarra. Ákvæði frumvarps Stjórnlagaráðs um jafnt vægi atkvæði rýrir hlutfallslegt atkvæðavægi þeirra, sem hingað til hafa haft meiri atkvæðisrétt en íbúar höfuðborgarsvæðisins í alþingiskosningum. Ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu rýrir forréttindi þeirra, sem hafa hingað til getað gengið um auðlindina í hafinu sem sína einkaeign og hirt af henni nær allan arðinn. Ákvæðið um frjálsan aðgang að upplýsingum skerðir hag þeirra, sem hafa hingað til getað skammtað sjálfum sér forréttindi – t.d. margföld eftirlaun – undir leyndarhjúp.

Andstaða þessara afla gegn nýrri stjórnarskrá er skiljanleg, en þau sigla undir fölsku flaggi. Fáir mæla gegn jöfnum atkvæðisrétti, enda er hann sjálfsögð mannréttindakrafa í okkar samfélagi. Ójafn atkvæðisréttur (þ.e. jafn fjöldi öldungadeildarþingmanna í öllum fylkjum óháð mannfjölda) var eitt umdeildasta ákvæðið í stjórnarskrá Bandaríkjanna á sinni tíð. Misvægið er bætt með réttum hlutfallsfjölda fylkja í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Fáir mæla gegn auðlindum í þjóðareigu, enda hafa allir stjórnmálaflokkar á Alþingi samþykkt ályktanir í þá veru. Í ályktun Sjálfstæðisflokksins um atvinnumál á landsfundi 2011 segir t.d.: „Fyrir afnotaréttinn komi gjald er renni til ríkisins.“ Varla nokkur maður mælir á móti gegnsæi.

Við, sem viljum, að þjóðin fái að kjósa um nýja stjórnarskrá, segjum við andstæðinga frumvarpsins: Þið höfðuð sama rétt og aðrir til að gefa kost á ykkur og kjósa fulltrúa til setu á Stjórnlagaþingi. Þið höfðuð sama rétt og aðrir til að koma að málinu á öllum stigum og leggja Stjórnlagaráði lið, því að ferlið var opið frá fyrsta degi, allir voru velkomnir. Og nú er bara eitt eftir, og það er að leggja frumvarpið, sem Stjórnlagaráð samþykkti einum rómi í fyrra, í dóm þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu, þar sem öll atkvæði vega jafnt. Andstæðingarnir þurfa að muna, hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í Bandaríkjunum 1787-88. Bandaríska stjórnarskráin var samþykkt með 89 atkvæðum gegn 79 í Virginíu, sem var þá fjölmennasta fylkið, 30 gegn 27 í New York, 187 gegn 168 í Massachusetts og þannig áfram. Meiri hlutinn réð.