DV
5. okt, 2012

Kjörsókn og þjóðaratkvæði 

Sjö þjóðaratkvæðagreiðslur og tvær aðrar sambærilegar atkvæðagreiðslur hafa verið haldnar á Íslandi frá miðri 19. öld. Furðu sætir eftir á að hyggja, að þær skuli ekki hafa verið fleiri. Íslendingar fengu t.d. ekki að greiða atkvæði um stofnaðild Íslands að Nató 1949 og ekki heldur um aðild að ESB 1994, svo sem Austurríkismönnum, Finnum, Norðmönnum og Svíum bauðst það ár. Aðildin að Nató, sem Alþingi ákvað án þess að spyrja þjóðina, fól í sér umtalsvert framsal á fullveldi, þar eð Atlantshafssáttmálinn felur í sér, að árás á eitt aðildarríki er árás á þau öll. Ef Sýrland ræðst á Tyrkland á morgun, er Ísland komið í stríð.

Fyrsta atkvæðagreiðslan, sem líkja má við þjóðaratkvæðagreiðslu, fór fram fyrir þjóðfundinn 1851. Til setu á þjóðfundinum voru 37 menn þjóðkjörnir í sérstakri atkvæðagreiðslu, og voru 17 alþingismenn í hópi þeirra, sem náðu kjöri. Auk 37 þjóðkjörinna fulltrúa sátu þjóðfundinn sex konungkjörnir fulltrúar. Aðalgeir Kristjánsson leiðir líkur að því í bók sinni Endurreisn Alþingis og þjóðfundurinn (Sögufélag 1993), að kjörsókn í einstökum sýslum hafi verið á bilinu 17% til 76%, og höfðu aðeins þrjár sýslur kjörsókn yfir 50%. Heildartölur um kjörsókn fyrir þjóðfundinn eru ekki til. Aðalgeir áætlar, af orðalagi hans að dæma, að kjörsókn fyrir landið í heild hafi verið í kringum 30%. Hann nefnir til viðmiðunar, að kjörsókn við kosningu til stjórnlagaþingsins í Danmörku 1849, sem Brynjólfur Pétursson lögfræðingur og Fjölnismaður sótti fyrir Íslands hönd, hafi verið 33%.

Fyrsta eiginlega þjóðaratkvæðagreiðslan á Íslandi var haldin 1908, um áfengisbann, og var kjörsóknin 73%. Átta árum síðar, 1916, var kosið um þegnskylduvinnu, og var kjörsóknin þá 53% (tillagan var kolfelld með þessum rökum Eyjafjarðarskáldsins Páls J. Árdal: „Ó, hve margur yrði sæll og elska mundi landið heitt, mætti hann vera í mánuð þræll og moka skít fyrir ekki neitt“). Síðan var greitt þjóðaratkvæði um sambandslagasamninginn við Dani fullveldisárið 1918, og var kjörsóknin þá 44%. Afnám áfengisbannsins frá 1908 var borið undir þjóðaratkvæði 1933, og var kjörsóknin að því sinni 45% (afnámið var samþykkt).

Lýðveldisárið 1944 var uppsögn sambandslagasamningsins við Dani borin undir þjóðaratkvæði og einnig ný stjórnarskrá, sem var þó aðeins ætluð til bráðabirgða. Jáyrði í atkvæðagreiðslunni var snar þáttur í sjálfstæðisyfirlýsingu þjóðarinnar, og var kosningaþátttakan eftir því, eða 99%. Þjóðin þurfti að standa saman sem einn maður, þar eð stofnun lýðveldis í stríði var umdeild úti í heimi. Breytingum á stjórnarskránni 1944 var því haldið í lágmarki.

Árið 2010 var kosið til stjórnlagaþings líkt og til þjóðfundarins röskum 160 árum fyrr, og var kjörsóknin 37%. Loks þarf að bæta við listann þjóðaratkvæðagreiðslum um tvo Icesave-samninga við Bretland og Holland. Hin fyrri, 2010, var í reyndinni marklaus, þar eð samningurinn, sem málið snerist um, var ekki lengur til umræðu. Kjörsókn í þessum tveim Icesave-atkvæðagreiðslum var 63% 2010 og 75% 2011.

Séu atkvæðagreiðslurnar 1944 og um Icesave-samningana tvo teknar út fyrir sviga, þar eð þær eru óvenjulegs eðlis, er meðalkjörsókn í hinum sex atkvæðagreiðslunum 47%. Þetta er svipað meðaltal og í Sviss, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru mun tíðari en þær hafa verið hér heima. Meðalkjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss frá árinu 2000 þar til nú er 45% skv. fróðlegri samantekt Vilhjálms Þorsteinssonar hugbúnaðarfræðings og fv. stjórnlagaráðsfulltrúa. Það liggur í eðli þjóðaratkvæðagreiðslna um sérstök mál, að færri kjósendur taka þátt í þeim en alþingskosningum og sveitarstjórnarkosningum, þar sem stjórnmálaflokkar með fullar hendur fjár smala kjósendum sínum í kjörklefana, og einnig í forsetakosningum.

Kjörsókn skiptir ekki máli fyrir úrslit kosninga, ef engin lágmarkskrafa er gerð um kjörsókn í lögum. Meiri hlutinn ræður. Þetta eru leikreglur lýræðisins.