DV
18. jan, 2013

Ísland og Írland

Áratugum saman bjuggu Íslendingar og Írar við meiri höft og hömlur í efnahagslífinu en flestar aðrar Vestur-Evrópuþjóðir. Haftafárið helgaðist sumpart af því, að innlend stjórnvöld þóttust geta kennt Dönum og Bretum um ýmislegt, sem aflaga fór, einnig um eigin misgerðir. Sjálfsábyrgðartilfinningu stjórnmálastéttarinnar var eftir því ábótavant. „Hvað var það, sem gerðist 1874, þegar fjárhagur okkar var aðskilinn Danmörku? Í raun og veru ekki annað en það, að arðránið af alþýðunni færðist inn í landið. Það voru bara höfð þjóðernaskipti á ræningjunum“, lætur Halldór Laxness Arnald segja við Sölku Völku. Þannig er þetta enn sums staðar í Afríku, þar sem gamalli nýlendukúgun er kennt um ýmsar ófarir, þótt sums staðar sé hálf öld liðin frá því nýlenduherrarnir hurfu á braut. Suður-Kórea var rjúkandi rúst að loknu Kóreustríðinu 1953 og er nú 60 árum síðar eitt ríkasta land í heimi.

Lönd með langa haftasögu að baki þurfa að fara öðrum löndum varlegar við frívæðingu efnahagslífsins og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Nýliðin saga Rússlands og annarra Austur-Evrópuríkja eftir hrun kommúnismans ber vitni. Þar reis upp ný stétt manna, sem hrifsuðu til sín ríkiseignir í stórum stíl, án þess að almenningur fengi rönd við reist. Nýfrjálsir bankar og bældir stjórnmálamenn hegða sér stundum eins og kýrnar, þegar þær eru leystar út á vorin. Í þessu ljósi getur verið gagnlegt að skoða hremmingar Íslands og Írlands frá hruni 2008. Það er e.t.v. engin tilviljun, að bæði löndin urðu verr úti 2008 en Norðurlöndin yfirleitt í bankakreppunni þar í kringum 1990. Landsframleiðsla Íslands og Írlands skrapp saman um 10% eftir hrun 2008, áður en hún byrjaði að vaxa á ný. Samdrátturinn var svipaður í Finnlandi eftir bankakreppuna þar um 1990 og mun minni í Noregi og Svíþjóð. Sá er þó munurinn á Íslandi og Írlandi nú, að þar hefur atvinnuleysið aukizt í 14% af mannafla, en er 6% hér heima.

Írar og Íslendingar fóru ólíkar leiðir eftir hrun. Ríkisstjórn Írlands ákvað að ábyrgjast allar skuldbindingar bankanna, ekki bara tryggðar innstæður, heldur einnig allar aðrar skuldir þeirra. Þessi ákvörðun var tekin á símafundi um miðja nótt í þeirri trú, að skattgreiðendur gætu risið undir skuldafarginu. Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu lögðu að Írum að ábyrgjast allar skuldbindingar bankanna. Beinn herkostnaður, sem írskum skattgreiðendum er gert að bera vegna bankanna, nemur alls 60 milljörðum evra eða tæpum þriðjungi landsframleiðslunnar. Það gerir 13 þúsund evrur (2,2 mkr.) á hvert mannsbarn í landinu. Margir líta nú svo á, að um þessa skuld þurfi írska ríkisstjórnin að reyna að semja við lánardrottna írsku bankanna.

Á Íslandi blasti sú staðreynd við strax í byrjun, að skuldir bankanna höfðu vaxið ríkissjóði yfir höfuð. Því var útilokað að leggja það á skattgreiðendur að borga brúsann. Þess vegna ákvað ríkisstjórnin, að bankarnir hlytu að fara í þrot og segja sig frá skuldbindingum sínum við erlenda lánardrottna og aðra kröfuhafa. Samt hafði erlendum lánardrottnum verið gefið í skyn, að ríkið stæði að baki bönkunum, ef á þyrfti að halda, en sú leið reyndist ófær.

Sumir líta svo á, að þarna hafi Íslendingar gert betur en Írar með því að standa uppi í hárinu á erlendum bönkum. Það er hæpin ályktun. Íslendingar gátu einfaldlega ekkert annað gert. Það var ekki vinnandi vegur og ekki heldur rétt að láta skattgreiðendur axla skuldbindingar, sem námu fimmfaldri til sjöfaldri landsframleiðslu. Ærinn er vandinn samt, þar eð skuldir ríkissjóðs jukust eftir hrun um 64% af landsframleiðslu, sem jafngildir 2,8 mkr. á hvert mannsbarn í landinu, mun hærri fjárhæð en lögð var á írska skattgreiðendur. Meira en helmingur aukningar ríkisskuldarinnar (1,6 mkr. á mann) er til kominn vegna endurfjármögnunar Seðlabankans, sem varð tæknilega gjaldþrota, og föllnu bankanna, og nemur ekki nema fjórðungi lægri fjárhæð á hvern Íslending en beinn herkostnaður Íra vegna bankanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greiddi fyrir þessari lausn með því að útvega lán til að fleyta Íslandi yfir byrjunarerfiðleikana og leggja á ráðin um hagstjórnina.

Viðbrögð Íra við óförum landsins hafa verið býsna hörð. Þeir tóku stærsta stjórnmálaflokk landsins, Fianna Fáil, sem hefur verið við völd í 61 ár síðustu 80 árin, og tjörguðu hann og fiðruðu í kosningunum 2011. Flokkurinn tapaði þá 51 þingsæti af 71 og er nú ekki nema svipur hjá sjón; þeir 20 þingmenn, sem eftir eru, fara með veggjum. Fintan O’Toole, aðstoðarritstjóri Irish Times, hefur skrifað prýðilega bók um Írland og hrunið. Bókin heitir Ship of Fools: How Stupidity and Corruption Killed the Celtic Tiger. Bókarheitið segir í reyndinni allt sem segja þarf. Írar eru margir öskureiðir.