Fréttablaðið
23. nóv, 2006

Innflutningur vinnuafls

Frjálslyndir fagna jafnan hvers kyns viðskiptum milli manna, séu þau lögleg og siðleg. Jón Sigurðsson forseti ruddi brautina með miklum brag, þegar hann beitti sér í ræðu og riti fyrir frjálsari viðskiptum milli Íslands og annarra landa. Hann fékk því ráðið, að erlendri viðskiptaánauð og einokun var létt af Íslendingum 1855. Innanlandsverzlunin var þó áfram reyrð í ýmsa fátæktarfjötra, sem stöfuðu meðal annars af gjaldmiðilsskorti, óhagkvæmum vöruskiptum og þrásamlegri fákeppni, sem enn eimir eftir af. Alræmt var vistarbandið, sem lagði strangar hömlur á fólksflutninga milli staða til hægðarauka fyrir bændur, sem voru þá að kalla má einu vinnuveitendur landsins. Vistarbandið var ekki leyst fyrr en nokkru fyrir aldamótin 1900, og þá fyrst voru fólksflutningar innan lands leystir úr læðingi. Fákeppni á heimamarkaði lýsir sér enn sem endranær í hærra verði á ýmsum vörum og þjónustu en nálægar þjóðir eiga kost á, og verðmunurinn virðist meiri en smæð Íslands getur skýrt ein sér, þótt smæðin – fólksfæðin! – eigi einnig hlut að máli. Fákeppnin tekur á sig ýmsar myndir. Hún hefur til dæmis birzt í launamyndun í blóra við markaðsöfl, þar eð samtök vinnuveitenda og verklýðfélög semja um kaup og kjör á landsvísu, og hefur ýmsum veitt betur í þeirri viðureign í tímans rás. Til dæmis eru ríki og sveitarfélög að heita má einu vinnuveitendur kennara í grunnskólum og framhaldsskólum, og þau neyta afls til að halda launum kennara í skefjum. Eina færa leiðin til að bæta kjör kennara og efla menntun landsmanna svo sem nauðsyn ber til er að svifta ríkið og byggðirnar einokunaraðstöðu sinni með því að auka fjölbreytni í skólakerfinu og innleiða skilvirka samkeppni í skólastarfi.

Því fer þó alls fjarri, að íslenzkur vinnumarkaður sé allur á þessa bókina lærður. Þegar hver taug þjóðarlíkamans er þanin til þrautar eins og nú hefur háttað um nokkurt skeið, hækka vinnulaun, og verðlag hækkar þá einnig og þannig koll af kolli. Þannig skrúfaði verðbólgan sig í gegnum hagkerfið á fyrri tíð með víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Svo er þó ekki lengur í sama mæli og áður, því að aukinni eftirspurn eftir vinnuafli síðustu ár hefur ekki verið mætt með uppsprengdu kaupi með gamla laginu, heldur með innflutningi erlends vinnuafls í krafti aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Innstreymi vinnuafls að utan hefur aukið vinnuframboð á heimamarkaði og með því móti haldið aftur af hækkun launa og þá um leið verðbólgu. Innstreymið hefur einnig ýtt myndarlega undir uppsveifluna í efnahagslífinu með því að gera vinnuveitendum kleift að manna ýmsar stöður, sem erfitt er í góðæri að fylla með innlendu vinnuafli, til dæmis á spítölum og í fiskvinnslu. Við þetta hefur vinnuafl losnað og leitað nýrra verkefna. Allt er þetta í góðu samræmi við hugsjónina um fríverzlun á vinnumarkaði. Svipuð þróun á sér nú stað víðast hvar í nálægum löndum. Viðskiptafrelsi getur aukið allra hag, sé vel á málum haldið. Jón forseti hlýtur að brosa í gröfinni.

Er þá allt eins og það á að vera? Hlutdeild erlendra ríkisborgara í mannfjöldanum hér hélzt stöðug á bilinu eitt til tvö prósent 1950-1990 og er nú komin upp undir fimm prósent (2005). Þessi hlutföll hafa einnig hækkað ört að undanförnu í flestum nálægum löndum og eru mun hærri þar en hér. Ekki er þó mikið um það vitað, hvort innflutningur vinnuafls þangað er varanlegur eða tímabundinn að miklu leyti eins og hann væntanlega er hér vegna Kárahnjúka og ýmissa annarra framkvæmda. Hitt er vitað, að erlendis hafa yfirvöld gert ýmsar ráðstafanir til að taka á móti öllu þessu fólki og auðvelda því vistina í nýjum heimkynnum. Hér heima hefur lítið verið gert að því enn sem komið er. Reykvíkingar hafa eins og aðrir landsmenn stækkað bílaflota sinn til muna án þess að bæta gatnakerfi borgarinnar að neinu marki, svo að öngþveitið í umferðinni í Reykjavík líkist kraðakinu í miklu þéttbýlli borgum í öðrum löndum. Með líku lagi hafa yfirvöld hleypt útlendingum inn í landið í stríðum straumum án þess að búa í haginn fyrir þá. Það er því skiljanlegt, að Frjálslyndi flokkurinn – og ríkisstjórnin! – telji rétt að hægja ferðina í bili til að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til að taka vel á móti fólkinu. Nýbúar þurfa að læra íslenzku og semja sig að okkar siðum og sögu, og þeir geta líka kennt okkur ýmislegt. Meira næst.