Fréttablaðið
4. feb, 2010

Hvorki frjáls né fullvalda

Þeir, sem hæst hafa talað gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, hafa frá öndverðu lagt mesta áherzlu á fullveldishlið málsins. Þrjú sjónarmið vaka fyrir þeim og vega misþungt.

Fyrir sumum andstæðingum ESB-aðildar vega þjóðvarnarrökin þyngst. Að baki þeim rökum býr gömul og heiðvirð hugsun. Þjóðvarnarmönnum er annt um Ísland og allt, sem íslenzkt er. Þeir óttast um afdrif íslenzkrar menningar og tungu í straumkasti stórþjóðanna á vettvangi ESB. Þessi ótti er skiljanlegur, bæði hér heima og annars staðar. Engin önnur smáþjóð í Evrópu hefur látið aðild að ESB steyta á slíkum ótta. Eistar eru ekki nema fjórum sinnum fleiri en Íslendingar. Þeir eru smáþjóð líkt og við og að sama skapi viðkvæmir fyrir sögu sinni, tungu og menningu. Sagan, tungan og menningin stöppuðu í þá stálinu árþúsundum saman undir erlendu oki, síðast undir þungu fargi Sovétveldisins 1940-1991. Samt gengu Eistar glaðir inn í ESB 2004, án þess að um inngönguna væri umtalsverður ágreiningur af þjóðvarnarástæðum eða öðrum sökum. Reynslan af ofríki Rússa vó þungt. Eistar þykjast ekki hafa þurft að fórna neinum þjóðlegum verðmætum við inngönguna í ESB, og sama máli gegnir um Letta og Litháa og einnig um Austurríkismenn, Dani, Finna, Grikki, Íra, Portúgala og Svía. Hví skyldi annað lögmál gilda um Ísland?

Fyrir sumum öðrum andstæðingum aðildar að ESB virðist þó vaka lítið annað en gamlir fordómar gagnvart útlendingum ásamt nærsýnum ótta við vinnumissi af völdum erlendrar samkeppni. Þessi angi andstöðunnar gegn ESB-aðild er sömu ættar og andúðin á innflutningi erlends vinnuafls og skírskotar gjarnan til ýmissa vandamála í samskiptum innfæddra og nýbúa í nálægum löndum. Oft er hér um að ræða öfgamenn, sem reyna sumir að villa á sér heimildir með þjóðarvarnarrökum. Sé fordómunum flett utan af málflutningi þeirra, þannig að vinnuverndarrökin standi ein eftir, standast þau ekki skoðun. Greiðir fólksflutningar eru ásamt frjálsum viðskiptum einn helzti aflvaki hagsældar um heiminn. Innflutningur vinnuafls leiðir yfirleitt ekki til atvinnuleysis meðal innfæddra, heldur greiðir hann fyrir hreyfanleika mannaflans milli atvinnuvega og staða til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Bandaríkin voru reist á innfluttu vinnuafli. Evrópa er orðin að bræðslupotti líkt og Bandaríkin. Indverjar og Kínverjar búa milljónum saman um allan heim og láta gott af sér leiða. Þetta er reglan. Undantekningarnar eru aukaatriði.

Enn aðrir andstæðingar inngöngu í ESB bera fyrir sig skert fullveldi af völdum aðildar og mega ekki til slíks hugsa. En það er þó einmitt einn höfuðtilgangurinn með ESB-aðild að deila fullveldinu með öðrum til að skerða völd þeirra, sem hafa farið illa með vald á liðinni tíð. Land, sem hefur um margra áratuga skeið haldið illa á peningamálum sínum, þarf að deila peningastjórninni með öðrum til að hafa hemil á verðbólgu. Land, sem vanrækir alþjóðaviðskipti af undanlátssemi við innlenda sérhagsmuni, þarf að deila fullveldi sínu með öðrum til að sækja til þeirra styrk til að standa gegn innlendu ofríki. Harðdrægir sérhagsmunahópar leika sér að stjórnvöldum, en þeir geta ekki sagt ESB fyrir verkum. Útvegsmenn hafa keypt stjórnmálamenn í kippum eins og Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, lýsir í bók sinni, Umsátrið. Orðrétt segir Styrmir (bls. 206): „Handhafar kvótans … höfðu líf plássanna í hendi sér. … Það jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa upp gegn handhafa kvóta á landsbyggðinni.“ Greiðasta leiðin til að lækka vexti og verðlag og losna undan innlendu ofríki, gjaldeyrishöftum og öðrum heimatilbúnum ófögnuði er að semja sig að þeim húsaga, sem fylgir aðild að ESB. Við gætum að vísu gert þetta allt á eigin spýtur, en reynslan sýnir, að við gerum það ekki. Til þess þarf traustan gjaldmiðil, og þá er evran nærtækust og kallar á aðild að ESB.

Fullveldisrökin gegn aðild Íslands að ESB hafa holan hljóm í munni þeirra, sem steyptu þjóðinni í skuldir. Skuldug þjóð er hvorki frjáls né fullvalda. Útlendingar hafa nú alla þræði Íslands í hendi sér samkvæmt viðteknum umferðarreglum alþjóðlegra fjármála. Þeir, sem steyptu þjóðinni í skuldir og skertu fullveldi hennar, tefla þó enn fram fullveldisrökunum gegn ESB-aðild eins og ekkert hafi í skorizt. Þeir vilja fá frið til að skara áfram eld að eigin köku.