DV
10. jan, 2014

Hvert er þá orðið okkar starf?

Þegar Íslendingar fengu heimastjórn 1904, var kaupmáttur þjóðartekna á mann hér heima um helmingur af kaupmætti þjóðartekna á mann í Danmörku. Íslendingar voru þá m.ö.o. hálfdrættingar á við Dani. Lífskjör á Íslandi voru þá svipuð og þau eru nú í Gönu.

Næstu áratugi náðum við Dönum smátt og smátt.

Alþingishátíðarárið 1930 voru lífskjör á Íslandi orðin eins og þau eru nú á Indlandi. Árið 1960 voru lífskjörin hér orðin eins og þau eru nú í Kína. Og 1990 stóðu Íslendingar jafnfætis Dönum í efnahagslegu tilliti.

Kaupmáttur þjóðartekna á mann er algengasti mælikvarðinn á efnaleg lífskjör. Þessi kvarði hefur þó þann galla, að hann tekur fyrirhöfnina á bak við tekjuöflunina ekki með í reikninginn. Mikil óhagkvæmni kallar á mikla fyrirhöfn.

Kaupmáttur þjóðartekna á hverja vinnustund er betri lífskjarakvarði, því að þá er fyrirhöfnin tekin með í reikninginn. Vandinn er sá, að áreiðanlegar og alþjóðlega sambærilegar staðtölur um vinnustundir sáu ekki dagsins ljós fyrr en fyrir fáeinum árum.

Þetta skiptir máli, því að sumar þjóðir þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum vegna ýmislegrar óhagkvæmni, sem á þær er lögð.

Eða trúa menn því, að fákeppnin hér heima, sukkið og spillingin kosti ekki neitt? – og það í nýhrundu landi. Varla lengur.

Aldrei hafa heimilin þurft svo mjög á hjálp að halda eins og eftir hrun, en landbúnaðarstefnan stendur samt óbreytt með allri sinni óhagkvæmni, sem birtist m.a. í háu matarverði. Áfram skal hlaðið undir útvegsmenn á kostnað skattgreiðenda með gamla laginu, þótt sjávarútvegurinn standi ekki undir nema röskum fjórðungi gjaldeyristekna og margar mikilvægar stofnanir (Háskólinn, Landspítalinn, Ríkisútvarpið o.s.frv.) berjist í bökkum. Ekki bólar enn á samkeppni í bankakerfinu, og þannig mætti lengi telja.

Hér eru eina ferðina enn þrjár myndir, sem lýsa vandanum í hnotskurn.

Fyrsta myndin sýnir, að Ísland dróst skyndilega aftur úr öðrum Norðurlöndum í hruninu 2008 mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann. Þessi mynd er þó því marki brennd, að hún tekur ekki mið af því, að starfandi Íslendingar vinna mun lengri vinnuviku en starfandi menn annars staðar um Norðurlönd. Myndin tekur ekki heldur mið af því, að mun hærra hlutfall fólksfjöldans er starfandi hér en á öðrum Norðurlöndum (um 75% hér á móti rösklega 60% þar að jafnaði).

Miðmyndin sýnir, að á Íslandi þurfa menn að vinna lengri vinnuviku og lengri hluta ævinnar að jafnaði, þ.e. mun fleiri vinnustundir á mann á heildina litið, til að ná endum saman.

Þriðja myndin er leidd af fyrri myndunum tveim. Hún sýnir, að Ísland byrjaði að dragast aftur úr öðrum Norðurlöndum löngu fyrir hrun í efnahagslegu tilliti, ef kaupmáttur þjóðartekna á hverja vinnustund er hafður til marks.

Hrunið var bara ein afleiðing og birtingarmynd landlægrar óhagkvæmni, sem hefur dregið lífskjör almennings svo langt niður, að Íslendingar eru nú ekki nema rösklega hálfdrættingar á við Dani mælt í kaupmætti þjóðartekna á hverja vinnustund líkt og var um aldamótin 1900.

Gleðilegt ár.

 

Mynd 1. Kaupmáttur landsframleiðslu á mann 1980-2012 (Bandaríkjadollarar)

Mynd 2. Vinnustundir á mann 1990-2012

Mynd 3. Kaupmáttur landsframleiðslu á vinnustund 1990-2012 (Bandaríkjadollarar)