DV
15. okt, 2012

Hvers vegna þjóðaratkvæði?

Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn kemur, 20. október, er haldin til að virða hvort tveggja í senn, ákvörðun Alþingis og vilja þjóðarinnar. Alþingi ákvað á sínum tíma með 35 atkvæðum gegn 15 að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna. Meiri hlutann skipuðu þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi öðrum en Sjálfstæðisflokknum. Áður, 28. september 2010, hafði Alþingi samþykkt einum rómi, með 63 atkvæðum gegn engu, ályktun um að „endurskoða … stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“. Hinn 12. júní 2010 sagði formaður Sjálfstæðisflokksins í ræðustóli Alþingis, að flokkur hans „myndi ekki leggjast gegn þessu máli, heldur styðja það, að endurskoðun stjórnarskrárinnar fari fram“. Í sömu umræðu sagði varaformaður Framsóknarflokksins, sem hafði sett endurskoðun stjórnarskrárinnar sem skilyrði fyrir stuðningi við minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og VG 2009, „mikilvægt, að þing og þjóð gangi í takt: Til hamingju Ísland.“ Þegar kallað er eftir því, að þing og þjóð gangi í takt, er það þingið, sem á að ganga í takt við þjóðina, ekki öfugt. Þingið sækir umboð sitt til þjóðarinnar. Það stendur skýrum stöfum í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár, en ekki í lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.

Hryggjarstykkið í því frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, sem borið verður undir þjóðaratkvæði 20. október, er niðurstaða þjóðfundarins 2010. Fundinn sóttu 950 manns af landinu öllu, 18 ára til 91 árs, karlar og konur í nánast jöfnum hlutföllum. Sjö manna stjórnlaganefnd, skipuð af Alþingi, skipulagði þjóðfundinn undir forustu Guðrúnar Pétursdóttir líffræðings, formanns nefndarinnar, og birti helztu niðurstöður hans. Breið samstaða náðist á Alþingi um skipun stjórnlaganefndar. Sjálfstæðisflokkurinn átti mikinn og þakkarverðan þátt í því samkomulagi og einnig í þjóðfundinum. Þjóðfundargestir voru valdir af handahófi úr þjóðskrá. Fjöldi fundarmanna, 950 manns, tryggir, að niðurstöður þjóðfundarins endurspegla vilja þjóðarinnar í tölfræðilega marktækum skilningi.

Allir Íslendingar 18 ára og eldri áttu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum og leggja þar grunninn að nýrri stjórnarskrá. Það er kjarni málsins. Hlutverk Stjórnlagaráðs var í reyndinni ekki annað en að færa niðurstöður þjóðfundarins í nothæfan frumvarpsbúning. Stjórnlagaráð taldi það skyldu sína að virða niðurstöður þjóðfundarins að sem flestu leyti. Það tókst með smávægilegum frávikum eins og ég lýsti á þessum stað á föstudaginn var.

Forsaga málsins er kunn. Með lýðveldisstjórnarskránni var tjaldað til einnar nætur. Þetta má lesa í Alþingistíðindum (1944, A, bls. 312-313): „[H]efur greinilega komið í ljós nú í umræðum … á Alþingi, í blöðum og víðar í tilefni þjóðaratkvæðagreiðslunni um lýðveldisstjórnarskrána, að brýn nauðsyn er til þess, að hinni almennu endurskoðun verði hraðað og til hennar vandað. Þjóðin virðist á einu máli um það, að stjórnskipunarlög þau, sem við nú búum við, séu á margan hátt svo gölluð og úrelt, að ekki verði við lengur unað. […] Má fullyrða, að ekkert hefði hindrað almenning í að láta í ljós óánægju sína með stjórnarskrána við atkvæðagreiðsluna í s.l. mánuði annað en sú óhjákvæmilega nauðsyn, að þjóðin sýndi samhug sinn um stofnun lýðveldisins, en léti ekki óánægju með einstök atriði stjórnarskrárinnar, sem ekkert stóðu í sambandi við sjálfa lýðveldisstofnunina, verða til þess að tvístra þjóðinni.“ Þjóðin þurfti þá að standa saman sem einn maður að lýðveldisstofnun í miðri heimsstyrjöld m.a. til að tryggja viðurkenningu stórveldanna. Flokkarnir smöluðu kjósendum á kjörstað.

Vert er að rifja upp fleira, sem stendur í einróma ályktun Alþingis 28. október 2010. Þar segir: „Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni, … að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega , … að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Og hvað sagði Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184): “Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallaratriði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa.” Endurskoðun stjórnarskrárinnar nú er mikilvægur hlekkur í uppgjöri þjóðarinnar við hrunið. Alþingi óskar eftir leiðsögn kjósenda 20. október. Það gerist sárasjaldan, að Alþingi ráðfæri sig þannig við fólkið í landinu. Síðast þurfti potta og pönnur. Nú dugir kjörseðill.