Fréttablaðið
10. júl, 2008

Hverjum var boðið?

Bandaríska rannsóknastofnunin The Conference Board hefur um 90 ára skeið séð fyrirtækjum um allan heim fyrir hagnýtum upplýsingum um rekstur og afkomu fyrirtækja og þjóða. Stofnunin hefur nokkur undangengin ár fengið hagfræðinga í Háskólanum í Groningen í Hollandi til að taka saman tölur um vinnustundir í ólíkum löndum til að geta birt alþjóðlega sambærilegar tölur um þróun landsframleiðslu á vinnustund, öðru nafni vinnuframleiðni, sem er skásti tiltæki mælikvarðinn á efnahagsárangur þjóða, afköst og lífskjör. Það er vandalaust að meta framleiðslu á mann: það er gert með því að taka framleiðsluna úr þjóðhagsreikningum og deila í hana með fólksfjöldanum, sem er auðfundinn á Hagstofunni. Erfiðara er að reikna landsframleiðslu á hverja vinnustund, þar eð vinnustundir eru taldar með ýmsum hætti í ólíkum löndum (sumir telja til dæmis matartímana með, aðrir ekki). Framlag hagfræðinganna í Groningen er að birta samræmdar vinnutímatölur fyrir mörg lönd til að geta slegið máli á landsframleiðslu á vinnustund. Nýlega birtu þeir tölur um 2007.

Kaupmáttur landsframleiðslu á hverja vinnustund á Íslandi 2007 var 36 Bandaríkjadollarar samkvæmt nýju skýrslunni frá Groningen á móti 44, 45 og 46 dollurum í Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð og 70 dollurum í Noregi. Þetta er uppskeran eftir atgang, raup og rosta síðustu ára. Bilið milli okkar og hinna virðist munu breikka á þessu ári og næsta eins og nú horfir í efnahagslífinu. Þessi niðurstaða þarf ekki að koma neinum á óvart. Íslendingar þurfa enn sem fyrr að burðast með afleiðingar ýmislegrar óhagkvæmni, sem stjórnvöldum hefur reynzt um megn eða þau hafa vanrækt að uppræta: svimandi hátt matarverð, himinháa vexti og þannig áfram. Hátt verð og háir vextir rýra kaupmátt heimilanna og knýja launafólk til að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman, og háir vextir íþyngja einnig atvinnulífinu. Þessi slagsíða er þung röksemd fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið án frekari tafar. Í þeim félagsskap yrði Ísland að taka sér tak eins og ég lýsti í bók minni Síðustu forvöð 1995.

Hvers vegna er vinnuframleiðni mun minni á Íslandi en annars staðar um Norðurlönd? Hvers vegna er hún minni en alls staðar annars staðar í Vestur-Evrópu nema í Portúgal? – svo sem sjá má á krítartöflunni á vefsetrinu mínu www.hi.is/~gylfason. Til þessa virðast liggja þrjár höfuðástæður. Í fyrsta lagi er fjárfesting hér of lítil og nýtist of illa. Vinnandi fólk hefur því ekki nægan tækjabúnað í höndunum til að flýta sem mest fyrir sér við vinnu sína. Þetta stafar öðrum þræði af því, að húsbyggingar hafa tekið til sín stóran hluta fjárfestingar og dregið úr hlut atvinnuveganna í heildarfjárfestingu. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði og mannvirkjum hefur tvöfaldazt miðað við landsframleiðslu frá 1995. Hlutdeild fjárfestingar í vélum og tækjum í heildarfjárfestingu hefur minnkað úr tæpum helmingi 1990 niður í þriðjung 2007 og dregið úr vinnuframleiðni. Við þessa slagsíðu bætast gamalgróin vandamál í sjávarútvegi. Fiskiskipaflotinn hefur ekki minnkað að neinu marki, þótt aflinn minnki ár frá ári – trúlega m.a. vegna ofveiði, brottkasts og löndunar fram hjá vigt líkt og annars staðar í álfunni, ef marka má frásagnir sjómanna, og vegna djúpstæðs ágreinings um skiptingu sjávarrentunnar og tengdra mannréttindabrota að dómi Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Aflasamdráttur að óbreyttu fjármagni og vinnuafli þýðir minni framleiðni í sjávarútvegi.

Í annan stað hafa stjórnvöld ekki gefið nægan gaum að mikilvægi menntunar í atvinnulífinu þrátt fyrir auknar fjárveitingar til menntamála síðustu ár. Gamlar vanrækslusyndir draga dilk á eftir sér. Hlutfall vinnandi fólks með framhaldsskólapróf er fjórðungi lægra hér en í Danmörku. Árslaun kennara voru tæpum þriðjungi lægri hér en í Danmörku 2005, segir OECD. Við þetta bætast aðrar búsifjar, svo sem þörfin fyrir mikla vinnu til að ná endum saman í rekstri heimilanna. Of mikið vinnuálag virðist líklegt til að draga úr afköstum og rýra almenn lífsgæði.

Í þriðja lagi voru ýmsar efnahagsumbætur á liðnum árum ekki vel útfærðar. Bankarnir uxu efnahagslífinu yfir höfuð á örskotshraða og búa eins og sakir standa við skert lánstraust erlendis, enda hafa stjórnvöld lítið aðhafzt til að tryggja þeim eðlilegt starfsumhverfi. Íslendingar þurfa enn sem fyrr að gera sér að góðu mun lakari lífskjör en Danir. Veizlunni er lokið. Var þér boðið?