Hvað tekur nú við?
Úrslit lýðræðislegra kosninga eru ævinlega fagnaðarefni. Fögnuðurinn stafar ekki af því, að úrslitin horfi ævinlega til framfara, enda getur það hæglega komið fyrir, að kjósendur láti freistast til að taka ranga stefnu, jafnvel norður og niður. Það er þeirra réttur og verður aldrei frá þeim tekinn. Nei, fögnuðurinn stafar af hinu, að úrslitin eru óvefengjanleg. Lýðræði felst í því, að engum leyfist undir neinum kringumstæðum að taka fram fyrir hendurnar á kjósendum. (Þessa reglu braut Alþingi að vísu fyrir nokkru, þegar það ákvað að salta þjóðaratkvæðagreiðsluna um nýju stjórnarskrána.)
Síðasta kjörtímabil kallaði Alþingi yfir sig meira vantraust kjósenda en áður hefur mælzt. Kannanir sýna, að níu af hverjum tíu kjósendum vantreystu Alþingi. Hlutfallið var sjö af hverjum tíu fyrir hrun. Þetta gerðist þrátt fyrir meiri endurnýjun þingheims í kosningunum 2009 en dæmi eru um frá fyrri tíð. Vandinn var sá, að endurnýjunin átti sér að langmestu leyti stað á forsendum gömlu stjórnmálaflokkanna og innan vébanda þeirra. Nýir þingmenn spruttu úr jarðvegi gömlu flokkanna frekar en utan flokkanna. Sú endurnýjun á Alþingi, sem nú er í vændum, er sama marki brennd. Gömlu flokkarnir verða alls ráðandi á þinginu sem fyrr með nýjar kennitölur.
Sú hætta vofir nú yfir, að búsáhaldabyltingin fjari út, án þess að stjórnmálaflokkarnir fáist til að viðurkenna ábyrgð sína á hruninu nema að litlu leyti og án þess að Alþingi sjái ástæðu til að virða eigin ályktanir um að draga lærdóma af hruninu og eigin heitstrengingar um nýja stjórnarskrá. Sú hætta blasir nú við, að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem mesta ábyrgð báru á hruninu m.a. með spilltri einkavæðingu bankanna, dragi þá ályktun af úrslitum kosninganna, að kjósendur hafi nú tekið þá í sátt. Sumir kynnu að ganga enn lengra og álykta sem svo, að úrslitin jafngildi samsektarviðurkenningu kjósenda og leysi stjórnmálamenn og jafnvel bankamenn undan ábyrgð á hruninu. Því geti flokkarnir nú að loknum kosningum barið sér á brjóst og þótzt vera lausir allra mála eftir þeirri reglu, að enginn ber ábyrgð, ef allir bera ábyrgð. Þessu fylgir jafnframt hætta á, að dómsmál gegn þeim, sem grunaðir eru um lögbrot í aðdraganda hrunsins, verði látin fjara út líkt og Alþingi lét fjara undan rannsókn á einkavæðingu bankanna og hugsanlega sekt fyrnast. Hættan er sú, að þeir, sem sízt skyldi, þykist á endanum ekki hafa neitt að læra af hruninu. Þá er næsta víst, að sagan mun endurtaka sig með nýjum kollsteypum eða jafnvel nýju hruni. Ísland gæti þá orðið endanlega viðskila við Norðurlönd í efnahagslegu tilliti.
Ekki er enn vitað, hvers konar ríkisstjórn verður mynduð á næstunni. Hitt er næsta víst, að eigi Framsókn aðild að stjórninni, svo sem eðlilegt hlýtur að teljast í ljósi úrslitanna, þá mun stjórnin eiga tveggja kosta völ: að efna loforðið, sem Framsókn gaf kjósendum um lausn á skuldavanda heimilanna skattgreiðendum að kostnaðarlausu, eða svíkja loforðið. Ef Framsókn reynir að efna loforðið um að færa niður skuldir heimilanna ríkissjóði að kostnaðarlausu, mun brátt koma ljós, að það er ekki hægt nema með því að hleypa verðbólgunni aftur á skrið án verðtryggingar og setja efnahagslífið þá um leið í bál og brand með gamla laginu. Verðbólga er að sönnu gamalreynd aðferð til skuldajöfnunar, en hún á ekki vel við í alræmdu verðbólgubæli, þar sem stjórnvöld hafa síðustu 20 árin keppt að því með misjöfnum árangri að ná tökum á verðbólgunni. Hinn kostur Framsóknar er að svíkja loforðið, annaðhvort með því að hætta við að færa niður skuldir heimilanna skattgreiðendum að kostnaðarlausu eða með því að færa niður skuldirnar á kostnað ríkisins, enda er Íbúðalánasjóður í eigu ríkisins umsvifamesti húsnæðislánveitandinn. Líklegt virðist, að niðurfærsla skulda á kostnað skattgreiðenda verði mun umfangsminni en Framsókn lofaði fyrir kosningar.
Ekki er gott að vita, hvor þessara tveggja undankomuleiða Framsóknar myndi mælast verr fyrir meðal kjósenda. Hitt má telja víst, að næstu misseri verða viðburðarík, enda bíða nýrrar ríkisstjórnar erfið verkefni, sem vandséð er, að gömlu flokkarnir hafi nokkra burði til að leysa, sé framganga þeirra á fyrri tíð höfð til marks. Fortíð gömlu flokkanna lofar ekki góðu um framhaldið. En sýnum þeim samt þolinmæði og óskum þeim blessunar. Þjóðin kaus þá og situr uppi með þá.