DV
21. sep, 2012

Hvað gerðu Norðmenn?

Sjaldan berast slæmar fréttir af norskum efnahag, ef undan er skilin bankakreppan þar fyrir röskum 20 árum. Sjaldan eða aldrei hefur borizt þaðan frétt af alvarlegum ófriði eða ósamkomulagi um náttúruauðlindir, þótt olíuauður Norðmanna sé mikill að vöxtum. Eina umtalsverða undantekningin frá reglunni er tillaga Framfaraflokksins um að veita meiru af olíutekjum Norðmanna inn í hagkerfið heima fyrir, en aðrir flokkar í norska stórþinginu hafa staðið gegn Framfaraflokknum í því máli. Þjóðartekjur á mann í Noregi eru nú orðnar um tvisvar sinnum hærri en á Íslandi. Hvers vegna ríkja friður og sátt um stjórn norskra olíulinda? – á meðan Ísland logar í langvinnum í ófriði um fiskveiðistjórn.

Svarið við spurningunni er einfalt. Norsk stjórnvöld gættu þess strax í upphafi að setja lög og reglur til að tryggja hagkvæmni og gegnsæi og girða fyrir hættuna á ófriði og spillingu í tengslum við olíuvinnslu. Norsk stjórnvöld skildu, að náttúruauðlindir geta verið eldfimar, enda loga mörg olíulönd í ófriði og spillingu. Írak, Íran og Nígería eru augljós dæmi.

Norska ríkið hefur undangengna áratugi leyst til sín um 80% af tekjunum af olíulindunum og lagt mestan hluta fjárins til hliðar í sérstakan olíusjóð, sem er ætlaður þjóðarheildinni á jafnréttisgrundvelli. Sjóðurinn heitir nú eftirlaunasjóður og nemur nú um 100 þúsund dollurum (12,5 mkr.) á hvert mannsbarn í Noregi. Enginn norskur stjórnmálamaður hefur auðgazt á olíuvinnslunni eða löggjöfinni um hana, svo vitað sé.

Í þessum anda ákvað norska stórþingið m.a. að setja sér tíu olíuboðorð strax árið 1971, áður en olíuvinnslan hófst fyrir alvöru. Fyrsta boðorðið kveður á um eftirlit og stjórn ríkisins á allri starfsemi á norsku landgrunni. Fjórða boðorðið kveður á um, að olíuvinnslan verði að taka tillit til annarra atvinnuvega og til umhverfisverndar. Sjöunda boðorðið kveður á um, að ríkið þurfi á öllum stigum að tryggja, að olíuvinnslan þjóni norskum almannahagsmunum og olíubúskapur Norðmanna nái máli á heimsvísu. Andinn að baki boðorðanna vísaði á árangurinn, sem Norðmenn hafa náð.

Þessa nærtæku fyrirmynd að hagkvæmri og réttlátri auðlindastjórn hefur Alþingi kosið að virða að vettugi þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um áratuga skeið. Ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er ætlað að rétta kúrsinn af. Þar er kveðið skýrt að orði:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Norðmönnum hefur ekki tekizt að prýða fiskveiðistjórn sína sömu kostum og olíustjórnina. Það stafar trúlega af því, að líkt og flestar aðrar Evrópuþjóðir telja Norðmenn fiskveiðar skipta svo litlu máli fyrir þjóðarbúskapinn, að mikil óhagkvæmni sé viðunandi. Íslendingar hafa ekki efni á þvílíkum lúxus, allra sízt nú, þegar þjóðin þarf að bera þungar byrðar vegna hrunsins, sem átti upptök sín m.a. í ókeypis afhendingu aflaheimilda og einkavæðingu gömlu ríkisbankanna í sama silfurfatsanda.