Hvað á að gera við bankana?
Ríkisbankarnir gömlu gáfust ekki vel. Þeir hlunnfóru sparifjáreigendur til að geta mulið undir vel tengda lántakendur. Stjórnmálaflokkarnir misnotuðu bankana miskunnarlaust í eigin þágu. Þess vegna dróst að koma bönkunum úr ríkiseigu í einkaeign, lengur en í kommúnistalöndunum fyrrverandi, en það tókst þó á endanum. En þá tókst ekki betur til en svo, ríkisstjórnarflokkarnir þáverandi seldu bankana í hendur flokksgæðinga frekar en að laða að landinu einhvern traustan erlendan banka, t.d. Skandinaviska Enskilda Banken eins og til stóð um hríð, en horfið var frá til að tryggja „talsamband við flokkinn“ eins og ritstjóri Morgunblaðsins komst að orði.
Einkavæðing bankanna var klæðskerasaumuð handa einkavinum valdsins svo sem ráða má t.d. af lögum frá 2002 um fjármálafyrirtæki, en þar stendur í 52. grein: „Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, …“ Höfundur þessa lagatexta mætti gjarnan gefa sig fram.
Þessi 10 ára undanþága var bersýnilega sérhönnuð handa einum aðalkaupanda Landsbankans, manni, sem gerðist formaður bankastjórnarinnar með framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins sér við hlið og lýsti sig fáeinum árum síðar gjaldþrota, hljóp frá 750 milljón dollara skuld, en þar af nam skuldin við Landsbankann 500 milljónum dala. Þetta er eitt allra stærsta gjaldþrot einstaklings, sem sögur fara af á heimsvísu. Bankaráðsformaðurinn sagði við skýrslutöku hjá RNA, að hann teldi, að bankinn hefði verið „mjög ánægður með að hafa [sig] sem lántakanda“. Skyldi maðurinn hafa trúað þessu sjálfur? RNA segir um þetta: „Almennt séð eru starfsmenn banka ekki í góðri stöðu til að meta á hlutlausan hátt hvort eigandi hans sé góður lántakandi eða ekki.“ (2. bindi, bls. 33).
RNA birti upplýsingar um svimandi háa fjárstyrki og lán Landsbankans og hinna bankanna til stjórnmálamanna og flokka (8. bindi, bls. 164-170; 2. bindi, bls. 200-201). Einhverra hluta vegna birti RNA aðeins upplýsingar um þá alþingismenn, sem skulduðu bönkunum 100 mkr. eða meira, þegar bankarnir féllu. Nær hefði verið að birta nöfn þeirra stjórnmálamanna, sem skulduðu bönkunum t.d. 50 mkr. eða meira. Það er enn hægt. Alþingi getur sett lög um birtingu þessara upplýsinga, bæði lán og afskriftir, enda veitti Alþingi RNA lagaheimild til að birta þær.
Nú situr að störfum nefnd, sem rannsakar fall sparisjóðanna. Nefndin hlýtur að birta upplýsingar um fyrirgreiðslu sparisjóðanna við stjórnmálamenn og mun væntanlega birta upplýsingar um hana í samhengi við fyrirgreiðslu Landsbankans og hinna bankanna við stjórnmálamenn og flokka. Fólkið í landinu þarf að fá að vita um þessi lán og um stöðu þeirra. Ekki fer vel á, að þingmenn, sem skulda bönkum og sjóðum stórfé eða hafa þegið afskriftir skulda, fjalli um bankamál á Alþingi.
Rökin fyrir því, að ríkið eigi helzt ekki að standa í bankarekstri, ekki frekar en öðrum rekstri, sem heilbrigt einkaframtak ræður við, standa enn óhögguð. Gildir þá einu, að ríkisbankarekstur tíðkast sums staðar erlendis, t.d. í Þýzkalandi, og ríkið hefur víða þurft að koma bönkum til bjargar, m.a.s. í Bandaríkjunum. Spillt einkavæðing er ekki áfellisdómur yfir einkavæðingu, heldur yfir spillingu.
Rökin fyrir einkabankarekstri þarfnast samt endurskoðunar, þar eð bankarekstur er gerólíkur flestum öðrum rekstri að því leyti, að stórir bankar geta lagt heil hagkerfi í rúst. Ríkisvaldið þarf í ljósi reynslunnar að setja bönkum skýrar reglur og skorður. Alþingi þarf að nema úr gildi 10 ára undanþáguna, sem lýst var að framan, og setja reglur um launakjör bankamanna m.a. til að girða fyrir kaupauka í hlutfalli við útlán og önnur viðskipti án tillits til áhættu. Slíkir kaupaukar freistuðu bankamanna fyrir hrun til að lána sem mest án tillits til, hvort lántakendur væru líklegir til að standa í skilum. Sama tillaga um afnám kaupauka handa bankamönnum er nú uppi í Bandaríkjunum, enda nær það hvernig sem á er litið engri átt hvorki þar né hér né annars staðar að halda áfram að freista bankamanna til að varpa mikilli áhættu á axlir annarra. Alþingi þarf að byrgja brunninn.