Morgunblaðið
14. feb, 2008

Hólmfríður Pálmadóttir: Minning

Tengdamóðir mín, Hólmfríður Pálmadóttir, var sonardóttir Sveins Gunnarssonar bónda á Mælifellsá. Sveinn gat sér frægð fyrir bók, sem Sigurður Nordal prófessor lýsir svo í höfuðriti sínu, Íslenzkri menningu: „Eg hef alltaf dáðst að gömlum Skagfirðingi, sem tók saman ævisögu sína og kallaði hana Veraldarsögu Sveins á Mælifellsá.“ Veraldarsaga Sveins var saga hans sjálfs. Hann brá búi um miðjan aldur og fór víða, gerðist kaupmaður á Sauðárkróki, fór síðan til Reykjavíkur og rak um tíma verzlun í turninum, sem stóð lengi á Arnarhóli og Lækjartorgi og stendur nú við Reykjavíkurtjörn. Sveinn hafði búðina á neðri hæðinni og bjó uppi.

Pálmi Sveinsson, faðir Hólmfríðar, var bóndi á Reykjavöllum í Skagafirði, barngóður, glaðvær og söngvinn svo sem algengt er um Skagfirðinga. Guðrún Valberg, móðir Hólmfríðar, var mikil búsýslukona, tamdi hrossin, ræktaði jurtir og hafði myndarlegan blómaskrúðgarð við bæinn. Þeim Pálma og Guðrúnu varð sex barna auðið, eitt þeirra dó kornungt, hin fimm komust á legg. Af þeim er kominn álitlegur kynbogi.

Hólmfríður flutti til Reykjavíkur strax eftir stríð og gerðist engu minni Reykvíkingur en Skagfirðingur. Hún gekk að eiga Bjarna Kr. Ólafsson rafvirkjameistara. Þau bjuggu fyrstu tíu hjúskaparár sín í einu herbergi hjá foreldrum Bjarna í verkamannabústöðunum við Hringbraut, eignuðust þrjú börn þar og önnur tvö, eftir að þau stofnuðu heimili 1957 að Tómasarhaga 19. Þar bjuggu þau til æviloka í falslausri sátt og samlyndi. Aldrei bar heldur skugga á sambúð Hólmfríðar og tengdaforeldra hennar. Þegar Bjarni og Hólmfríður fluttu á Tómasarhagann, fylgdu gömlu hjónin þeim.

Bjarni lærði söng hjá Franz Mixa, þekktum tónlistarkennara, hann hafði bjarta tenórrödd, sem þótti bera keim af Benjamino Gigli eða Tito Schipa. Hugur Bjarna stóð þó ekki til mikils frama á listabrautinni, því að hann var hóglátur að upplagi. Hann lék Ketil skræk á móti Erlendi Ó. Péturssyni í hlutverki Skugga-Sveins í rómaðri uppfærslu í Bárunni.

Þegar ég spilaði fyrsta kaflann í fimmtu sinfóníu Beethovens fyrir fjögurra ára gamlan sonarson minn, varð honum á orði: „Mikið skolli er þetta nú annars gott hjá honum Beethoveni.“ Þágufallshreystina sækir hann til Hólmfríðar, langömmu sinnar, og rímgleðina. Hann lítur á málið sem leikfang líkt og Hólmfríður gerði. Gamalt og gott sveitamál og skáldskapur léku á vörum hennar. Og hún gekk glöð til allra verka og hallaði aldrei orði á nokkurn mann. Hún vaknaði á undan öllum öðrum og gekk síðust til náða, sagðist hafa nægan tíma til svefns, þegar þar að kæmi. Hún hafði lært saum hjá Dýrleifi Ármann, þekktri saumakonu í Reykjavík, og saumaði alla ævina fín föt handa fjölda fólks úr öllum áttum og einnig handa fyrirtækjum. Hún var léttlynd eins og faðir hennar, skipti aldrei skapi, elskaði ys og þys og hafði yndi af góðum félagsskap. Bjarna bónda sinn missti hún 1986, en hún naut áfram samvista við elzta soninn Pálma í foreldrahúsum. Hennar er sárt saknað.