DV
15. jún, 2012

Hnípin Evrópa

Menn greinir á um efnahagsvandann í Evrópu og einnig í Bandaríkjunum. Sumir telja, að hagfræðin hafi brugðizt sem fræðigrein og leiðarvísir. Ég er á öðru máli, þótt ríkjandi hagfræði þarfnist ýmislegra endurbóta. Ég tel ágreininginn um efnahagsvandann snúast um stjórnmál, ekki hagfræði. Hér eru rökin.

Byrjum vestan hafs. Roosevelt Bandaríkjaforseti og Bandaríkjaþing brugðust að því leyti skynsamlega við kreppunni miklu 1929-39, að ný lög voru sett til að koma böndum á banka, banna þeim að braska með innstæður sparifjáreigenda og innleiða jafnframt innstæðutryggingar. Hugsunin, sem bjó að baki lagasetningunni, snerist öðrum þræði um neytendavernd. Nauðsyn bar til að draga úr áhættusækni bankanna og vernda viðskiptavini þeirra fyrir eðlislægri áhættu í rekstri banka, sem ráðstafa innlánum sparifjáreigenda til skamms tíma til lánveitinga til langs tíma. Þessi löggjöf tókst svo vel, að allt var að heita má með kyrrum kjörum í bandarísku efnahagslífi í meira en hálfa öld. Eftir það fóru fjármálakreppur aftur að gera vart við sig. Árið 2007 upphófst vestan hafs kreppa, sem náði hámarki með þroti Lehman Brothers bankans í september 2008 og enn sér ekki fyrir endann á. Þetta var langstærsta gjaldþrot í Bandaríkjunum fyrr og síðar, og verður lengi deilt um, hvort bandarísk stjórnvöld hafi gert rétt í að láta undir höfuð leggjast að afstýra þrotinu, sem þrengdi til muna aðgang banka að lausafé vegna þverrandi trausts milli fjármálastofnana.

Hver var undirrót kreppunnar 2007? Nærtækasta svarið er, að sagan gleymdist. Bandaríkjaþing afnam kreppulögin frá fjórða áratugnum í áföngum eftir 1980. Bönkunum var aftur heimilt skv. lögum að braska með innstæður sparifjáreigenda, án þess að hróflað væri við innstæðutryggingum. Af þessu leiddi óhóf í bönkunum, glórulausar lánveitingar án tryggra veða og alls kyns brask. Bankamenn töldu sig ekki hafa neitt að óttast, þar eð ríkið stóð á bak við bankana gegnum innstæðutryggingakerfið. Auk þess töldu sumir bankarnir sig vera stærri en svo, að hægt væri að láta þá komast í þrot. Margir telja, að bankarnir hafi beinlínis verið rændir innan frá. Kannast nokkur við það?

Við þetta bætist, að Bandaríkjastjórn og öðrum lærðist eftir kreppuna 1929-39 að stíga ýmist á bensíngjöfina eða bremsuna til að draga úr öldugangi í efnahagslífinu. Ekki sízt þess vegna hafa hagsveiflur verið miklu mildari eftir að kreppunni miklu lauk. Brezki hagfræðingurinn John Maynard Keynes birti 1936 lykilverk, sem lagði grunninn að þjóðhagfræði nútímans. Hann leiddi mönnum fyrir sjónir, að hægt er að koma í veg fyrir kreppu með því að örva efnahagslífið ýmist með peningaprentun, auknum útgjöldum ríkissjóðs eða lækkun skatta. Þessum þekktu ráðum beitti Bandaríkjastjórn eftir fall Lehman Brothers og kom með því móti í veg fyrir nýja heimskreppu. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur t.d. lækkað vexti niður í næstum ekki neitt og kemst ekki neðar. Sumir telja, að ríkisútgjöld hafi ekki verið aukin nóg, og þannig standi á, að efnahagslífið hefur ekki rétt úr kútnum. Pólitísk andstaða við lagahömlur gegn bankabraski var kveikjan að bankakreppunni í Bandaríkjunum 2007. Pólitísk andstaða gegn auknum útgjöldum ríkisins jafnvel í kreppu hefur orðið til þess, að batinn hefur verið hægari en hann þurfti að vera. Vandinn er því pólitískur frá mínum bæjardyrum séð, ekki efnahagslegur.

Vandi Evrópu nú er flóknari en vandi Bandaríkjanna. Ísland, Írland og Spánn komust í kröggur vegna þess, að bankarnir slepptu fram af sér beizlinu með leyfi og sumpart beinlínis fyrir tilstilli stjórnvalda. Grikkland komst í kröggur af annarri ástæðu. Gríska ríkið stofnaði til skulda, sem það ræður ekki við að velta á undan sér, hvað þá endurgreiða. Vandi landanna fjögurra á það sammerkt, að erlendir bankar lánuðu Grikklandi of fjár að því er virðist í trausti þess, að ESB stæði að baki Grikklands og erlendir bankar lánuðu íslenzkum (og einnig írskum og spænskum) bönkum með líku lagi of fjár e.t.v. að einhverju leyti í þeirri trú, að ríkið (eða ríkið og ESB) stæði að baki bönkunum. Hvort tveggja reyndist vera tálsýn. Sú staðreynd, að Grikkland, Írland og Spánn eru evrulönd og Ísland ekki er aukaatriði í þessu viðfangi. Hvorki íslenzkir bankar né gríska ríkið gátu staðið skil á skuldum sínum, en írskir og spænskir bankar reyna með erfiðismunum að standa í skilum með hjálp tilneyddra skattgreiðenda, ESB og annarra.

Vandi evrulandanna þriggja er ekki þeim einum að kenna. Evrulöndin í heild, einkum Þýzkaland og Frakkland, bera hluta ábyrgðarinnar og auðvitað bankarnir í ljósi fífldjarfrar framgöngu þeirra. Þjóðverjum og Frökkum bar að hafa forustu um nánara samstarf í ríkisfjármálum til að tryggja, að einstök evruríki eins og Grikkland gætu ekki gengið of langt á kostnað annarra. Þeim bar einnig að tryggja nánara samstarf í bankamálum til að tryggja, að bankar í einstökum evruríkjum eins og Írlandi og Spáni gætu ekki gengið of langt. Hvort tveggja brást. Nú ríður á, að evrulöndin komi sér saman um innviði, þar á meðal samevrópskt fjármálaeftirlit, til að draga úr líkum þess, að sorgarsaga síðustu missera endurtaki sig. En það er ekki nóg. Bráðavandinn kallar einnig á brýna lausn. Þar verða Þjóðverjar og Frakkar ásamt öðrum að axla ábyrgð og ganga fram fyrir skjöldu, þótt á brattann sé að sækja. Radek Sikorski utanríkisráðherra Póllands orðaði þessa hugun skýrt í Berlín fyrir nokkru. Hann sagði: „Ég óttast vald Þjóðverja minna en ég óttast aðgerðarleysi þeirra.“ Evrópa þarf að bretta upp ermarnar.