DV
14. des, 2011

Heitir og kaldir straumar

Svæði sex í Höfðaborg var friðsælt hverfi, þar sem blökkumenn, litaðir menn (einkum Indverjar) og hvítir menn, kristnir menn, múslímar og hindúar höfðu lengi búið tugþúsundum saman í sátt og samlyndi. Hverfið var þyrnir í augum aðskilnaðarstjórnar Þjóðarflokksins, sem náði völdum í Suður-Afríku fyrir tilstilli örlítils nasistaflokks í þingkosningum 1948. Stjórnin lýsti Svæði sex „hvítt“ 1966, rak íbúana burt eins og búfénað og jafnaði byggðina við jörðu með stórvirkum vinnuvélum. Hvað fær menn til að fremja slík voðaverk?

Svæði sex stangaðist á við hugmyndafræði aðskilnaðarstjórnarinnar. Stjórnin byggði stefnu sína í orði kveðnu á þeirri kenningu, að blökkumenn og hvítir menn gætu ekki lifað saman í friði og spekt, og því þyrfti að stía þeim í sundur til að halda uppi röð og reglu. Þetta var auðvitað einber fyrirsláttur, því að aðskilnaðarstefnan snerist fyrst og fremst um arðrán og kúgun. Úr því að ólíkir kynþættir gátu klárlega lifað saman í litblindri sátt og samlyndi á Svæði sex fyrir allra augum, taldi stjórnin nauðsynlegt að eyða sönnunargagninu til að geta haldið lyginni til streitu. Nú er Svæði sex aftur í byggð, og þar er nú lítið safn með glaðlegum ljósmyndum af lífi fólksins, áður en valtararnir voru sendir inn á svæðið.

Reynslan sýnir, að ólíkir kynþættir eiga yfirleitt auðvelt með að koma sér saman, sé vel á málum haldið. Sum þeirra ríkja, sem hafa náð mestum árangri í efnahagsmálum og búa fólki sínu beztu lífskjörin á heildina litið, eru fjölmenningarlönd. Bandaríkin eru augljóst dæmi, og einnig Frakkland, Þýzkaland og Sviss, þar sem fjöldi nýbúa er nú orðið litlu minni miðað við höfðatölu en í Bandaríkjunum. Harðræðið, sem bandarískir blökkumenn voru beittir á fyrri tíð, stafaði ekki af neinu ósamkomulagi milli kynþáttanna, heldur fyrst og fremst af græðgi og rangsleitni hvítra þrælahaldara í suðurríkjunum, sem neyddust að endingu til að láta í minni pokann fyrir hvítum bræðrum sínum í norðurríkjunum í lýðræðislegum kosningum.

Malasía, Máritíus og Singapúr eru dæmi um Asíulönd, þar sem ólíkum kynþáttum ægir saman án nokkurra umtalsverðra samskiptavandræða. Fólkið í Singapúr hefur lyft sér upp úr sárri fátækt á fáeinum áratugum og býr nú við helmingi hærri tekjur á mann en Íslendingar (þetta er ekki prentvilla). Malasía og Máritíus eru á svipaðri siglingu. Þar hafa þjóðartekjur á mann hækkað úr 15% af tekjum á mann hér heima 1980 í 40% nú. Fjölbreytni fólksins er aflgjafi. Eins er þetta í hafinu, þar sem heitir og kaldir straumar hittast: þar er hreyfing.

Sömu sögu er að segja frá Suður-Ameríku. Í Brasilíu búa saman hvítir menn, brúnir og svartir og aðrir og hafa gert í 500 ár. Ósættið, sem stóð Brasilíu lengi fyrir þrifum og birtist m.a. í misskiptingu, stafaði ekki af neinu ósamkomulagi ólíkra kynþátta, heldur átti það sér einkum efnahagslegar rætur. Síðustu ár hefur Brasilíu fleygt fram í krafti gagngerra efnahagsumbóta, og bilið milli ríkra og fátækra hefur mjókkað. Lífskjör þar eru nú svipuð og í Malasíu og á Maritíus, sem er lítil eyja í Indlandshafi og telst reyndar vera Afríkuland, þótt flestir íbúanna séu af indversku bergi brotnir. Ófriður víða á meginlandi Afríku er ófriður meðal blökkumanna, milli ættbálka, ekki milli ólíkra kynþátta.

Fjölmenning er samt engin allsherjarforsenda góðs gengis. Japanar eru svo að segja allir eins, svo einsleit er þjóðin, og þeir hafa líkt og fólkið í Singapúr lyft Grettistaki í efnahagsmálum síðan 1945. Nýbúar eru hlutfallslega fáir í Japan, innan við 2% mannfjöldans borið saman við 12% í Bandaríkjunum og víða í Evrópu.