DV
18. nóv, 2011

Heimur í hönk?

Heimsbyggðinni vegnar betur á heildina litið en margir kynnu að halda af fréttum að dæma. Afríku, Asíulöndum og Suður-Ameríku fleygir fram, og þar býr miklu fleira fólk en í okkar heimshluta. Frá aldamótunum síðustu hafa þróunarlöndin tekið miklum framförum. Vöxtur framleiðslunnar þar hefur verið ríflega tvöfalt meiri en í ríku löndunum. Lýðræði er víðast hvar í sókn, einræði og afturhald eiga í vök að verjast. Bilið milli ríkra landa og fátækra fer minnkandi, þótt bilið milli ríks og fátæks fólks í hverju landi fyrir sig hafi víða farið vaxandi.

Þótt heimsbyggðinni í heild fari fram, hefur ýmislegt farið úrskeiðis á okkar slóðum. Hverju það sætir er ekki gott að segja.

Hvernig stendur t.d. á því, að forsetaframbjóðendur repúblikana nú eru nær allir úti að aka nema einn (Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóri í Massachusetts) eða kannski tveir. Hinir vita ekki einföldustu atriði, þeir andmæla þróunarkenningunni og gata í eigin stefnuskrá. Þeir virðast kæra sig kollótta um vanþekkingu sína, sumir þeirra segjast hlynntir kjarnorkuárásum, pyntingum á stríðsföngum og þannig áfram. Illa er komið fyrir helzta forusturíki hins frjáls heims, þegar annar stærsti stjórnmálaflokkurinn getur ekki boðið betur en þetta og hefur meiri hluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og gæti jafnvel komizt aftur inn í Hvíta húsið.

Hvernig gat það t.d. gerzt, að Bandaríkjastjórn fór í stríð í Írak 2003 og lækkaði skatta um leið? Þegar stjórnarherrar fara í stríð, eiga þeir að hækka skatta og biðja almenning heima fyrir að færa fórnir til að undirstrika alvöru málsins. En Íraksstríðið var stríð hinna alvörulausu og ábyrgðarlausu, og Bandaríkjamenn héldu áfram að safna skuldum, þar til stórir bankar og sum önnur helztu fyrirtæki landsins komust í þrot. Hryggjarstykkið í bandarísku atvinnulífi, General Motors, brast og þurfti á ríkisaðstoð að halda; ríkið eignaðist fjórðung hlutabréfa í fyrirtækinu. Stjórnmálastéttin hefur gengið erinda sérhagsmunahópa og ýtt undir ójöfnuð án þess að blikna. Bush yngri forseti sagðist eiga tvo vinahópa, ríkisbubba og auðmenn.

Ábyrgðarleysisvandinn er ekki bundinn við Bandaríkin. Brezka ríkisstjórnin þurfti einnig að bjarga bönkum í stórum stíl, og Írland sér nú fram á mörg mögur ár vegna bankavandræða. Það mega Írar þó eiga, að þeir eru búnir að tjarga og fiðra sinn repúblikanaflokk, Fianna Fáil, eins og írski prófessorinn Peadar Kirby benti á í sjónvarpsviðtali um daginn. Frá 1932 hafði Fianna Fáil nær alla þræði í hendi sér og sat að völdum í 61 ár af 79. Flokkurinn stundaði haftabúskap í 40 ár undir kjörorðinu stétt með stétt (kannast nokkur við það?) og hélt landinu í lamandi fátækt, losaði síðan tökin við inngöngu Írlands í ESB 1973 og gekk of langt með því m.a. að sleppa beizlinu af bönkunum. Fianna Fáil missti þrjá fjórðu hluta fylgis síns í þingkosningum fyrr á þessu ári og er nú vart nema svipur hjá sjón. Grikkland? Getur ekki staðið skil á skuldum ríkisins. Ítalía? Einnig langt leidd.

Ísland, Írland, Grikkland, Ítalía: hvað eiga þau sammerkt þessi fjögur lönd, sem misstu stjórn á fjármálum sínum? Evruna? Nei. Óhagstæð ytri skilyrði? Nei. Óheppni? Nei. Þessi lönd eiga það sammerkt, að þau leyfðu spillingu að festa rætur. Spillingin á Írlandi, Grikklandi og Ítalíu blasir við öllum og er almennt viðurkennd. Opinber rannsóknarnefnd fann formann Fianna Fáil 1979-1992 og forsætisráðherra sekan um mútuþægni. Silvio Berlusconi er ekki lengur forsætisráðherra Ítalíu (svo er alþjóðlegum fjármálamörkuðum fyrir að þakka, þeim er ekki alls varnað). Berlusconi getur því varla lengur látið breyta lögum landsins sér í hag eftir smekk og þörfum og mun því eftirleiðis eiga á brattann að sækja fyrir dómstólum. Danmörk, Finnland, Noregur, Svíþjóð, Þýzkaland, Austurríki, Holland, Belgía, Pólland og flest önnur Evrópulönd eiga ekki í neinum sérstökum efnahagsvandræðum. Þar héldu menn áttum.