DV
27. feb, 2012

Handarbakavinna? Algjört klúður?

„Mér finnst þetta vera allsherjar handarbakavinna og í raun algjört klúður,“ segir Sigurður Líndal prófessor á Bifröst í Morgunblaðinu á föstudaginn var um þá ákvörðun Alþingis að kalla stjórnlagaráð saman til fjögurra daga vinnu í næsta mánuði. „Eins og málin standa í bili, að það takist að leysa þetta á einum mánuði. Ég held það myndi jaðra við almættisverk,“ segir Sigurður og bætir við: „Tíminn er of stuttur og málið of vanbúið til að hægt sé að greiða atkvæði um það. Ég tel ekki að það sé hægt að leysa það á einum mánuði.“

Ég lít málið öðrum augum. Stjórnlagaráð hefur sýnt í verki, að það kann að vinna hratt og vel. Ráðið samdi frumvarp til nýrrar stjórnarskrár og samþykkti það einum rómi á þeim fjórum mánuðum, sem ráðinu voru ætlaðir til verksins. Úrtölumenn sögðu, að þetta væri ekki hægt, því tíminn væri of skammur, og þeir reyndust hafa á röngu að standa.

Bandaríska stjórnarskráin, elzta núlifandi stjórnarskrá heimsins, var einnig samin á fjórum mánuðum og tók gildi einu ári eftir að frumvarpi stjórnlagaþingsins í Fíladelfíu var skilað til Bandaríkjaþings. Allur ferillinn tók því ekki nema 16 mánuði í Bandaríkjunum. Tímatafla Alþingis er fyllilega raunhæf í ljósi reynslunnar. Tal Sigurðar Líndal um almættisverk á því ekki rétt á sér, en ég kann honum samt fyrir mína parta beztu þakkir fyrir samanburðinn.

Alþingi hefur haft frumvarp Stjórnlagaráðs til skoðunar í sjö mánuði og hefur ekki enn bent skriflega á neina annmarka á frumvarpinu. Það getur varla stafað af öðru en því, að slíkir annmarkar hafa ekki fundizt þrátt fyrir ítarlega leit. Hitt er annað mál, að menn getur greint á um efnisatriði, en það er spurning um ágreining, ekki annmarka.

Sigurður Líndal breiðir yfir þennan greinarmun á ágreiningi og annmörkum. Hann má vel vera ósáttur við einstök ákvæði frumvarpsins, það er réttur hvers og eins, en honum leyfist ekki að reyna að láta líta svo út, að um annmarka á frumvarpinu sé að ræða.

Björg Thorarensen prófessor í Háskóla Íslands hefur eins og Sigurður allt á hornum sér og sat þó í Stjórnlaganefndinni, sem bjó málið í hendur Stjórnlagaráðs og hefur haft betra færi en flestir aðrir á koma sjónarmiðum sínum til skila. Hún segir: „Hvað sem nefndin leggur fyrir ráðið hefur það ekki langan tíma til þess að vinna úr því og koma með einhvers konar tillögur.“ Ekki hef ég miklar áhyggjur af þessu. Stjórnlagaráð fjallaði um öll helztu álitamál, sem til greina gætu komið, og á gögn um þau. Það virðist því ólíklegt, að skriflegt erindi Alþingis til ráðsins, þegar það berst, komi stjórnlagaráðsfulltrúum í opna skjöldu. Ef Stjórnlagaráði dugðu fjórir mánuðir til að semja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, hví skyldu ráðsfulltrúum ekki duga fjórir dagar til að svara bréfi frá Alþingi?

Svo er eitt enn. Mér þykja þau Sigurður Líndal og Björg Thorarensen býsna kokhraust eftir það, sem á undan er gengið. Þau voru helztu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar í mannréttindabrotamáli sjómannanna tveggja, Arnar Snævars Sveinssonar og Erlings Sveins Haraldssonar, gegn ríkinu fyrir Mannréttindanefnd SÞ. Sjómennirnir unnu málið. Mannréttindanefndin hafnaði rökum Sigurðar og Bjargar í málinu eins og Hæstiréttur hafði gert 1998 og birti álit með bindandi fyrirmælum til ríkisstjórnarinnar um að nema mannréttindabrotaþáttinn burt úr fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta var 2007. Þeim fyrirmælum hefur ríkisstjórnin ekki enn hlýtt.

En Sigurður og Björg láta sér ekki segjast, jafnvel ekki eftir hirtinguna, sem Mannréttindanefnd SÞ veitti þeim og ríkinu 2007. Í þessu ljósi m.a. þarf að skoða afstöðu þeirra til frumvarps Stjórnlagaráðs. Auðlindaákvæði frumvarpsins nemur mannréttindabrotaþáttinn burt úr fiskveiðistjórninni og leysir málið með því að gefa löggjafanum skýr fyrirmæli um inntakið í nýrri fiskveiðistjórnarlöggjöf. Frumvarp Stjórnlagaráðs innsiglar ósigur Sigurðar Líndal og Bjargar Thorarensen fyrir Mannréttindanefnd SÞ. Þeim er því varla skemmt. Þau ferðast undir fölsku flaggi.