DV
13. júl, 2012

Hagnýtar ástæður

Mig langar að benda lesendum mínum á nokkrar hagnýtar ástæður til þess að fara á kjörstað 20. október eða fyrr og styðja frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár, þar eð frumvarpið felur í sér umtalsverðar réttarbætur handa fólkinu í landinu.

Staða þeirra, sem krefjast þess, að Seðlabankinn birti upptökur af símtölum forsætisráðherra og seðlabankastjóra í hruninu, myndi styrkjast með samþykkt frumvarpsins. Fólkið í landinu hefur skýran hag af að fá að vita sannleikann um það, sem sagt var í síma Seðlabankans þessa örlagaríku daga. Seðlabankinn þumbast við eins og af gömlum vana og ber fyrir sig þagnarheimildir í lögum. Frumvarp Stjórnlagaráðs miðar að því að rjúfa þagnarmúrinn með því að opna blaðamönnum og öðrum aðgang að upplýsingum, sem varða almannahag.

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs segir í 15. grein: „Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. … Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. … Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.“

Setjum svo, að ný ríkisstjórn kæmist til valda og ætlaði sér að fjármagna menntakerfið með skólagjöldum frá grunnskóla og upp úr. Þetta verður ekki hægt, ef frumvarp Stjórnlagaráðs verður samþykkt, því að þar stendur í 24. grein: „Öllum þeim, sem skólaskylda nær til, skal standa til boða menntun án endurgjalds.“

Nú ákveður ríkisstjórnin að taka Valþjófsstaðahurðina traustataki og færa hana forseta Íslands að gjöf með þakklæti fyrir gott samstarf. Þetta verður ekki hægt, ef frumvarp Stjórnlagaráðs verður samþykkt, því að 32. grein frumvarpsins um menningarverðmæti hljóðar svo: „Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.“ Einmitt þetta er hugsunin á bak við ákvæðið um auðlindir í þjóðareign. Uppsprettan er Þingvallalögin frá 1928.

Í Jónsbók 1281 voru ströng ákvæði, sem bönnuðu mönnum að beita fé sínu á annarra lönd, og skyldu bætur koma fyrir. Nú gengur búfé laust, og telja margir náttúrufræðingar og aðrir lausagönguna vera mesta umhverfisvanda Íslands. 33. grein frumvarps Stjórnlagaráðs um Náttúru Íslands og umhverfi miðar að því að örva löggjafann til að taka á þessum vanda. Þar segir. „Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.“ Þessu ákvæði er ekki frekar en öðrum ákvæðum frumvarpsins ætlað að vera orðin tóm.

Í 34. grein um Náttúruauðlindir segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Þessari grein er ætlað að færa auðlindirnar aftur til rétts eiganda, þjóðarinnar, svo að hún fái loksins réttmætan og óskertan arð af eign sinni.

Í 39. grein um Alþingiskosningar segir svo: „Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“ Alþingi ræður fjölda kjördæma, landið má vera eitt kjördæmi eins og Færeyjar, en í mesta lagi átta.