Gullna reglan
Ein fegursta regla hagvaxtarfræðinnar heitir Gullna reglan og hljóðar svo: Hagsýn heimili og þá einnig þjóðarbú spara fjármagnstekjur sínar og eyða vinnutekjunum.
Gullna reglan er kennd við Edmund Phelps, prófessor í Columbíu-háskóla, Nóbelsverðlaunahafa og heiðursdoktor í Háskóla Íslands, þar eð hann uppgötvaði regluna. Hægt er að leiða regluna út með einföldum diffurreikningi eins og ég gerði með nemendum mínum í þjóðhagfræði í Háskóla Íslands nú síðast í gær.
Rímar reglan við raunveruleikann? Þegar litið er á heiminn í heild langt aftur í tímann, nema fjármagnstekjur um þriðjungi þjóðartekna og vinnutekjurnar tveim þriðju hlutum. Gullna reglan mælir því fyrir um, að um þriðjungur tekna sé lagður til hliðar og tveim þriðju hlutum sé varið til neyzlu á líðandi stund.
Þegar við lítum í kringum okkur, kemur í ljós, að það eru eiginlega bara Asíuþjóðir, sem hafa sparað svo hátt hlutfall tekna sinna, 30% til 40%, síðustu hálfa öld. Mikill sparnaður kostar þolinmæði og fórnir, þar eð fé, sem lagt er til hliðar og geymt til betri tíma, verður ekki einnig notað til neyzlu á líðandi stund.
Hér er kominn hluti skýringarinnar á því, hvers vegna mörg Asíulönd, þar á meðal tígrisdýrin fjögur (Hong Kong, Singapúr, Suður-Kórea og Taívan), hafa vaxið svo hratt frá 1960. Þessi lönd voru meðal fátækustu landa heims 1960 og eru nú meðal hinna ríkustu. Einn lykillinn að lífskjarabyltingunni í þessum löndum var virðingin fyrir Gullnu reglunni. Sparnaður heimila, fyrirtækja og almannavaldsins er undirstaða fjárfestingar, og fjárfesting, bæði innlend og erlend, er nauðsynleg til uppbyggingar fjármagns og framleiðslu, sem er að sínu leyti lykillinn að góðum lífskjörum til lengdar, a.m.k. í efnalegu tilliti.
Í flestum Evrópulöndum, Norður-Ameríku og Ástralíu hafa sparnaður og fjárfesting verið mun minni en í Asíu, eða rösklega 20% af þjóðartekjum, langt undir forskrift Gullnu reglunnar. Því er engin furða, að Evrópa, Ameríka og Ástralía hafa vaxið hægar en Asía. Í fátækustu löndum heimsins, einkum í Afríku, nam sparnaður og fjárfesting fram á síðustu ár víðast hvar um eða innan við 10% af þjóðartekjum. Þeir, sem lifa frá hendinni til munnsins, hafa ekki efni á að leggja neitt til hliðar. Hér liggur hluti skýringarinnar á því, hvers vegna flest Afríkulönd hafa vaxið mun hægar en önnur lönd. Þetta er þó að breytast. Þeim fer fjölgandi Afríkulöndunum, þar sem sparnaður er kominn upp í 20% af þjóðartekjum. Afríka hefur á heildina litið vaxið hraðar en aðrar heimsálfur frá 2008.
Sparnaður tekur á sig ýmsar myndir. Í fátækum löndum tryggir fólk sig gjarnan með því að hlaða niður börnum í þeirri von, að eitthvert þeirra verði þá kannski eftir hjá foreldrunum og sjái fyrir þeim í ellinni. Þörfin fyrir lífeyri til elliáranna verður þá að því skapi minni. Eftir því sem fátæk lönd taka sér smám saman til fyrirmyndar velferðarstefnu Evrópuríkjanna, sem upphófst í kanslaratíð Bismarcks í Þýzkalandi um 1870, þá minnkar þörfin fyrir mörg börn og stórar fjölskyldur. Þetta er ein aðalástæðan til þess, að í æ fleiri löndum heimsins eru þetta tvö til þrjú börn látin duga hverri fjölskyldu í stað mun fleiri barna að jafnaði á fyrri tíð.
Hans Rosling prófessor við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi orðar þessa hugsun vel. Í fátækum löndum lifa menn stutt í stórum fjölskyldum. Í ríkum löndum lifa menn lengi í litlum fjölskyldum. Fátæku löndin halda áfram fikra sig í átt að ríkari löndum með því að hægja á fólksfjölgun og lengja ævirnar. Í barnmörgum fjölskyldum í fátækum löndum hafa foreldrarnir ekki ráð á að senda nema kannski elzta soninn í skóla. Í minni fjölskyldum fara færri börn alls á mis af efnahagsástæðum.
Í Kína var foreldum til skamms tíma bannað með lögum að eiga nema eitt barn. Sumir foreldrar eignuðust tvíbura. Hagtölur sýna, að fjölskyldur með tvíbura leggja mun minna til hliðar en fjölskyldur með einbirni. Af því virðist mega ráða, að foreldrarnir líti svo á, að annað barn komi að einhverju leyti í stað sparifjár og að sparnaður og fjárfesting í Kína kunni því að dragast saman, þegar barneignum fjölgar aftur í landinu. Hér er þó í fleiri horn að líta. Tvíburar eru dýrari í rekstri en einbirni.
Asíulönd önnur en Kína gerðu hvort tveggja framan af: lögðu til hliðar og hlóðu niður börnum. Nú hefur barneignum þar fækkað til muna. Æ færri börn í Asíu fara alls á mis. Gullna reglan þyrfti að taka börnin með í reikninginn og þá um leið ólíkar sparnaðarleiðir, fjármagn og mannauð.