Fréttablaðið
14. mar, 2019

Góða ferð til Panama

Panama – Spilltir stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar bera spillinguna gjarnan utan á sér. Stundum kemur klæðaburðurinn upp um þá eða vinahópurinn eða orðfærið, fasið eða jafnvel bara göngulagið. Þeir gera þetta ýmist ómeðvitað eða af ásettu ráði til að afla sér óttablandinnar virðingar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er þessarar gerðar. Margir telja fyrirtæki hans vera glæpafyrirtæki, fjölskyldu hans glæpafjölskyldu. Um þetta hafa virtir höfundar skrifað margar bækur. Robert Mueller saksóknari í Washington býst nú til að skila skýrslu sinni um Rússatengsl Trumps og manna hans. Saksóknarar í New York rannsaka viðskiptaferil Trumps enda hafa margir nánir samherjar forsetans játað á sig glæpi og fengið fangelsisdóma. Nýr meiri hluti demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur einsett sér að leiða sannleikann í ljós við vitnaleiðslur. Þegar repúblikanar höfðu meiri hluta í deildinni 2016-2018 horfðu þeir til himins, þóttust ekki vita það sem allir máttu vita. Níundi hver kjósandi treystir þinginu.

Spilling er það kallað þegar menn misnota í eigin þágu vald sem þeim hefur verið trúað fyrir.

Á hverju þekkjast spillt lönd? – þ.e. lönd þar sem spilling hefur náð að festa rætur í stjórnmálum og viðskiptum. Gróin spilling lýsir sér einkum í eiginlegri yfirtöku ríkisvalds. Í spilltum löndum hegða stjórnmálamenn og stundum jafnvel dómarar sér eins og strengjabrúður í höndum auðmanna. Þingmenn láta kaupa sig til fylgis við löggjöf gegn betri vitund. Ráðherrar úthluta almannagæðum til einkavina. Sveitastjórnarmenn gera samninga um opinberar framkvæmdir án útboðs. Lögregla, saksóknarar og dómarar sjá til þess að enginn er tekinn fyrir lögbrot nema einhverjir smáfiskar á stangli sem uggðu ekki að sér.

Hér í Panama mæla lög fyrir um að enginn nema þjóðþingið getur látið rannsaka hæstaréttardómara og enginn nema hæstiréttur getur látið rannsaka þingmenn. Þessi samtrygging valdsins hélt lengi, en sagan geymir ýmis frávik frá reglunni eins og þegar Hitler og Stalín lofuðu að ráðast ekki hvor á annan. Við munum hvernig það fór. Hér hefur einnig verið séð til þess að meiðyrðalög frá einræðisstjórnarárunum 1968-1988 eru enn í gildi til að refsa uppljóstrurum. Þeir sem eru sakaðir um spillingu eru sjaldan lögsóttir og næstum aldrei settir inn þar eð dómstólarnir eru undirmannaðir og dómararnir eru nátengdir og vinveittir valdinu. Mútur og misnotkun almannafjár eru daglegt brauð skv. fréttum fjölmiðla. Við bætast landlægur klíkuskapur og misbeiting valds sem stjórnmálaflokkarnir nota til að kaupa sér fylgi í stórum stíl. Landið hefur búið við lýðræði frá 1989.

Panama liggur í alfaraleið. Skipaskurðurinn frægi tengir Atlantshafið við Kyrrahaf. Landið hefur lögfest 18 fríverzlunarsvæði. Þau eru misnotuð með því að menn flytja varning til landsins gjaldfrjálst um svæðin án þess að þurfa að sanna að þau séu lögmæt endastöð. Einmitt þannig var Keflavíkurflugvöllur misnotaður á Íslandi svo sem fram gengur af dómskjölum olíumálsins á sinni tíð.

Juan Carlos Varela, forseti Panama frá 2014, lofaði kjósendum að útrýma spillingu í stjórnsýslu landsins, auka gegnsæi og lögsækja spillta embættismenn og stjórnmálamenn. Ríkisstjórn hans hefur stefnt allmörgum hátt settum mönnum fyrri stjórnar, þ. á m. fv. forseta Hæstaréttar sem fékk fimm ára fangelsisdóm fyrir spillingu. Ricardo Martinelli, forseti landsins 2009-2014, var einnig kærður fyrir spillingu og fyrir að njósna um blaðamenn og andstæðinga. Hann var tekinn fastur í Bandaríkjunum 2017 og framseldur til Panama 2018. Synir hans tveir voru einnig settir inn. Panamísk lög mæla fyrir um viðurlög við spillingu, þ. á m. um upptöku þýfis, en þeim hefur hingað til ekki verið framfylgt nema að litlu leyti. Nýjum ríkisstofnunum er ætlað að auka gegnsæi og afhjúpa spillingu þar eð refsileysi hefur verið reglan þar til nýlega. Þessi dæmi sýna að stjórnvöld í Panama viðurkenna spillingarvandann og reyna að taka á honum af veikum mætti. Spillingin hér í Panama virðist hafa hjaðnað aðeins frá fyrri tíð en hún mælist enn mikil. Transparency International stillir landinu í miðjar hlíðar, gefur landinu einkunnina 3,7 fyrir 2018. Þetta þýðir að um helmingur þeirra 180 landa sem tölur Transparency ná yfir telst óspilltari en Panama og hinn helmingurinn spilltari. Transparency hefur til samanburðar lækkað einkunn Íslands smám saman úr 9,3 fyrir 1998 í 7,6 fyrir 2018. Gallup gefur Panama einnig lága einkunn því þar sögðust 78% aðspurðra telja spillingu útbreidda í stjórnmálum landsins 2012 borið saman við 67% á Íslandi, 25% í Noregi, 15% í Danmörku og 14% í Svíþjóð. Meira næst.