DV
11. júl, 2014

Gengisfölsunarfélagið

Seðlabankinn hefur að undanförnu leyft gengi krónunnar að hækka nóg til að ná verðbólgumarkmiði sínu, sem er 2,5% verðbólga. Þarna er hún lifandi komin gamla gengisfölsunarstefnan. Hún er þó ævinlega skammgóður vermir eins og reynslan sýnir. Verðbólgan stefnir aftur upp fyrir sett mark bæði næsta ár og þar næsta eins og bankinn segir sjálfur í nýrri þjóðhagsspá. Í þessu ljósi þarf að skoða t.d. skyndilega aukningu bílainnflutnings og erlendra ferðalaga á þessu ári. Hálmstrá eru til þess að grípa þau.

Eins var þetta fyrir hrun. Þá var genginu haldið of háu langtímum saman til að fjarlægjast ekki sett verðbólgumarkmið um of. Seðlabankinn lét undir höfuð leggjast að hamla gegn innstreymi erlends lánsfjár, heldur kynti bankinn beinlínis undir ofþenslunni með því t.d. að lækka bindiskyldu bankanna. Seðlabankinn bætti gráu ofan á svart með því að þræta fyrir, að gengið væri of hátt skráð. Seðlabankinn þrætti einnig fyrir óhagkvæmni í rekstri viðskiptabankanna, sem birtist þá sem nú í miklum vaxtamun, þ.e. miklum mun útlánsvaxta og innlánsvaxta, sem er alls staðar og ævinlega fylgifiskur fákeppni á fjármálamarkaði. Seðlabankinn átti að heita sjálfstæður skv. lögum, en hann skipaði sér í lið með eigendum bankanna og stóð síðan með buxurnar á hælunum, þegar gengið féll um helming eins og hendi væri veifað. Þá loksins var gengi krónunnar nokkurn veginn rétt skráð á viðtekna kvarða. Þegar ég benti á fjármálakreppu Taílands 1997 sem víti til varnaðar, þekkti málið vel, þetta var á málstofu í seðlabankanum skömmu fyrir hrun, sögðu séffarnir með sigurbros á vör: Ísland er ekki Taíland, næsta spurning, takk. Þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Drottinn minn dýri, hugsaði ég, og var þó ýmsu vanur.

Gengisfölsunarstefnan á einkar illa við nú í ljósi þess, að þjóðarbúið aflar ekki og getur ekki eins og sakir standa aflað nægs gjaldeyris til að standa skil á erlendum skuldbindingum. Það vekur því athygli í þjóðhagsspá seðlabankans, að bankinn spáir viðskiptahalla með gamla laginu bæði 2015 og 2016 og þá um leið enn minni burðum til að standa í skilum. Viðskiptahalli veikir gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins.

Ekkert bólar enn á samningum við kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna. Stóra Landsbankabréfið fellur í gjalddaga 2016, í erlendri mynt. Ríkisstjórnin og seðlabankinn tala áfram út og suður um gjaldeyrishöftin og afnám þeirra bráðum sex árum eftir hrun. Hver höndin virðist vera uppi á móti annarri, ef hægt er að nota slíkt orðalag um svo slappar hendur. Einn daginn segja þau, að afnám haftanna sé á næsta leiti; löngu liðnar dagsetningar hafa m.a.s. verið nefndar. Daginn eftir segja þau, að afnám haftanna geti dregizt á langinn. Seðlabankastjóri líkti afnámi haftanna við einvígi, þar sem eina skotið mætti ekki geiga. Hann tiltók ekki, hvað gerast myndi, skyldi skotið geiga. Seðlabankinn segist vilja slaka á höftunum, en ræðst samt til atlögu gegn lífeyrissparnaði þrjátíu þúsund sparifjáreigenda, sem hafa í góðri trú safnað lífeyri í erlendri mynt og standa nú skyndilega frammi fyrir því að verða heldur að spara í krónum, sem hægt er að gera upptækar þá og þegar með gengisfalli með gamla laginu. Enn ein málaferlin gegn seðlabankanum eru í uppsiglingu.

Seðlabankinn virðist líta á hrunið sem tæknilegt viðfangsefni. Hann sýnir engin merki um skilning á, að hrunið var afsprengi landlægrar óhagkvæmni og spillingar svo sem vænta mátti í landi, þar sem tveir þriðju hlutar kjósenda telja spillingu vera útbreidda í stjórnmálum skv. könnun Gallups 2012 (borið saman t.d. við 14-15 prósent kjósenda í Danmörku og Svíþjóð). Seðlabankinn virðist ekki heldur hafa tekið til sín þá lykilniðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis, að þrír af þeim sjö embættis- og stjórnmálamönnum, sem sýndu vanrækslu í aðdraganda hrunsins, voru bankastjórar seðlabankans. Bankinn hefur ekki gert neitt til að upplýsa, hvað varð um gjaldeyrinn, sem streymdi úr bankanum á röngu gengi rétt fyrir hrun. Hann vildi ekki einu sinni afhenda Alþingi (þann stutta tíma, sem þingið hafði hug á því) hljóðrit af símtali seðlabankastjórans og forsætisráðherrans í miðju hruni, símtali, sem kallað hefur verið dýrasta símtal Íslandssögunnar. Á sama tíma hefur bankinn ásælzt fjármálaeftirlitið, þótt vitað sé, að bankaeftirlitið var vitamáttlaust – „designed to fail“ eins og kanninn myndi segja – þau ár, sem það var deild í seðlabankanum. Margt fleira mætti nefna. Þannig er Ísland í dag. Ekkert af þessu gæti nokkurn tímann gerzt í nálægum löndum. Erlendir blaðamenn eru komnir á sporið, margir. Ekki bara Jyllandsposten.