DV
3. feb, 2012

Gæti þetta gerzt hér?

Nú eru veður enn válynd í Færeyjum. Færeyskt efnahagslíf hrundi 1989-93 af svipuðum ástæðum og Ísland 2008. Allir, sem vettlingi gátu valdið, voru inni á gafli – uppi í rúmi! – hjá öllum. Að sitja báðum megin borðs var partur af lífsstíl valdastéttarinnar eins og Eðvarð T. Jónsson lýsir vel í bók sinni Hlutskipti Færeyja 1994. Þar birtast Færeyjar eins skrípamynd af Íslandi. Færeyinga greinir enn á um, að hversu miklu leyti þessi lýsing á lífinu þar á við þjóðina eins og hún leggur sig frekar en valdastéttina eina. Stjórnmálastéttin vill auðvitað, að allir séu taldir ábyrgir, svo að tryggt sé, að enginn þurfi að sæta ábyrgð. Sú varð raunin. Í Færeyjum var engin rannsóknarskýrsla skrifuð, ekkert saksóknaraembætti stofnað og enginn ákærður, þótt vitað væri, að lög voru brotin í stórum stíl eins og Hermann Óskarsson hagstofustjóri í Þórshöfn lýsti í fyrirlestri í Háskóla Íslands mánuði eftir hrun 2008.

Hrun Færeyja 1989-93 var mun dýpra en hrunið hér heima 2008. Landsframleiðsla Færeyja dróst saman um þriðjung líkt og gerðist við hrun kommúnismans í Sovétríkjunum um svipað leyti. Fimmti hver Færeyingur flúði land, en helmingur hinna brottfluttu skilaði sér heim aftur nokkru síðar. Hér heima minnkaði landsframleiðslan um 10% eftir hrun, og fólksfjöldinn er nú aftur kominn upp undir 320.000, segir Hagstofan. Hrun Færeyja varð þeim að ýmsu leyti til blessunar þrátt fyrir erfiðleikana. Hrunið leiddi þeim fyrir sjónir spillinguna og ábyrgðarleysið, sem leiddi m.a. af ríflegum fjárveitingum Dana til Færeyja fyrir hrun. Færeyingar tóku sér tak. Þeir þiggja nú mun minni fjárstuðning frá Dönum en áður. Reglum um sambandið milli landsstjórnarinnar og lögþingsins í Þórshöfn var breytt, svo að þingmenn verða nú að hætta á þingi, verði þeir ráðherrar, eins og mælt er fyrir um í frumvarpi Stjórnarlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hér heima. Frá 1995 hafa 20 til 25 ráðherrar þurft að segja af sér vegna nýrra reglna um ráðherraábyrgð. Frá 2008 hefur landið verið eitt kjördæmi til að girða fyrir landlægan hrepparíg og sundrungu. Færeyingar tóku alvarlega þörfina fyrir að draga úr líkum þess, að efnahagur landsins hryndi öðru sinni m.a. vegna bresta í stjórnsýslunni.

Mörgum þótti meira þurfa til. Ríkisstjórn Jafnaðarflokksins, Sambandsflokksins og Fólkaflokksins með 60% atkvæða á bak við sig lét semja frumvarp að stjórnarskrá handa Færeyjum 2009 og hét því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið 2010. Frumvarpið er skínandi gott. Kaflinn um auðlindir og umhverfi er til fyrirmyndar. Hann felur í sér, að þjóðin á auðlindirnar og tekur gjald fyrir afnot þeirra eða tryggir öllum jafnan aðgang að þeim og að umgengni við auðlindir og umhverfi skal vera sjálfbær. Texti Færeyinga er í góðu samræmi við auðlinda- og umhverfisákvæðin í frumvarpi Stjórnlagaráðs og hefur mannréttindi í hávegum.

Nú hljóp snurða á þráðinn. Ríkisstjórnin á bak við stjórnlagafrumvarpið liðaðist í sundur, og við tók að loknum kosningum 2011 stjórn Sambandsflokksins, Fólkaflokksins, Miðflokksins og Sjálfstýrisflokksins með 57% atkvæða að baki sér. Nýja stjórnin hætti við að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem fyrri stjórn hafði lofað. Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn, sem sátu í báðum stjórnum, sneru m.ö.o. við blaðinu. Sambandsflokkurinn er vanur slíkum vinnubrögðum. Honum tókst ásamt jafnaðarmönnum að fá dönsk stjórnvöld til að ógilda úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu 1946, þar sem meiri hluti Færeyinga lýsti sig fúsan til að slíta sambandinu við Danmörku, tveim árum eftir sambandsslit Íslands og Danmerkur. Kannski Sambandsflokkurinn beri því við nú, að danska stjórnin mótmælti færeyska stjórnlagafrumvarpinu á þeirri forsendu, að það jafngildi sjálfstæðisyfirlýsingu, sem samrýmist ekki áframhaldandi veru Færeyja í danska konungdæminu. Auðvelt hefði verið að mæta þeirri aðfinnslu með einni málsgrein um óbreytt samband landanna án þess að salta frumvarpið.

Nú hefur spurzt, að stjórnarþingmenn í Þórshöfn hyggist bæta gráu ofan á svart með því að leggja drög að afhendingu auðlindarinnar í hendur útvegsmanna með íslenzka laginu í andstöðu við stjórnlagafrumvarpið frá 2009, í andstöðu við lögin, sem kveða á um, að fiskimiðin séu í eigu þjóðarinnar líkt og hér heima, og í andstöðu við alþjóðleg mannréttindaákvæði. Stjórnarandstaðan streitist gegn þessum áformum, þ.m.t. Jafnaðarflokkurinn og Þjóðveldisflokkurinn.

Ekki hafa Færeyingar lært mikið af óförum Íslands, ef þeir ætla að afhenda útvegsmönnum kvótann á rússnesku silfurfati.