Fugl í skógi
Nú eru liðnar tæpar tvær vikur frá því að ríkisstjórnin kynnti áform sín um leiðréttingu húsnæðisskulda í samræmi við loforð Framsóknar fyrir kosningar. Fyrirhuguð leiðrétting er að vísu að umfangi bara röskur fjórðungur af því, sem Framsókn lofaði, en látum það vera. Leiðréttingin mun kosta, ef af henni verður, innan við 10% af landsframleiðslu og gæti verið réttlætanleg, væri fjármögnun hennar tryggð. En fjármögnunin er ekki tryggð. Hún er eins og sagt er á ensku fugl í skógi, ekki fugl í hendi. Verði af henni, mun leiðréttingin vísast hleypa verðbólgunni á skrið, og er verðbólgan á Íslandi nú þó hin næstmesta á OECD-svæðinu eins og jafnan áður allar götur frá 1960. Bara Tyrkir búa við meiri verðbólgu en Íslendingar.
Má ég minna á, að íslenzka krónan hefur í boði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, sem hafa verið við völd ýmist annar flokkurinn eða báðir í einu nær óslitið í bráðum hundrað ár, tapað 99,95% af verðgildi sínu gagnvart dönsku krónunni frá 1939? Færeyingar nota á hinn bóginn evruna með því að festa færeysku krónuna við dönsku krónuna, sem er rígbundin við evruna.
Það er segin saga, að útgjaldaloforð af hálfu ríkisins án tryggrar fjármögnunar leiða til verðbólgu. Þá gildir einu, hvort ríkið lætur prenta peninga beint með því að blanda Seðlabankanum inn í fjármögnunina ljóst eða leynt eða hvort ríkið reynir að kreista fé út úr þrotabúum gömlu bankanna eins og ríkisstjórnin segist vilja reyna, þótt lögmætið sé umdeilt. Sé gengið að þrotabúunum og þau þvinguð til að leggja fram fé eða skattlögð, má líkja innspýtingunni við peningaprentun af hálfu Seðlabankans, þar eð féð, sem rynni til að lækka skuldir heimila, væri ekki tekið úr umferð, heldur væri þá verið að virkja óvirkt fé. Það er alls staðar og ævinlega ávísun á verðbólgu.
Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn vara við fyrirhugaðri leiðréttingu eins og ég gerði á þessum stað fyrir viku, einkum vegna fyrirsjáanlegra áhrifa hennar á verðbólguna. Seðlabankinn stenzt prófið. Það er framför. Efnahagsráðgjafar fjármálaráðherra eru þöglir sem gröfin. Þó hefur Oddgeir Ottesen hagfræðingur, sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd Sjálfstæðisflokksins og er varaþingmaður flokksins, stigið fram og sagt: „Fyrir utan óréttlætið eru aðgerðirnar þjóðhagslega óhagkvæmar.“
Ný verðbólgugusa nú myndi koma illa við þjóðarbúskapinn m.a. vegna þess, að ríkisstjórnin hefur engar áætlanir kynnt um endurskoðun verðtryggingar húsnæðislána og annarra neyzlulána. Verðbólgan myndi því halda áfram að hækka höfuðstól húsnæðislána með gamla laginu og íþyngja skuldugum heimilum enn frekar, ef laun ná ekki að halda í við verðbólguna. Leiðréttingin gæti því étið sjálfa sig upp á skömmum tíma, fari verðbólgan á skrið með tilheyrandi gengisfalli.
Ríkisstjórnin hefur nefnt bankaskatt, þ.e. skatt á nýju bankana, sem aðra hugsanlega leið til að fjármagna fyrirhugaða leiðréttingu. En bankarnir þurfa ekki enn að lúta neinni erlendri samkeppni frekar en endranær og gætu því velt bankaskatti yfir á varnarlausa viðskiptavini, sem eiga ekki í önnur hús að venda. Bankarnir gætu einfaldlega lækkað innlánsvexti og hækkað útlánsvexti og þóknanir til að hafa fyrir skattheimtunni. Þeir hafa gert það áður. Án erlendrar samkeppni og án endurskipulagningar bankakerfisins, sem hvort tveggja er löngu tímabært, munu bankarnir geta haldið áfram að hegða sér eins og ríki í ríkinu. Þeir eru aftur byrjaðir að borga bónusa.
Þótt ríkisstjórnin 2009-2013 kæmi að ýmsu leyti til hjálpar skuldugum heimilum, eru mörg heimili eftir sem áður enn í nauðum stödd. Þrjár fjölskyldur hafa misst heimili sín á hverjum degi að jafnaði frá hruni. Fátæktin er sárari en fyrr. Fréttir berast af fimmtíu þurfandi fjölskyldum í Grindavík, einum helzta útvegsbæ landsins. Hrunið risti djúp sár í þjóðlífið. Þau sár munu vonandi gróa, en varla til fulls fyrr en að löngum tíma liðnum. Ábyrgðarlaus hagstjórn með gamla laginu mun ekki flýta batanum, heldur tefja hann og trufla.