Fréttablaðið
12. mar, 2016

Frumvörp stjórnarskrárnefndar

Úrdráttur úr umsögn minni um vinnu stjórnarskrárnefndar Alþingis og birtist í Fréttablaðinu 12. marz 2016, Skutli á Ísafirði 14. marz og Vikudegi á Akureyri 17. marz. Umsögnin öll birtist á visir.is 12. marz 2016.

Stjórnarskrárnefnd Alþingis var skipuð gagngert til að leita leiða til að vanvirða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár 20. október 2012.

Ásetningur ríkisstjórnarinnar lýsir sér m.a. í því að fyrst var nefndinni skipaður formaður, Sigurður Líndal prófessor, sem hafði ítrekað lýst sig andvígan breytingum á stjórnarskránni bæði fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012. Þegar hann hætti störfum 2014 var nefndinni skipaður nýr formaður, Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneyti. Hann hafði áður orðið uppvís að því ásamt fáeinum öðrum lögfræðingum að brjóta gegn skýrum fyrirmælum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (SEN) Alþingis 2012-2013 með því að leggja til gagngerar efnisbreytingar á verki Stjórnlagaráðs þótt SEN hefði mælt skýrt fyrir um að lögfræðingateyminu væri aðeins ætlað að leggja til orðalagsbreytingar, ekki efnisbreytingar. Það var skoðun SEN þá að Alþingi gæti ekki leyft sér að vanvirða vilja kjósenda eins og hann birtist í úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012. Undir það sjónarmið hljóta allir lýðræðissinnar að taka.

Rétt er að rifja upp brot núv. formanns stjórnarskrárnefndar gegn fyrirmælum SEN 2012-2013. Formaðurinn ásamt fáeinum öðrum lögfræðingum skilaði SEN gerbreyttri greinargerð með 34. grein frumvarps Stjórnlagaráðs um náttúruauðlindir. Í hinni gerbreyttu greinargerð sagði ítrekað með ýmsu orðalagi: „Með ákvæðinu er ekki hróflað við þeim eignarréttindum sem þegar kunna að vera fyrir hendi að auðlindum og þeim heimildum eigenda sem slíkum eignarrétti fylgja.“ Einnig þetta: „Með ákvæðinu er ekki hróflað við þeim nýtingarleyfum eða óbeinu eignarréttindum sem þegar eru fyrir hendi.“ Og þetta: „ … í samræmi við það sem stjórnlagaráð ætlaðist til, að ekki verði hróflað við þeim eignarréttindum sem þegar eru fyrir hendi og njóta stjórnarskrárverndar.“ Ekkert af þessu kemur þó fram í skýringum Stjórnlagaráðs við auðlindaákvæðið. Lögfræðingarnir virtust þar að auki gefa í skyn að t.d. útvegsmenn kunni að hafa unnið sér inn eignarrétt til kvótans þótt það standi skýrum stöfum í fiskveiðistjórnarlögunum og í frumvarpinu að það hafa þeir einmitt ekki gert. Þess var gætt í skýringum Stjórnlagaráðs að gefa ekkert slíkt í skyn.

Þessi upprifjun bregður birtu á bakgrunn þess starfs sem stjórnarskrárnefnd Alþingis hefur unnið á 48 fundum. Öll frumvarpsdrög nefndarinnar ásamt greinargerðum miða að því að veikja samsvarandi ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs og mylja undir ríkjandi sérhagsmuni gegn almannahag og lýðræði. Nefndin virðist hafa leitað eftir lægsta samnefnara til að koma til móts við þá sem urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Niðurstaðan er frumvarpsdrög sem eru í litlu samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Frumvarpsdrögin um náttúruauðlindir markast af undanslætti. Tónninn er sleginn strax í byrjun: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni.“ Greinargerðin með frumvarpsdrögunum viðurkennir undansláttinn: „Með þessu orðalagi er ekki vísað til hefðbundins eignarréttar“. Þarna er gefið í skyn að þjóðareign eigi heima skör lægra en aðrar eignir.

Í greinargerðinni er einnig að finna afhjúpandi málsgrein: „Vart finnast nokkur dæmi um hagkerfi sem er eins háð auðlindanýtingu og hið íslenska.“ Þessi staðhæfing er ekki aðeins röng (sjávarútvegur stendur nú að bak við 25% af útflutningstekjum) heldur er þetta gömul áróðurslumma LÍÚ. Að þessi gamla lumma skuli rata inn í greinargerð stjórnarskrárnefndar er vandræðalegt í ljósi þess að vitað er að fyrstu kvótalögin voru samin á skrifstofum LÍÚ.

Tillögur stjórnarskrárnefndar um umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda miða með líku lagi að því að færa frumvarpstextann fjær umhverfisverndar- og lýðræðismarkmiðum Stjórnlagaráðs. Frumvarpsdrög nefndarinnar vitna á heildina litið um einbeittan brotavilja núv. meiri hluta Alþingis gegn fólkinu í landinu. Drögunum er bersýnilega ætlað að þýðast ríkjandi hagsmuni, þau öfl sem áttu mestan þátt í að koma Íslandi á kaldan klaka í hruninu 2008 og skaða ásjónu landsins í augum umheimsins.
Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá svaraði að loknum þjóðfundi og í samræmi við verkferli sem Alþingi ákvað ákalli þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, nýja siði. Frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar Alþingis miða að því að bregðast þessu ákalli, ekki aðeins með því að úrbeina þrjú ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs heldur einnig með því leiða hjá sér allt hitt, þ.m.t. ákvæðið um jafnt vægi atkvæða, eitt brýnasta ákvæði frumvarpsins, og einnig t.d. ákvæðið um framsal ríkisvalds. Án nýs kosningaákvæðis verða næstu alþingiskosningar haldnar skv. kosningalögum sem 67% kjósenda höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Án nýs framsalsákvæðis munu alþingismenn halda áfram að sæta ásökunum um að brjóta vísvitandi gegn gildandi stjórnarskrá þar eð í hana vantar skýrt ákvæði um framsal ríkisvalds.

Sjá lengri gerð þessarar greinar á visir.is