DV
16. nóv, 2012

Fróðleikur um fordæmi

Nú, þegar frumvarp til nýrrar stjórnarskrár er í þann veginn að birtast á Alþingi undir lok langrar vegferðar, er vert að rifja upp tvö söguleg fordæmi að stjórnarskrárbreytingum frá 1942 og 1959. Fordæmin eiga brýnt erindi við Ísland nú, þar eð sumir andstæðingar nýrrar stjórnarskrár halda því fram, að nauðsyn beri til víðtæks samkomulags á Alþingi um málið. Saga landsins vitnar um annað. Sagan vitnar um, að breytingar á stjórnarskránni snúast öðrum þræði um átök ólíkra stjórnmálahagsmuna, svo að meiri hluti þjóðar og þings verður þá að áskilja sér rétt til að leysa hnútinn eftir leikreglum lýðræðisins. Horfum nú um öxl.

Í maí 1942 var afgreidd á Alþingi breyting á stjórnarskrá, sem fól í sér ný kosningalög til að jafna atkvæðisrétt landsmanna. Alþýðuflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkur stóðu að breytingunni, sem mætti harðri andstöðu Framsóknarflokks, en hann hafði lengi setið að mun hærra hlutfalli þingsæta en atkvæða í krafti ójafns atkvæðisréttar. Stjórnarskrárbreytingin 1942 var að endingu samþykkt í efri deild Alþingis með 9 atkvæðum gegn 6. Þing var þá rofið, og var kosið til Alþingis eftir gömlu kosningalögunum í júlí 1942. Framsóknarflokkurinn hlaut 20 þingsæti, en hinir flokkarnir þrír hlutu samtals 29 þingsæti. Nýtt þing afgreiddi síðan nýju stjórnarskrána óbreytta, og þingið stóð stutt, þar eð eðlilegt þótti að boða til haustkosninga skv. nýjum kosningalögum. Úrslitin urðu þau um haustið, að Framsóknarflokkurinn hlaut 15 þingsæti, tapaði fimm sætum. Hinir flokkarnir þrír skiptu með sér 37 þingsætum og náðu síðan saman um myndun nýsköpunarstjórnarinnar 1944, eftir að utanþingsstjórnin lét af völdum eftir tveggja ára setu 1942-44. Hlutdeild Framsóknarflokksins í fjölda þingsæta minnkaði þannig úr 41% í 29% frá vori til hausts 1942, þótt atkvæðum flokksins fækkaði aðeins um 164, og má af því skilja harða andstöðu flokksins gegn stjórnarskrárbreytingunni. Hart var deilt. Framsóknarmenn sökuðu sjálfstæðismenn um eiðrof. Takið eftir því, að Alþingi notaði tækifærið til að fjölga þingsætum úr 49 í 52.

Sagan endurtók sig 17 árum síðar. Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Sósíalistaflokkur lögðu 1959 fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá til að jafna kosningaréttinn enn frekar en tekizt hafði 1942 og einnig til að bregðast við breyttri byggð um landið. Frumvarpið var afgreitt frá efri deild Alþingis með 11 atkvæðum gegn 6. Síðan var þing rofið og kosið til nýs Alþingis í júní 1959. Framsóknarflokkurinn hlaut þá 19 þingsæti, og hinir flokkarnir þrír hlutu alls 33 sæti. Nýtt Alþingi samþykkti síðan nýja stjórnarskrá með atkvæðum síðar nefndu flokkanna þriggja gegn atkvæðum Framsóknarflokks, og var boðað til nýrra kosninga í október 1959. Þá féllu atkvæði þannig, að Framsóknarflokkurinn hlaut 17 þingsæti, tapaði sem sagt tveim sætum, en hinir flokkarnir þrír fengu samtals 43 þingsæti. Alþingi notaði enn tækifærið líkt og 1942 til að fjölga þingsætum, nú úr 52 í 60. Eftir haustkosningarnar 1959 mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur viðreisnarstjórnina, og liðu tólf ár þar til Framsóknarflokkurinn komst aftur í ríkisstjórn 1971. Sárin voru lengi að gróa. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur náðu ekki saman í ríkisstjórn fyrr en 1974, báðir flokkar þá undir yngri forustu, sem hafði strikað yfir fyrri ágreining um stjórnarskrána.

Þrjár höfuðályktanir þykir mér rétt að draga af þessari sögulegu upprifjun. Í fyrsta lagi mæta breytingar á stjórnarskrá skiljanlega og ævinlega harðri andstöðu af hálfu þeirra, sem nýrri stjórnarskrá er ætlað að svipta forgjöf og forréttindum. Þessi andstaða var bundin við Framsóknarflokkinn 1942 og 1959. Í annan stað er eðlilegt, að Alþingi, sem afgreiðir nýja stjórnarskrá til endanlegrar samþykktar, standi stutt, svo að hægt sé sem fyrst að kjósa á ný til Alþingis skv. kosningaákvæðum nýrrar stjórnarskrár. Eftirlegukindur skv. fyrri kjördæmaskipan eiga ekki að sitja nema skamma hríð á Alþingi, einkum þegar þingið þarf að endursemja ýmis lög til að tryggja samræmi við nýja stjórnarskrá. Í þriðja lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú valið sér þá stöðu, sem Framsóknarflokkurinn kaus sér við stjórnarskrárbreytingarnar 1942 og 1959.

Þingmeirihlutinn að baki nýrrar stjórnarskrár nú er skipaður þingmönnum úr öllum flokkum á þingi annarra en Sjálfstæðisflokksins. Alþingi ber nú að minni hyggju að setja Sjálfstæðisflokknum stólinn fyrir dyrnar með sama hætti og Framsóknarflokknum í fyrri skiptin, enda lýstu 2/3 hlutar kjósenda stuðningi við nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Gildir þá einu frá mínum bæjardyrum séð, að 1942 og 1959 stóð ágreiningurinn aðeins um kjördæmaskipanina, en nú snýst hann einnig um raunverulegt eignarhald á auðlindum þjóðarinnar og skiptingu arðsins af þeim og önnur atriði, sem minni ágreiningi valda. Það er bitamunur en ekki fjár. Meiri hluti þjóðar og þings hlýtur að ráða för. Teningunum er kastað.