Friður um auðlindir
Greinin lýsir auðlindastjórn í Noregi og birtist í Austurglugganum á Egilsstöðum, Skutli á Ísafirði og Vikudegi á Akureyri og e.t.v. víðar í september 2012.
Friður og sátt hafa ríkt um náttúruauðlindir Noregs. Eina umtalsverða undantekningin frá reglunni er tillaga Framfaraflokksins um að veita meiru af olíutekjum Norðmanna inn í hagkerfið heima fyrir, en aðrir flokkar í norska stórþinginu hafa staðið gegn Framfaraflokknum í því máli. Þjóðartekjur á mann í Noregi eru nú orðnar um tvisvar sinnum hærri en á Íslandi.
Hvers vegna ríkir friður um stjórn norskra olíulinda? – á meðan Ísland logar í langvinnum ófriði um fiskveiðistjórn.
Norsk stjórnvöld gættu þess strax í upphafi að setja lög og reglur til að tryggja hagkvæmni og gegnsæi og girða fyrir hættuna á ófriði og spillingu í tengslum við olíuvinnslu. Þau skildu, að náttúruauðlindir geta verið hættulegar í sambúð, enda loga mörg olíulönd í ófriði og spillingu.
Norska ríkið hefur undangengna áratugi leyst til sín um 80% af tekjunum af olíulindunum og lagt mestan hluta fjárins í sérstakan olíusjóð, sem er ætlaður þjóðarheildinni á jafnréttisgrundvelli. Sjóðurinn heitir nú eftirlaunasjóður og nemur nú um 100 þúsund dollurum (12,5 mkr.) á hvert mannsbarn í Noregi. Enginn norskur stjórnmálamaður hefur auðgazt á olíuvinnslunni eða löggjöfinni um hana, svo vitað sé.
Í þessum anda ákvað norska stórþingið m.a. að setja sér tíu olíuboðorð strax árið 1971, áður en olíuvinnslan hófst fyrir alvöru. Fyrsta boðorðið kveður á um eftirlit og stjórn ríkisins á allri starfsemi á norsku landgrunni. Fjórða boðorðið kveður á um, að olíuvinnslan verði að taka tillit til annarra atvinnuvega og til umhverfisverndar. Sjöunda boðorðið kveður á um, að ríkið þurfi á öllu stigum að tryggja, að olíuvinnslan þjóni norskum almannahagsmunum og olíubúskapur Norðmanna nái máli á heimsvísu. Andinn að baki boðorðanna vísaði á árangurinn, sem Norðmenn hafa náð.
Þessa nærtæku norsku fyrirmynd að hagkvæmri og réttlátri auðlindastjórn hefur Alþingi kosið að virða að vettugi þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um áratuga skeið. Ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er ætlað að rétta kúrsinn af.
Norðmönnum hefur ekki tekizt að prýða fiskveiðistjórn sína sömu kostum og olíustjórnina. Það stafar trúlega af því, að líkt og flestar aðrar Evrópuþjóðir telja Norðmenn fiskveiðar skipta svo litlu máli fyrir þjóðarbúskapinn, að mikil óhagkvæmni sé ásættanleg. Íslendingar hafa ekki efni á þvílíkum lúxus, allra sízt nú, þegar þjóðin þarf að bera þungar byrðar vegna hrunsins, sem átti upptök sín m.a. í ókeypis afhendingu aflaheimilda til útvegsmanna og einkavæðingu gömlu ríkisbankanna í sama silfurfatsanda.