Framlengdir armar
Ísland er fákeppnisland. Það stafar þó ekki af smæð landsins. Mörg önnur smálönd búa við mikla samkeppni. Galdurinn er að greiða fyrir viðskiptum við útlönd, og þá stækkar heimamarkaðurinn eins og Adam Smith rakti með skýrum rökum í Auðlegð þjóðanna 1776. Til dæmis búa Eistar nú við gallharða samkeppni á fjármálamarkaði, þótt þeir séu aðeins fjórum sinnum fleiri en við og landsframleiðsla Eistlands hafi verið minni en landsframleiðslan hér heima, þegar Eistum tókst loksins að brjótast undan oki Sovétstjórnarinnar 1991. Smæð er engin fyrirstaða.
Nei, Ísland er fákeppnisland fyrst og fremst vegna þess, að stjórnvöld hafa frá fyrstu tíð verið á bandi framleiðenda og skeytingarlaus um hag neytenda. Ég er að tala um Framsóknarflokkinn og bændur, Sjálfstæðisflokkinn og heildsalana og útgerðina og allt það. Enn eimir svo mjög eftir af þessum faðmlögum stjórnmálaflokkanna og framleiðenda, að ungt fólk hlýtur sumt að halda, að Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð séu landsmálafélög í Sjálfstæðisflokknum líkt og Vörður og Hvöt. Landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið hegða sér enn eins og þau séu framlengdir armar bænda og útvegsmanna. Og nú virðist Seðlabankinn með líku lagi vera genginn í lið með viðskiptabönkunum. Í þau skipti, sem háa útlánsvexti og lága innlánsvexti bankanna hér hefur borið á góma, hefur Seðlabankinn kveðið sér hljóðs með villandi upplýsingum um málið og reynt að gera sem allra minnst úr vaxtamuninum. Þetta gerðist fyrir kosningar í vor leið og aftur nú um daginn. Seðlabankinn á að lögum að gæta hagsmuna almennings, ekki bankanna.
Ég lýsti því hér fyrir viku, að Seðlabankinn lagði án skýringar frá sér skætt vopn gegn verðbólgu, bindiskylduna, og ákvað heldur að styðjast einvörðungu við stýrivexti. Þessi ákvörðun bankans 2001 ásamt máttlausum fortölum bar ekki betri árangur en svo, að verðbólgan hefur lengst af verið langt yfir verðbólgumarkmiði bankans og oftar en ekki yfir efri þolmörkum. Bankinn hlýtur að hafa reist ákvörðun sína um afnám bindiskyldunnar á rökstuddri, dagsettri greinargerð. Þá greinargerð ætti bankinn nú að leggja fram opinberlega. Viðskiptabankar kunna því auðvitað ekki vel að láta binda hendur sínar, því að þeir eiga yfirleitt ekki auðvelt með að varpa bindiskyldunni yfir á viðskiptavini sína með hærri útlánsvöxtum og þurfa því að hægja á útlánum beint frekar en eingöngu óbeint með vaxtahækkun, sem bankarnir geta auðveldlega kennt hærri stýrivöxtum Seðlabankans um. Bindiskylda er hvergi nefnd á nafn í tveim greinargerðum, sem bankinn birti við kerfisbreytinguna 2001. Greinargerð með rökum Seðlabankans fyrir afnámi bindiskyldunnar 2001 þarf að birta, svo að hægt sé auk annars að meta, hvort Seðlabankanum er treystandi fyrir umsjón fjármálaeftirlits, sem bankinn hefur sótzt eftir að endurheimta inn fyrir sína veggi.
Í Sovétríkjunum sálugu réð framleiðslan lögum og lofum, og ríkið var eini vinnuveitandinn. Það var ekkert grín að lenda í útistöðum við hann. Fólk var rekið úr vinnunni fyrir minnsta andóf, og atvinnuleysi var fangelsissök. Ég er að lýsa nýliðinni tíð. Fyrrum viðskiptaráðherra stóð með líku lagi upp á opnum fundi um bankamál í Reykjavík á dögunum og tvísagði fyrir fullum sal, að það væri alvarlegt mál, að annar frumælandinn starfaði í Háskóla Íslands. Þótt Ísland hafi frá fyrstu tíð verið lýðræðis- og réttarríki ólíkt Sovétríkjunum, sóttu leiðandi stjórnmálaöfl hér heima ýmsar fyrirmyndir í austurveg, til dæmis þjónkunina við framleiðendur og „andrúmsloft dauðans“, sem Morgunblaðið hefur nýlega gert að umtalsefni með eftirminnilegu móti. Ástæðan var hin sama á báðum stöðum. Fylgispekt við framleiðendur skaffar völd, því að hagsmunir neytenda eru dreifðir og mega sín því ekki mikils gegn samþjöppuðum hagsmunum framleiðenda. Kommúnistar ákölluðu „Sovét-Ísland, óskalandið“ laust og bundið, og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn sköffuðu í ýmsum hlutföllum og skiptu landinu á milli sín, nú síðast Búnaðarbankanum og Landsbankanum, þegar þeir voru fyrir fáeinum árum einkavæddir með rússnesku sniði upp á þau býti auk annars, að varaformaður Framsóknarflokksins 1998-2001 auðgaðist mjög með atbeina áður greinds viðskiptaráðherra sama flokks. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Morgunblaðið sáu neitt athugavert við þennan gjörning og innsigluðu með þögninni aðild sína að verknaðinum og velþóknun, eins og ritstjóri Morgunblaðsins hefur lýst nákvæmlega í prentaðri ritgerð um þáverandi formann Sjálfstæðisflokksins. Þaðan kemur orðtakið talsamband við flokkinn.