DV
11. jan, 2013

Fræðasamfélagið og frumvarpið

Í starfi mínu í Háskóla Íslands í 30 ár hef ég kynnzt fræðasamfélaginu býsna vel sem innanhússmaður, þekki þar hverja þúfu að heita má. Fræðasamfélagið er kór, þar sem hver syngur með sínu nefi. Þar er enginn söngstjóri. Það tíðkast ekki í lýðræðisríkjum. Í einræðisríkjum eru söngstjórar í hverjum háskóla og hverri háskóladeild til að tryggja samhljóm fræðasamfélagsins í þágu ríkjandi afla eða a.m.k. réttan tón. Óþægilegar raddir eru kæfðar. Þannig var þetta í kommúnistaríkjunum sálugu, en ekki hér, ef frá eru taldar fáeinar tilraunir til eineltis, flestar misheppnaðar.

Í lýðræðisríkjum er fræðimönnum frjálst að stunda þær rannsóknir sem þeir vilja og segja það sem þeim sýnist. Fáum dettur í hug, að fræðasamfélagið komi sér saman um að styðja einn stjórnmálaflokk eða eina skoðun frekar en aðra. Orðið „fræðasamfélag“ á því ekki vel við, þegar stjórnmál eða stjórnskipunarmál ber á góma. Stjórnarskráin er að vísu öðrum þræði fræðilegt skjal í þeim skilingi, að hún þarf að fullnægja kröfum skynsamlegrar rökhugsunar, tiltækrar þekkingar og sögulegs samhengis hlutanna. Stjórnarskráin er einnig samfélagssáttmáli, sem kveður á um jafnrétti og mælir gegn forréttindum. Frumvarpið að nýrri stjórnarskrá, sem Alþingi býst nú til að afgreiða fyrir þinglok í byrjun marz, hefst á þessum orðum: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Sumir skjóta upp kryppu við að sjá og heyra þessi upphafsorð. Allt tal um, að stjórnarskrá þurfi að afgreiða í fullkominni sátt stjórnmálaflokka á Alþingi, stangast á við rök og reynslu aldanna. Breytingar á okkar eigin stjórnarskrá 1942 og 1959 kostuðu hatramar deilur, en breytingarnar voru nauðsynlegar og náðu fram að ganga. Stjórnarskrá Bandaríkjanna frá 1787 var samþykkt eftir hörð átök. Þannig er hægt að fara land úr landi. Hitt er að sönnu mikils virði og ánægjulegt, að nýja stjórnarskráin fyrir Ísland nýtur yfirgnæfandi stuðnings fólksins í landinu.

Orðið „fræðasamfélag“ er nýyrði. Það er ekki að finna í ritmálssafni Orðabókar Háskólans og hefur yfirleitt ekki verið notað í stjórnmálaumræðu á Íslandi fyrr en nú, að fáeinir háskólamenn vöknuðu eins og við vondan draum og hófu að lýsa andúð sinni á frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Þetta gerðist eftir að 67% kjósenda höfðu sagt sig fylgjandi frumvarpinu og Alþingi bjóst til að ljúka málinu í samræmi við fyrri fyrirheit, sem þingið staðfesti með einróma ályktun 28. september 2010. Yfirgnæfandi hluti kjósenda lýsti sig einnig fylgjandi nokkrum helztu ákvæðum frumvarpsins: 83% sögðust fylgjandi ákvæðinu um auðlindir i þjóðareigu, 78% studdu persónukjör, 67% studdu jafnt vægi atkvæða, og 73% studdu aukið vægi beins lýðræðis. Níu mánaða yfirlega Alþingis yfir frumvarpinu ásamt sérfræðingum gaf þinginu ekki tilefni til að spyrja kjósendur sérstaklega um stjórnskipanina, sem forseti Íslands gerði að umtalsefni í nýársávarpi sínu. Það var ekki fyrr en úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir, að fáeinir háskólamenn létu í sér heyra á málþingi í Háskóla Íslands og höfðu allt á hornum sér. Ekki virtist hafa verið leitað eftir framlagi fræðimanna, sem lýst hafa ánægju með frumvarpið.

Starfslið Stjórnlagaráðs fylgdist með því, hverjir brugðust við tilboði ráðsins til þjóðarinnar allrar um að senda inn athugasemdir og ábendingar og leggja með því móti hönd á plóg við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Erindin, sem bárust, skiptu hundruðum, og ábendingarnar skiptu þúsundum. Gögnin eru til. Ég man eftir bændum, listamönnum og sjómönnum, en ég minnist þess ekki, að nokkur maður, sem titlaði sig lögfræðing, hafi verið í hópi þeirra, sem gáfu sig fram og buðust til að hjálpa. Margir lögfræðingar sýndu verkinu lítinn eða engan áhuga. Þó voru ekki færri en fjórir lögfræðingar í sjö manna stjórnlaganefnd, sem Alþingi skipaði til að búa málið í hendur Stjórnlagaráðs. Fjórir af þeim 25 fulltrúum, sem þjóðin kaus og Alþingi skipaði til setu í Stjórnlagaráði til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá, voru lögfræðingar auk fjölda annarra lögfræðinga, sem komu að samningu frumvarpsins. Tveir stjórnmálafræðingar sátu í ráðinu. Raddir lögfræðinga og stjórnmálafræðinga heyrðust því vel við hvert fótmál í frumvarpssmíðinni.

Hvers vegna sýndu lögfræðingar endurskoðun stjórnarskrárinnar almennt svo lítinn áhuga? – aðrir en þeir, sem þing og þjóð kvöddu til verksins. Af hverju stafar lítilsvirðing þeirra fyrst gagnvart verkinu, sem Alþingi ákvað að hrinda af stað 2009 og fela þjóðkjörnum fulltrúum, og nú gagnvart kjósendum, sem hafa lýst sig fylgjandi frumvarpinu? Mér virðast þeir æði margir hafa litið á Stjórnlagaráð og þá um leið á Alþingi og þjóðina sem boðflennur í einkasamkvæmi, sem þeir einir ættu að sitja. Í þessu ljósi þarf að skoða fordómafulla afstöðu margra lögfræðinga til nýrrar stjórnarskrár og einnig makalausa ákvörðun hæstaréttardómara um að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings 2010. Lögfræðingar og sumir fræðimenn ættu e.t.v. að fylgjast betur með næst þegar allri þjóðinni verður boðið að hjálpast að við endurskoðun stjórnarskrárinnar.