DV
9. des, 2011

Föstum fótum í fortíðinni

Sumir telja, að Grikkjum hafi aldrei verið alvara með aðild sinni að ESB. Þeir kunni ekki annað en að sleikja sólina og slæpast og hafi hvort eð er ekki gert annað í mörg hundruð ár. Þeir tóku aðild að ESB fegins hendi 1981 og öllu því fé, sem fylgdi henni, en þeir gerðu lítið annað til að lyfta landinu. Þeir notuðu öryggisnet ESB eins og hengirúm. Þetta er ekki mín skoðun, heldur skoðun grísks hagfræðings, sem fjallaði ásamt öðrum um Grikkland á fundi, þar sem ég var í Seðlabankanum í Atlanta um daginn. Grikkir breytast ekki, sagði hann, hvort sem þeir standa innan eða utan ESB, nei, Grikkir standa föstum fótum í fortíðinni.

Þarna birtist harkaleg afstaða. Eru Grikkir þá öðruvísi en annað fólk? Varla var maðurinn að tala um alla landa sína á einu bretti. Nei, hann var væntanlega að tala um þá Grikki, sem hafa haft undirtökin í stjórnmálalífi landsins. Ég þekki marga Grikki, sem vilja, að Grikkland breytist, taki sér tak, hætti að vera hálfgildingsland, verði heldur fullgilt Evrópuland, semji sig að nýjum, hagfelldari siðum og betri lífskjörum með því að læra af öðrum Evrópuþjóðum. Um þetta snerist Evrópumálið í Grikklandi í 30 ár. Þessir Grikkir telja (ég er að tala um ungt fólk á öllum aldri), að Grikkir geti breytzt, því að öll getum við breytzt, eða næstum öll.

Hví skyldu þeir Grikkir, sem vilja færa Grikkland nær nútímanum, ekki geta náð að lyfta landinu með því að ná nógu mörgum kjósendum á sitt band? Þeir hafa gild rök fram að færa. Hví skyldi þeim ekki geta tekizt þetta? – úr því að hinir, sem misstu efnahagslífið fram af bjargbrúninni, reyndust ekki duga. Væri ekki vert að reyna? Grikkland er lýðræðisríki.

Ég er ekki að skipta um umræðuefni, þegar ég segist nú heyra fyrir mér ræðurnar, sem þrælahaldarar og erindrekar þeirra héldu í Bandaríkjunum fyrir 150 árum. Þeir sögðu: Þrælahald hefur fylgt þessari þjóð frá öndverðu. Við fengum þrælahaldið í arf frá forfeðrum okkar. Við breytum því ekki. Við viljum ekki breyta því, og við getum ekki heldur breytt því, enda myndi efnahagur suðurríkjanna þá versna til muna, jafnvel leggjast í auðn.

Auðvitað gátu Bandaríkjamenn tekið sér tak. Þeir kusu sér nýjan forseta, Abraham Lincoln, sem breytti valdahlutföllum í landinu og reif þrælahaldið upp með rótum. Lincoln sagði: Ef þrælahald er ekki rangt, þá er ekkert rangt.

Nánara samstarf í ríkisfjármálum ESB-landanna var alla tíð forsenda sameiginlegs gjaldmiðils, þótt nú fyrst fáist Frakkar og Þjóðverjar loksins til að horfast í augu við þá staðreynd. Mikilvægi ríkisfjármálanna fyrir myntsamstarfið hefur legið fyrir frá upphafi. Sumir hér heima virðast telja, að nánara samstarf um ríkisfjármál innan ESB muni draga úr líkum þess, að Íslendingar fáist til að fallast á aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi skoðun virðist hvíla á þeirri hugsun, að Íslendingum sé ókleift að semja sig að auknum aga, sem fælist í að reka ríkisbúskapinn með sjálfbærum hætti. Sé þessi skoðun rétt, eiga Íslendingar ekkert erindi inn í ESB og yrðu þá bara til vandræða þar. Væri ég þessarar skoðunar, væri ég andvígur umsókn Íslands um inngöngu í ESB.

Hefur stjórn ríkisfjármála tekizt svo vel hér heima, að Íslendingum geti stafað háski af evrópskum aga í efnahagsmálum? – gegn því að eiga auk annars greiðan aðgang að fjárhagslegri neyðarhjálp, ef í harðbakkann slær. Nei, þvert á móti. Slök stjórn ríkisfjármála og peningamála ásamt öðrum slappleika olli því, að íslenzka krónan hefur tapað 99,95% af verðgildi sínu gagnvart dönsku krónunni frá 1939, og gerði Ísland að alræmdu verðbólgubæli.

Aðild að ESB og upptaka evrunnar snúast öðrum þræði um að hverfa af þeirri braut og marka nýja, enda eru lífskjör á Íslandi nú mun lakari en annars staðar á Norðurlöndum vegna veikrar hagstjórnar langt aftur í tímann og veikra innviða. Mörg ár og miklar umbætur þarf til að rétta kúrsinn af. Hrunið er ekki orsök vandans. Hrunið var vekjaraklukkan, sem opnaði vonandi augu nógu marga til þess, að hægt verði að ryðja nýjar brautir til farsældar fyrir land og lýð.