DV
10. jún, 2013

Forsetinn og lýðræðið

Forseti Íslands er kominn á kaf í pólitík. Í þingsetningarræðu sinni afhjúpaði forsetinn með tvennu móti afstöðu sína til aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum um mál, sem hann er sjálfur andvígur.

Í fyrsta lagi lýsti forsetinn þeirri skoðun, að ekki væri þörf fyrir nýja stjórnarskrá, heldur dygði að gera breytingar á gildandi stjórnarskrá frá 1944, sem nokkrum sinnum hefði verið „endurbætt í breiðri sátt“.

Forsetinn hallar réttu máli. Stjórnarskrárbreytingarnar 1942 og 1959 voru gerðar gegn harðri andstöðu Framsóknarflokksins á Alþingi eins og forsetinn ætti að vita. Svo harðar voru deilurnar, að ekki greri um heilt milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um margra ára skeið að loknum þeim átökum í bæði skiptin. Eðlilegt er og sjálfsagt, að menn takist á um nýja stjórnarskrá, sem kveður á um, að allir sitji við sama borð.

Í annan stað var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október s.l., þar sem 67% kjósenda lýstu stuðningi við frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ekki bara það: 73% kjósenda lýstu einnig stuðningi við ákvæðið um beint lýðræði, svo að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna geti krafizt þess, að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forseti Íslands virðist ekki skeyta um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar, ekki frekar en fv. þingflokkar Framsóknar og sjálfstæðismanna, sem stöðvuðu ásamt öðrum framgang nýju stjórnarskrárinnar á Alþingi fyrir þinglok í vor. Þó lágu fyrir opinberar og skriflegar yfirlýsingar meiri hluta þingmanna um, að þeir styddu frumvarpið og vildu afgreiða það fyrir þinglok í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október.

Sama virðingarleysi gagnvart vilja fólksins í landinu markar ummæli forsetans um samningaviðaræður Íslands við ESB. Þjóðinni hefur verið lofað, að hún fái að greiða atkvæði um aðildina, og þá væntanlega á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Öðruvísi geta margir kjósendur ekki myndað sér skoðun á málinu. Stjórnarskrárfrumvarpið kveður skýrt á um, að framsal fullveldis eins og t.d. við aðild Íslands að ESB verða kjósendur að samþykkja í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Skoðun Alþingis skiptir þá ekki máli, þar eð þjóðin er yfirboðari þingsins. Forseti Íslands gerir lítið úr nauðsyn þess að ljúka aðildarsamningum við ESB og virðist því kæra sig kollóttan um þetta loforð fv. ríkisstjórnar og einnig um þjóðarviljann, þegar þar að kemur.

Alþingi er hvorki heppilegur né eðlilegur vettvangur umfjöllunar um mál, sem kjósendur leiða til lykta í

þjóðaratkvæðagreiðslum. Um slík mál er eðlilegra að fjalla úti í þjóðfélaginu en inni á Alþingi. Það stafar af því, að Alþingi getur eins og dæmin sanna misbeitt valdi sínu til að taka ráðin af kjósendum. Forsetinn bítur höfuðið af skömminni með því að segja: „Alþingiskosningarnar skiluðu mikilvægum boðskap um stjórnarskrána“ án þess að minnast einu orði á þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október s.l.

Sú staðreynd, að Alþingi heyktist á að afgreiða nýju stjórnarskrána fyrir þinglok í vor, undirstrikar vandann, sem við er að glíma. Vandinn birtist m.a. í því, að Alþingi leyfði sér að taka fram fyrir hendurnar á kjósendum í stjórnarskrármálinu. Þvílíkt hefur ekki gerzt í slíku stórmáli í okkar heimshluta a.m.k. frá stríðslokum 1945, svo að ég viti, nema einu sinni. Það var í Færeyjum 1946, þegar Færeyingar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að fara að dæmi Íslendinga frá 1944 og lýsa yfir sjálfstæði frá Danmörku. Lögþingið í Þórshöfn staðfesti niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, en danski kóngurinn rauf þá þingið og boðaði til nýrra kosninga, þar sem andstæðingar sjálfstæðis höfðu sigur. Þjóðaratkvæðagreiðslan var því í reynd að engu höfð. Munurinn á Færeyjum þá og Íslandi nú er, að svikin í Færeyjum bárust að utan.

Málflutningur forseta Íslands og ýmissa alþingismanna bendir til, að ESB-málið gæti hlotið sömu örlög á Alþingi og nýja stjórnarskráin. Það er engu líkara en forsetinn og ýmsir aðrir treysti því ekki, að þjóðin segi nei við ESB-aðild, þegar þar að kemur. Þeir vilja ráða ferðinni og virðast telja sig hafna yfir kjósendur milli alþingiskosninga. Við því þarf að bregðast.