DV
27. jún, 2011

Forseti gegn flokksræði

Hugmyndin um aukið hlutverk forseta Íslands í stjórnskipaninni er öðrum þræði ættuð frá Gylfa Þ. Gíslasyni og Ólafi Jóhannessyni í ritgerðum þeirra í Helgafelli 1945. Þeir vildu skera upp herör gegn spilltu flokksræði, og það vil ég líka.

Gylfi og Ólafur vöruðu báðir við veldi stjórnmálaflokka og hagsmunahópa, sem voru þá þegar farnir að hegða sér eins og „ríki í ríkinu” (orð Ólafs). Þess vegna vildu þeir, að þingmönnum yrði fækkað og forseta Íslands væru í öryggisskyni færð aukin áhrif til að vega á móti flokksvaldinu, t.d. heimild til að skipa utanþingsstjórn við sérstakar aðstæður.

Þetta er leiðin, sem Austur-Evrópuþjóðirnar hafa margar kosið að fara í nýjum stjórnarskrám eftir 1991, enda eru þær skaðbrenndar af gerræði eins og við. Þingræði og forsetaræði eru falskar andstæður. Það er hægt að fara milliveg; það heitir á ensku „semi-presidential government“ og tíðkast í ýmsum hlutföllum. Finnsku hlutföllin eru fín, finnst mér, Rússar ganga of langt.

Sigurður Líndal prófessor lýsir hlutverki forsetans vel í grein sinni „Stjórnskipuleg staða forseta Íslands“ í Skírni 1992. Svanur Kristjánsson prófessor hefur einnig fjallað um málið í grein sinni „Stofnun lýðveldis – nýsköpun lýðræðis“ í Skírni 2006. Mikilvæg lesning hvort tveggja.

(Birtist á dv.is)