DV
12. júl, 2013

Forseti brennir af

Nýja stjórnarskráin, sem 67% kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og Alþingi setti á ís, hefði trúlega dugað til að vernda fólkið í landinu gegn röngum ákvörðunum forsetans og Alþingis í veiðigjaldsmálinu.

Alþingi gengur enn sem fyrr erinda útvegsmanna og reynir ekki að leyna því. Fyrstu kvótalögin voru beinlínis samin á skrifstofum LÍÚ (sjá ritgerð Halldórs Jónssonar „Ákvarðanataka í sjávarútvegi og stjórnun fiskveiða“ í Samfélagstíðindi 1990, bls. 99-141). Forseti Íslands gengur nú einnig erinda útvegsmanna eins og hann dansaði með útrásarvíkingunum fyrir hrun og uppskar þungar ákúrur fyrir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (8. bindi, bls. 170-178). RNA lauk máli sínu um forsetann með þessum orðum: „Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.“ (bls. 178

Ég segi, að nýja stjórnarskráin hefði „trúlega“ dugað, því að það hefði getað komið til kasta dómstóla að úrskurða, hvort veiðigjaldslögin heyri undir „fjárlög“ eða „skattamálefni“. Slíkum málum getur forsetinn einn skotið í dóm þjóðarinnar skv. nýju stjórnarskránni.

Ég tel veiðigjaldslögin ekki heyra undir „fjárlög“ eða „skattamálefni“ vegna þess, að veiðigjald er leiga, þ.e.a.s. afnotagjald, en ekki skattur. Sá, sem leigir öðrum húsnæði, leggur ekki skatt á leigjandann, heldur innheimtir eigandinn leigu fyrir afnot af eign sinni. Röng orðanotkun í veiðigjaldsfrumvarpinu, sem nú er orðið að lögum, breytir engu um eðli málsins. Ég tel, að ætla verði, að óvilhallir dómarar myndu hafa dregið sömu ályktun, en þar er þó ekki heldur á vísan að róa eins og reynslan sýnir. Væri veiðigjald rétt nefndur skattur, væru þau ólögleg veiðigjöldin, sem útvegsfyrirtækin innheimta hvert af öðru með frjálsu framsali veiðiheimilda, þar eð engum leyfist að lögum að leggja á skatta nema almannavaldinu.

Úrslit veiðigjaldsmálsins sýna, hvílíkt óhappaverk Alþingi vann með því að setja nýju stjórnarskrána á ís frekar en að samþykkja hana í samræmi við bæði skýran vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni og skriflegar viljayfirlýsingar 32 þingmanna af 63 í vor leið.

Nýju stjórnarskránni er m.a. ætlað að veita fólkinu í landinu vernd gegn ofríki stjórnmálastéttarinnar og hagsmunahópa. Því lengur sem Alþingi heldur áfram að vanvirða vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, þeim mun fleiri ólánsverk getur Alþingi unnið með gamla laginu gegn vilja fólksins. Ekki virðist brotaviljann vanta. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra lýstu 73% kjósenda stuðningi við ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um beint lýðræði og þjóðaratkvæði að frumkvæði kjósenda.

Ólafur Jóhannesson prófessor, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir um Alþingi í tímaritinu Helgafell 1945:

„Eigi það í framtíðinni að verða fulltrúasamkunda þjóðarinnar og landsins í heild, en ekki einstakra klíkna eða hagsmunahópa, þarf að breyta kjördæmaskipaninni.“ (bls. 110)

Ólafur segir einnig:

„Ég tel, að breytingar á stjórnarskránni eigi fyrst og fremst að miða að því að tryggja raunverulegt lýðræði í landinu og fyrirbyggja hvers konar ofbeldi einstaklinga og félagsheilda. … vald stjórnmálaflokkanna og ýmissa hagsmunasamtaka er orðið meira en góðu hófi gegnir. Í rauninni er þar orðið um að ræða mörg ríki í ríkinu, og þau svo voldug, að þau beygja ríkisvaldið og knésetja þjóðarheildina.“ (bls. 105-106)

Nýja stjórnarskráin viðurkennir bæði þessi höfuðsjónarmið Ólafs Jóhannessonar.