DV
19. júl, 2013

Forseti brennir af: Meira

Ákvörðun forseta Íslands að staðfesta veiðigjaldslögin frá Alþingi var röng, þar eð hún gengur gegn höfuðmarkmiði málskotsréttarins eins og til hans var stofnað. Málskotsréttinum var komið fyrir í stjórnarskránni 1944 til að vernda fólkið í landinu gegn ofríki stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka.

Svanur Kristjánsson prófessor lýsir tilurð málskotsréttarins og lýðveldisstjórnarskrárinnar vel í ritgerð sinni „Frá nýsköpun lýðræðis til óhefts flokkavalds: Fjórir forsetar Íslands 1944-1996“ í Skírni 2012. Helzt hefðu alþingismenn þá margir viljað koma sér undan málskotsréttinum, enda var honum beinlínis stefnt gegn þeim. Sveinn Björnsson ríkisstjóri átti ríkan þátt í að fá málskotsréttinum framgengt í lýðveldisstjórnarskránni ásamt þjóðkjöri forseta í stað þingkjörins forseta, sem alþingismenn hefðu heldur kosið til að geta haft forsetann í vasanum. Málskotsréttinum var og er ætlað að veita fólkinu í landinu vörn gegn ofríki Alþingis. Þjóðin er yfirboðari þingsins og ekki öfugt.

Svanur Kristjánsson dregur atvik málsins saman með þessum orðum (bls. 61):

„1. Í aðdraganda lýðveldisstofnunar urðu mikil átök um fyrirhugaða stjórnarskrá. Þar tókust á annars vegar þingstjórnarsinnar og hins vegar málsvarar nýsköpunar lýðræðis: valddreifingar, fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis.

2. Í stjórnarskrá lýðveldisins var þingstjórninni, alvalda Alþingi, hafnað með yfirveguðum, afgerandi og formlegum hætti.

3. Formlega séð er í landinu tvíveldi forseta og þjóðþings án þess að valdsvið þeirra sé skýrt afmarkað.

4. Gert er ráð fyrir virkum fullveldisrétti fólksins milli þingkosninga.“

Enginn vafi leikur á, að yfirgnæfandi hluti kjósenda hefði hafnað veiðigjaldslögunum í þjóðaratkvæði. Gætu þeir gripið í taumana, myndu kjósendur ekki láta ekki bjóða sér, að stjórnmálaflokkar, sem náðu meiri hluta á Alþingi með því að lofa að lækka skuldir heimilanna strax, láti það verða sitt fyrsta verk að lækka veiðigjaldið til að létta undir með útvegsmönnum, sem sízt allra þurfa á frekari meðgjöf að halda frá okkur hinum. Vilji kjósenda liggur fyrir: 83% þeirra lýstu stuðningi við ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um auðlindir í þjóðareigu með fullu gjaldi fyrir afnotaréttinn. Með því að staðfesta veiðigjaldslögin með undirskrift sinni gekk forsetinn gegn vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra og einnig í fjölmörgum skoðanakönnunum mörg undangengin ár. Skv. könnun Fréttablaðsins í lok júní voru 71% andvíg lækkun veiðigjaldsins. Málskotsréttinum var komið fyrir í stjórnarskránni gagngert til að girða fyrir löggjöf, sem gengur þvert á vilja kjósenda.

Ákvörðun forsetans skýrir, hvers vegna forsetanum er ekki einum treystandi fyrir málskotsréttinum. Þess vegna kveður nýja stjórnarskráin á um tvöfaldan málskotsrétt: annars vegar óbreyttan rétt forsetans til að skjóta málum í þjóðaratkvæði og hins vegar nýjan lítils háttar skilyrtan málskotsrétt kjósenda án atbeina forsetans. Hefði nýja stjórnarskráin þegar öðlazt gildi svo sem til stóð og eðlilegt hefði verið, hefðu 24 þúsund undirskriftir dugað til að tryggja þjóðaratkvæði um veiðigjaldslögin, enda heyrir veiðigjald ekki undir skattamál, þar eð veiðigjald er leiga, ekki skattur. Það sætir því tíðindum, að forseti Íslands skuli hafa leyft sér að hunza þær 35 þúsund undirskriftir, sem honum voru afhentar.

Forseti Íslands hefur í tvígang gert sig sekan um aðild að valdníðslu Alþingis, fyrst með því að liðsinna þeim öflum á Alþingi, sem létu undir höfuð leggjast að staðfesta vilja þjóðarinnar og þingsins í stjórnarskrármálinu, og síðan með því að neyta lags í skjóli úreltrar stjórnarskrár til að hindra framgang þjóðarviljans í veiðigjaldsmálinu. Bráðabirgðastjórnarskráin frá 1944 er úrelt eins og sést m.a. á því, að hún dugir ekki til að girða fyrir valdníðslu Alþingis og forseta Íslands í veiðigjaldsmálinu og tryggja virkan fullveldisrétt fólksins milli þingkosninga. Úrslit málsins sýna skýrt, hversu brýn hún er þörfin fyrir nýju stjórnarskrána, sem þjóðin studdi eindregið í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefði trúlega dugað til að knýja fram þjóðaratkvæði um veiðigjaldslögin án atbeina forseta Íslands.