DV
28. jún, 2011

Forsetaþingræði

Lýðræðisskipan landa er af þrennu tagi.

Þingræði er reglan víða í Evrópu eins og í Kanada, Japan, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Forsetaræði er reglan í Bandaríkjunum og Suður-Ameríkulöndum.

Kostir og gallar beggja kerfa hafa verið ræddir í þaula um langt árabil.

Ísland fór milliveginn við lýðveldisstofnunina 1944, þegar forsetaþingræði var tekið upp í stjórnarskrá að frumkvæði Sveins Björnssonar ríkisstjóra. Forsetaþingræði (e. semi-presidential government) varð fyrir valinu m.a. vegna þess, að stjórnmálaflokkarnir voru þá í reyndinni óstarfhæfir. Þeir gátu ekki komið sér saman um ríkisstjórn, svo að ríkisstjórinn skipaði utanþingsstjórn, sem sat að völdum 1942-44. Helztu forustumenn stjórnmálaflokkanna reyndu að koma málum svo fyrir, að Alþingi frekar en þjóðin kysi forseta Íslands. Þjóðin hafnaði þeirri hugmynd með afgerandi hætti í sögulegri skoðanakönnun í tímaritinu Helgafelli 1943, fyrstu vísindalegu skoðanakönnun Íslandssögunnar. Þannig fékk Ísland þjóðkjörinn forseta, fyrst allra Evrópuríkja, að ég hygg.

Þannig hefst lýsingin á stjórnskipun Íslands á vef Vigdísar Finnbogadóttur (vigdis.is):

„Embætti forseta var stofnað með lýðveldisstjórnarskránni sem tók gildi 17. júní 1944 en fyrstu þrjár greinar stjórnarskrárinnar lýsa forsetaþingræðinu. … Á Íslandi er forsetaþingræði en í því felst að forseti og Alþingi fara saman með löggjafarvaldið og forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdavaldið.“

Austurríki, Finnland, Frakkland og Írland fóru sömu leið og Ísland á fimmta og sjötta áratug 20. aldar og gengu mislangt í þá átt að fela forseta sínum vald til að hemja aðra handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Síðar bættust ýmis önnur Evrópulönd í hóp forsetaþingræðislanda, svo sem Portúgal, Pólland, Búlgaría og Rúmenía.

Árið 1946 bjó tæpur sjöttungur þeirra ríkja, þar sem framkvæmdarvaldið situr í skjóli löggjafarvaldsins, við forsetaþingræði. Árið 2006 bjó röskur þriðjungur þeirra ríkja, þar sem framkvæmdarvaldið situr í skjóli löggjafarvaldsins, við forsetaþingræði. Mikil fjölgun landa með forsetaþingræðisskipan stafar einkum af því, að eftir fall kommúnismans 1989-91 þurftu löndin í Mið- og Austur-Evrópu nýjar stjórnarskrár, rösklega tuttugu talsins. Þessi lönd voru skaðbrennd af einræði og ofríki kommúnista. Nauðsynlegt var því talið að reisa skorður við flokksræði og forréttindum með því að fela forseta það hlutverk að tempra vald löggjafans og annarra stjórnvalda. Markmiðið er ekki að hlaða undir forsetann, heldur valddreifing.

Stjórnlagaráð fjallar nú um, hvernig verkaskiptingu milli Alþingis, ríkisstjórnar og forseta Íslands verði bezt komið fyrir í nýrri stjórnarskrá. Forsetaþingræðisskipulagið leyfir ýmsar útfærslur. Við í ráðinu höfum til dæmis komið okkur saman um, að í ljósi reynslunnar komi ekki til mála, að innanríkisráðherra einn skipi dómara. Því liggur sú tillaga fyrir ráðinu, að forseti Íslands skipi dómara að fengnu áliti lögbundinnar nefndar og ef til vill fáeina aðra forstjóra opinberra stofnana, sem nauðsyn ber til, að njóti sjálfstæðis gagnvart löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi.

Þeir eru til, sem þræta fyrir forsetaþingræðisskipulagið eða þykjast ekki þekkja það eða skilja. Þeir eru flestir í hópi þeirra, sem líta svo á, að flokksræði hafa engum skaða valdið þjóðinni á liðinni tíð. Forsetaþingræðinu var einmitt stefnt að því strax 1944 að tempra völd flokkanna og áhrif. Þörfin var brýn þá, og það er hún enn að minni hyggju.

(Birtist á dv.is)