Fordæmi frá 1787
Benjamín Franklín (1706-1790) var um sína daga meðal beztu sona Bandaríkjanna, dáður og virtur af öllum samferðamönnum sínum. Hann lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Hann var allt í senn: heimspekingur, prentari, rithöfundur, sendiherra, uppfinningamaður og vísindamaður og rækti öll hlutverkin af stakri prýði. Hann fann upp eldingarvarann og tvískipt gleraugu, svo að tvö dæmi séu tekin af uppfinningum hans.
Benjamín Franklín var kjörinn til setu á Stjórnlagaþinginu í Fíladelfíu 1787 fyrir Pennsylvaníu, en hann var þá kominn yfir áttrætt. Franklín lét að vísu ekki mikið til sín taka á þinginu, en hann þjappaði mönnum saman með skemmtilegheitum, endalausum sögum og alúðlegu viðmóti. Hann var samræðusnillingur og kunni vel að hlusta á aðra. Hann mælti meðal annars fyrir ákvæði um, að Bandaríkjaþing starfaði í einni deild frekar en tveim og allir kjósendur hefðu jafnan atkvæðisrétt, en tillögur hans um þetta og sumt annað náðu ekki fram að ganga. Eigi að síður studdi Franklín frumvarp Stjórnlagaþingsins með ráðum og dáð. Ræðan, sem hann flutti við lokaafgreiðslu frumvarpsins 17. september 1787, verður lengi í minnum höfð.
Franklín hóf mál sitt á að játa, að hann væri að svo stöddu ekki að öllu leyti sáttur við frumvarp Stjórnlagaþingsins. Hann bætti við: „Ég er samt ekki viss um, að ég muni aldrei fella mig við frumvarpið, því að á langri ævi hefur mér lærzt að skipta oft um skoðun, jafnvel um mikilvæg mál, sem ég áður taldi óyggjandi, í ljósi nýrra upplýsinga eða nánari athugunar. … Flestir menn telja sig hafa á réttu að standa og líta svo á, að þeir, sem eru á öðru máli, hafi rangt fyrir sér. .. Í þessu ljósi styð ég þetta stjórnarskrárfrumvarp með öllum sínum göllum, sé þeim til að dreifa, … þar eð ég efast um, að nokkurt annað þing, sem við getum kvatt saman, geti náð að búa til betri stjórnarskrá. Þegar mörgum mönnum er safnað saman til að beizla vitsmuni þeirra, þá safnast einnig saman fordómar þeirra og ástríður, rangar skoðanir þeirra, tryggð þeirra hvers um sig við sína heimabyggð, sjálfhygli og sérhagsmunir. Er hægt að gera sér von um fullkomið frumvarp til nýrrar stjórnarskrár við slíkar kringumstæður?“
Franklín sagðist síðan furða sig á, hversu gott frumvarpið væri við þessar erfiðu aðstæður, og sagði það mundu koma óvinum Bandaríkjanna í opna skjöldu. Þeir bíða þess fullvissir, sagði hann, að Bandaríkin liðist í sundur og stríðandi fylkingar búist til að skera hver aðra á háls.
Hann hélt áfram: „Ég er því samþykkur þessu frumvarpi, því að ég get ekki gert mér von um annað betra og ég er ekki heldur viss um, að frumvarpið sé ekki eins gott og helzt verður á kosið. Þau atriði frumvarpsins, sem ég hef talið, að betur mættu fara, felli ég mig eigi að síður við með almannahag að leiðarljósi. Ég hef aldrei sagt eitt aukatekið orð um þessi atriði utan húss. Þau voru rædd innan þessara veggja, og út fyrir þessa veggi munu þau ekki berast. Ef við myndum allir lýsa fyrir umbjóðendum okkar andstöðu við einstök ákvæði, kynnum við með því móti að spilla fyrir viðtökum frumvarpsins meðal almennings og öllu hinu góða, sem samhljóða samþykkt þess getur af sér leitt og þá einnig gott orðspor í öðrum löndum sem og heima fyrir, og gildir þá einu hvort samstaðan er raunveruleg eða ekki. … Ég vona því sjálfra okkar vegna og afkomenda okkar, að við munum mæla fyrir þessari stjórnarskrá af öllu hjarta hvar sem til okkar heyrist og snúa athygli okkar og atorku síðan að því að reyna að tryggja, að stjórnarskráin verði virt. Að öllu samanlögðu vildi ég óska þess, að allir stjórnlagaþingsmenn, sem kunna enn að vera andsnúnir einstökum ákvæðum frumvarpsins, muni líkt og ég sjálfur leyfa sér að efast svolítið um eigin óskeikulleika og staðfesta samstöðu okkar með því að undirrita skjalið.“
Frumvarpið var að loknu fjögurra mánaða þinghaldi samþykkt samhljóða með undirskrift 39 fulltrúa af 55, en 13 fulltrúar voru farnir heim fyrir þinglok, og þrír neituðu að skrifa undir.