DV
10. feb, 2012

Fölnuð fyrirmynd

Ýmsum þótti Stjórnlagaráði vera naumt skammtaður tími af hálfu Alþingis, sem gaf ráðinu fjóra mánuði til að endurskoða stjórnarskrána í fyrra. Tíminn reyndist þó duga. Ráðið gat stytt sér leið með því að nýta vandlega undirbúningsskýrslu stjórnlaganefndar Alþingis. Því skýtur skökku við, að þrír af sjö nefndarmönnum í stjórnlaganefnd – minni hluti nefndarinnar – skuli fjargviðrast út í frumvarp Stjórnlagaráðs, skilgetið afkvæmi stjórnlaganefndarinnar og fólksins að baki fulltrúunum. Heggur sá, er hlífa skyldi. Það tók ekki heldur nema fjóra mánuði að semja stjórnarskrá Bandaríkjanna 1787, sem var lengi vel ein helzta fyrirmynd nýrra stjórnarskráa víðs vegar um heiminn.

Bandaríska stjórnarskráin hefur marga góða kosti. Hún er brjóstvörn fólksins gegn hættunni á ofríki yfirvalda. Hún reisir eldveggi milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds með því að láta valdþættina skarast, svo að þeir geti haft eftirlit hver með öðrum. Forsetinn skipar dómara, en þingið þarf að staðfesta skipun þeirra. Bandaríkin eru réttarríki, sem skirrist ekki við að ákæra og dæma háa sem lága. Þar eru allir jafnir fyrir lögum. Samt eru dómsmál í ólestri þar vestra að því leyti, að blökkumenn eru nú fleiri í bandarískum fangelsum (þ.m.t. reynslulausn) en nam fjölda þræla fyrir afnám þrælahalds í landinu fyrir um 150 árum. Fleiri Bandaríkjamenn – röskar sex milljónir – eru nú í fangelsum (þ.m.t. reynslulausn og annað sambærilegt eftirlit) en voru í Gúlagi Stalíns í Sovétríkjunum, þegar mest var.

Ákvæðum um mannréttindi er að ýmsu leyti ábótavant í bandarísku stjórnarskránni. Þar vantar t.d. ákvæði um ferðafrelsi, réttinn til að vera talinn saklaus, unz sekt er sönnuð, og réttinn til lífsviðurværis, menntunar og heilbrigðisþjónustu. Allt þetta er að finna í frumvarpi Stjórnlagaráðs, en margt af þessu vantar í stjórnarskrána frá 1944, einnig eftir endurskoðun hennar með nýjum ákvæðum um mannréttindi 1995. Hins vegar tryggir bandaríska stjórnarskráin mönnum rétt til að bera vopn. Aðeins tvö önnur lönd hafa slík byssuverndarákvæði, Gvatemala og Mexíkó. Vopnaburðarákvæðið er furðuleg tímaskekkja af sjónarhóli flestra nútímamanna, enda falla Bandaríkjamenn langt umfram aðrar þjóðir fyrir stjórnarskrárvernduðum byssukúlum.

Bandaríski hæstaréttardómarinn Ruth Bader Ginsburg sagði í sjónvarpsviðtali í Egyptalandi um daginn, að stjórnarskrá Bandaríkjanna sé nú að ýmsu leyti úrelt fyrirmynd. Hún mælti frekar með stjórnarskrám Suður-Afríku og Kanada og Mannréttindasáttmála Evrópu. Framsækin mannréttindaákvæði eru aðalsmerki þessara skjala. Þangað sótti Stjórnlagaráð ýmsar fyrirmyndir.

Bandaríska stjórnarskráin er elzt allra gildandi stjórnarskráa og ber aldurinn með sér. Frá 1789 til 1970 sátu hæstaréttardómarar að jafnaði um 15 ár í embætti. Frá 1970 hafa dómararnir setið að jafnaði 26 ár í embætti. Hægari endurnýjun dómara veikir tengsl Hæstaréttar við almenning. Richard Nixon náði að skipa fjóra dómara í Hæstarétt þau fimm ár, sem hann var Bandaríkjaforseti 1968-74, en Jimmy Carter skipaði engan dómara þau fjögur ár, sem hann var í Hvíta húsinu 1976-80. Gildandi skipan leggur þá freistingu fyrir forsetann, að hann skipi til setu í réttinum unga menn, sem sitja þar til æviloka og standa í vegi fyrir endurnýjun réttarins.

Sú hugmynd hefur lengi verið uppi, að breyta þurfi bandarísku stjórnarskránni á þann veg, að elzti dómarinn í Hæstarétti víki fyrir nýjum dómara annað hvert ár, en haldi þó launum. Þannig myndi rétturinn endurnýjast til fulls á 18 ára fresti, þar eð dómararnir eru níu. Við þessa breytingu myndi rétturinn færast nær fólkinu, þar eð tryggt væri, að allir forsetar gætu skipað tvo nýja dómara til 18 ára í senn á hverju kjörtímabili. Þannig næðist jafnræði meðal forseta og milli kynslóða. Hæstiréttur gæti þá aldrei náð að teygja hugsanlega úreltar skoðanir sínar yfir margar kynslóðir. Slík skipan myndi auka sjálfstæði Hæstaréttar, draga úr sífellt þrálátari þaulsetu í réttinum og slæva áhuga dómara á að tímasetja brottför sína úr réttinum með stjórnmálahagsmuni í huga. Hægt væri að leiða þessa hugmynd í lög hér heima í samræmi við frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Góðir alþingismenn: gerið svo vel.