Fréttablaðið
19. okt, 2006

Flokkspólitískt réttarfar?

,,Eg las nýlega í erlendu riti um Íslendinga, að engin þjóð í heimi mundi vera svo grandvör og löghlýðin. Fangelsin stæði tóm og hegningardómarnir væri óvenjulega fáir í hlutfalli við mannfjölda. Þá datt mér í hug samtal, sem eg átti í fyrra við einn af helztu lögfræðingum vorum. Hann var að segja mér frá meðferð einnar íslenzkrar peningastofnunar, sem nýlega var komin í fjárþröng. Sögurnar voru svo hroðalegar, að hárin risu á höfði mér. ,,En er þetta ekki hegningarvert?” spurði eg. ,,Það mundi það vera alls staðar nema á Íslandi,” svaraði hann rólega. En er það ekki svo, að hér sé framinn grúi lagabrota, sem eru á almanna vitorði, en enginn hróflar við? Er ekki spillingin í þjóðfélagi voru orðin almennt umtalsefni, án þess að rönd verði við henni reist? Almenningsálitið er magnlaust, af því að lífsskoðun almennings stefnir öll að vorkunnsemi. Yfir allt er breidd blæja, þar sem kærleikur kann að vera uppistaðan, en kæruleysi er áreiðanlega ívafið.”

Orðin hér að framan eru tekin úr ritgerð, sem Sigurður Nordal prófessor birti í Skírni 1925. Síðan eru liðin rösk áttatíu ár, en orð Sigurðar eiga samt enn vel við. Af ýmsu er að taka. Morgunblaðið birti 14. október s.l. grein eftir Sverri Hermannsson, fyrrverandi Landsbankastjóra Sjálfstæðisflokksins, undir yfirskriftinni ,,Bankaræningjar”. Grein Sverris fjallar um fráfarandi framkvæmdastjóra sama flokks og fáeina félaga hans, sem byrjuðu með tvær hendur tómar. Sverrir hafði tíu dögum fyrr birt aðra grein um sömu menn í sama blaði og sagt þar: ,,Þegar öll kurl hafa komið til grafar er spurningin ekki sú hvort hinir ábyrgu verði dæmdir í rasphús heldur hversu langa tukthúsvist.” Ætla mætti, að ríkislögreglustjóra eða ríkissaksóknara þætti vert að kanna, hvað hæft er í þessum ásökunum bankastjórans fyrrverandi, enda var hann árum saman náinn samverkamaður þeirra manna, sem hann ber nú svo þungum sökum, og er öllum hnútum kunnugur innan flokks sem utan. En ríkislögreglustjórinn hreyfir hvorki legg né lið, ekki frekar en hann gerði til dæmis þegar sitjandi forsætisráðherra sakaði formann einkavæðingarnefndar til tíu ára um að hafa haft milligöngu um tilraun til að bera á sig 300 milljón króna mútur. Hvorki forsætisráðherrann né formaður einkavæðingarnefndar sá ástæðu til að krefjast rannsóknar mútumálsins og ekki heldur stjórnarandstaðan að Frjálslynda flokknum frátöldum. Lögreglan lyfti ekki litla fingri. Hvers vegna ekki?

Stjórnmálaflokkarnir misnotuðu allir aðstöðu sína í ríkisbönkunum, það segir sig sjálft. Þeir skiptu bankastjórastólunum bróðurlega á milli sín og áttu allir fulltrúa í bankaráðum. Áratugum saman heyrðu aðalbókarar bankanna beint undir bankaráðin, svo að bankaráðsmenn höfðu húsbóndavald yfir bókurunum og gátu því fylgzt með fjárreiðum einstakra viðskiptavina bankanna. Sjálfstæðismenn gátu fræðzt um framsóknarfyrirtækin og öfugt, og Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið fengu að fljóta með. Það er ekki mjög langt síðan skipuritum bankanna var breytt á þann veg, að bókarar heyrðu beint undir bankastjóra, líkt og tíðkast í öðrum fyrirtækjum. Þessi gagnkvæma hugulsemi – allir með! – er nærtækasta skýringin á því, hvers vegna ýmis vafasöm mál í bönkunum voru ekki rannsökuð, heldur þögguð niður. Bankabókin (1994) eftir Örnólf Árnason vakti ekki mikla athygli, þótt hún fengi hárin til að rísa á höfðum grunlausra lesenda. Morgunblaðið birti ólundarlega umsögn um bókina eftir Björn Bjarnason, nú dómsmálaráðherra.

Ríkissaksóknari hefur nú fyrirskipað rannsókn á meintum hlerunum. Hvað hefur gerzt? Hvaða slys hefur borið að höndum? Einn munurinn á hlerunarmálinu og bankamálunum er sá, að í hlerunarmálinu er hugulsemin ekki gagnkvæm. Einn flokkur liggur undir grun um að hafa hlerað aðra, og þeir knýja á um opinbera rannsókn. Sama máli gegnir um einkavæðingu viðskiptabankanna. Þar skipuðust bankamál landsins í fyrsta skipti á þann veg, að ríkisstjórnarflokkarnir voru einir um hituna. Stjórnarandstaðan var ekki höfð með. Erindrekar stjórnarflokkanna sitja enn í einkabankaráðum eins og tíminn standi í stað. Stjórnarandstaðan mun væntanlega láta rannsaka einkavæðingu bankanna og annarra ríkisfyrirtækja, nái hún að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar. Öðru verður varla trúað.