Fréttablaðið
14. jan, 2010

Flokkar á fóðrum

Haustið 1993 birti ég ásamt sjö samkennurum mínum í Háskóla Íslands opinbera áskorun til formanna stjórnmálaflokkanna um að opna bókhald flokkanna og gera almenningi grein fyrir fjárreiðum þeirra. Eini flokkurinn, sem svaraði okkur, var Kvennalistinn; þær skrifuðu kurteislegt bréf og sögðust ekkert hafa að fela. Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins jós fúkyrðum yfir okkur félagana í fjölmiðlum. Af áskorun okkar spunnust umræður í fjölmiðlum, en þær fjöruðu út á skömmum tíma. Morgunblaðið birti leiðara um málið daginn eftir að áskorunin birtist og tók undir sjónarmið okkar áttmenninganna, en blaðið sýndi málinu ekki mikinn áhuga eftir það. Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður flutti síðar frumvörp á Alþingi í anda áskorunar okkar, en ekkert þeirra náði fram að ganga.

Þar að kom, að Evrópuráðið lét málið til sín taka. Á vegum ráðsins starfar hópur ríkja gegn spillingu (GRECO). Þessi hópur beitti Alþingi þrýstingi, sem dugði loksins til, að ný lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra voru samþykkt á Alþingi 2006. Til að semja lögin var fengin sérvalin sjálftökusveit á vegum flokkanna með fyrr nefndan framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og aðra slíka virðingarmenn innan borðs. Svohljóðandi ákvæði var sett í lögin: „Ríkisendurskoðun skal að ósk stjórnmálasamtaka veita viðtöku og birta upplýsingar um öll bein fjárframlög til þeirra sem og önnur framlög sem metin eru að fjárhæð 200.000 kr. eða meira á árunum 2002 til 2006.“ Alþingi þótti ekki ástæða til að fara lengra aftur í tímann, enda hefðu þá styrkir útvegsmanna til flokkanna væntanlega komið upp á yfirborðið.

Ríkisendurskoðun hefur nú birt upplýsingar um fjármál flokkanna samkvæmt lögunum frá 2006. Þar kennir ýmissa grasa. Framsóknarflokkurinn tók við 276 mkr. frá einkaaðilum 2002-2006 ofan á ríkisframlagið, sem er annað eins. Einkaframlögin nema 13.000 kr. á hvert atkvæði greitt flokknum í þingkosningunum 2007, og eru framlög til einstakra frambjóðenda þá ekki talin með. Nærri má geta, hvað Framsóknarflokkurinn þáði af útvegsmönnum fyrir 2002 í þakklætisskyni fyrir kvótakerfið. Sjálfstæðisflokkurinn tók á sama tíma við 330 mkr. frá einkaaðilum, eða 5.000 kr. á hvert atkvæði 2007. Þá eru framlög til einstakra frambjóðenda ekki talin með og ekki heldur framlög til annarra stofnana flokksins en aðalskrifstofunnar. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að nafngreina gefendurna, þótt lögin kveði á um, að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum. Samfylkingin tók við 201 mkr., eða 4.000 kr. á hvert atkvæði 2007, og eru framlög til einstakra frambjóðenda ekki talin með. Vinstri hreyfingin grænt framboð tók að því er virðist við miklu minna fé en hinir flokkarnir og skilaði sundurlausum samtíningi af upplýsingum um framlögin. Ríkisendurskoðun hirti ekki um að leggja tölurnar saman, heldur birtir á vef sínum upplýsingar flokkanna ómeltar og athugasemdalaust. Stjórnmálaflokkar á Norðurlöndum hafa ekki um langt árabil tekið við framlögum frá fyrirtækjum.

Stærstu einstöku framlögin til flokkanna 2002-2006 bárust frá bönkunum, þótt framlög bankanna sjálfra séu ekki ýkja hátt hlutfall af heildinni. Séu eigendur bankanna taldir með og stórir viðskiptavinir, sem nú eru margir komnir í þrot, birtist önnur mynd. Útrásin hafði flokkana á fóðrum, ekki bara fjárhagslega, heldur einnig með því að raða flokksmönnum í nefndir, ráð og stjórnir á sínum vegum. Tilgangurinn var bersýnilega að kaupa sér frið. Rannsóknarnefnd Alþingis mun væntanlega greina frá lánum bankanna til stjórnmálamanna og embættismanna og eignarhaldsfélaga þeirra. Í þessu ljósi þarf að skoða hæga rás atburðanna eftir hrun. Rannsóknin var hlægileg í hálft ár eftir hrun eins og Eva Joly rannsóknardómari lýsti aðkomunni að landinu í vor leið.

Stjórnmálastéttin mátti ekki heyra á það minnzt, að óháðir erlendir menn yrðu fengnir til að rannsaka tildrög hrunsins. Nýju bönkunum er enn að mestu leyti stjórnað af innanbúðarfólki í gömlu bönkunum. Stjórnmálastéttin virðist binda vonir við, að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hreinsi flokkana af óþægilegum grunsemdum. Frétt Ríkisútvarpsins af störfum nefndarinnar um daginn hefur ef til vill glætt þær vonir, en þar sagði: „Páll [Hreinsson] segir að … einnig sé fjallað um viðbrögð stjórnvalda, eftirlit með bönkunum og eftir atvikum reynt að draga það fram ef eitthvað hafi farið úrskeiðis.“