Fjórflokkurinn í Færeyjum
Sjö stjórnmálaflokkar eiga fulltrúa í færeyska lögþinginu, fjórir rótgrónir flokkar og þrír yngri smáflokkar, þar af einn kristilegur miðflokkur með tvo þingmenn.
Skýr og rökrétt hugsun býr á bak við færeyska fjórflokkinn, sem hverfist um tvö öxla. Tveir öxlar kalla samkvæmt eðli máls á fjóra flokka.
Annar öxullinn er áframhaldandi samband við Dani andspænis óskoruðu sjálfstæði Færeyja. Sambandsflokkurinn og Jafnaðarflokkurinn kjósa óbreytt samband við Dani, einkum Sambandsflokkurinn. Hann hefur alla tíð bent á ófarir Íslands – verðbólgu, verkföll, vitleysu – sem lifandi sönnun þess, að fullt sjálfstæði Færeyja sé ótímabært. Hrunið hér heima 2008 herðir Sambandsflokkinn í andstöðunni gegn sjálfstæði Færeyja eða linar hann a.m.k. ekki.
Færeyingar nota evruna í reynd í þeim skilningi, að færeyska krónan er jafngild dönsku krónunni, sem er rígbundin við evruna með aðeins smávægilegum frávikum skv. einhliða ákvörðun danska seðlabankans. Verðbólga er því ekkert vandamál í Færeyjum og þá ekki heldur verðtrygging.
Fólkaflokkurinn og Þjóðveldisflokkurinn vilja lýsa yfir fullu sjálfstæði líkt og Íslendingar gerðu 1944. Erlendur Patursson, sem var Íslendingum vel kunnur um sína daga, var formaður Þjóðveldisflokksins, sem heitir nú Þjóðveldi.
Hinn öxullinn í stjórnmálaflóru Færeyja er hægri stefna andspænis vinstri stefnu. Sambandsflokkurinn, systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, kallar sig hægri flokk, og það gerir einnig Fólkaflokkurinn. Þessir flokkar sitja saman í ríkisstjórn frá því í fyrra og búast nú til að afhenda útvegsmönnum fiskinn í sjónum umhverfis eyjarnar að íslenzkri fyrirmynd.
Sambandsflokkurinn er flokkur eignamanna, sem hafa ævinlega og eftir fremsta megni skotið sér undan skattgreiðslum. Andstæðingar Sambandsflokksins segja, að þetta sé í reyndinni ástæðan til þess, að sambandsmenn vilja ríghalda í Dani. Danir borgi brúsann, sem annars hefði lent á færeyskum eignamönnum. „Nánast fullkomlega siðlaus“ flokkur sagði William Heinesen, mesti rithöfundur Færeyja, um Sambandsflokkinn eins og Eðvarð T. Jónsson rifjar upp í bók sinni, Hlutskipti Færeyja (1994).
Fólkaflokknum svipar að sumu leyti til Framsóknarflokksins. Hópur óánægðra flokksmanna klauf sig frá flokknum fyrir nokkru og stofnaði nýjan flokk, sem heitir því góða nafni Framsókn og á nú tvo fulltrúa á lögþinginu.
Jafnaðarflokkurinn og Þjóðveldi eru vinstri flokkar að eigin sögn. Jafnaðarflokkurinn er systurflokkur norrænna jafnaðarflokka. Þjóðveldi er systurflokkur Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs. Formaður Þjóðveldis nú er Högni Höydal og talar reiprennandi íslenzku líkt og margir aðrir Færeyingar.
Sjöundi flokkurinn er Sjálfstýrisflokkurinn, sem situr nú í nýrri ríkisstjórn með Miðflokknum og gömlu jöxlunum, Sambandsflokknum og Fólkaflokknum.
Ríkisstjórnir Færeyja eru ýmist klofnar í sambandsmálinu eins og nú (Fólkaflokkurinn vill sjálfstæði, Sambandsflokkurinn ekki) eða í innanlandsmálum (hægri gegn vinstri). Sundrungin kostar sitt og hægir á framförum. Danir leggja nú mun minna fé til Færeyja en þeir gerðu fyrir hrun fyrir 20 árum, 1989-93. Færeyingar tóku sig á.
Ísland er annað mál. Við útkljáðum sjálfstæðismálið fyrir löngu. Hér er því aðeins einn öxull, sé Ísland sett í færeyskt samhengi. Ef öxullinn hverfðist skýrt um hægri stefnu gegn vinstri stefnu, væri að því leyti rökrétt að hafa tvo stjórnmálaflokka á Íslandi. Vandinn er þó flóknari en svo, þar eð þessi eini öxull er svo óljós, að margir eiga erfitt með að greina mun á flokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur alltaf verið ríkisafskiptaflokkur, enda fékkst hann ekki til að einkavæða bankana upp á önnur býti en þau að halda „talsambandi“ við þá með því t.d. að halda sæti framkvæmdastjóra flokksins í bankaráði Landsbankans. Framkvæmdastjórinn hefur nú ásamt öðrum bankaráðsmönnum verið kærður fyrir stórstreymi fjár úr ógjaldfærum bankanum rétt fyrir hrun. Þegar banki hrynur, hljóta fórnarlömbin að leita réttar síns. Jafnvel forsætisráðherra talar um fjórflokkinn, hennar eigin orð, og lýsti hann dauðan eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Sé það rétt, þarf einhver að sjá um útförina.