DV
19. des, 2011

Fjármál í stjórnarskrá

Eiga ákvæði um banka og fjármálafyrirtæki heima í stjórnarskrá? Eða dugir að hafa slík ákvæði í lögum?

Þetta er sanngjörn spurning í landi, þar sem bankakerfið hrundi til grunna fyrir þrem árum með hörmulegum afleiðingum fyrir fjölda fólks innan lands og utan. Spurningin er áleitin m.a. vegna þess, að ekki verður betur séð en að lög um fjármálafyrirtæki 2002 hafi að hluta verið skraddarasaumuð handa vel tengdum kaupanda banka, sem komst í þrot fáeinum árum eftir kaupin. Í lögunum stendur í 52. grein: „Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, …“

Stjórnlagaráð fékk vandaðar ábendingar og tillögur um stjórnarskrárákvæði um banka, en ákvað þó að hafa ekki slík ákvæði í frumvarpinu. Hvers vegna?

Frá mínum bæjardyrum séð voru bankamenn ekki einir að verki í hruninu. Þeir fóru sínu fram fyrir tilstilli stjórnmálamanna. Meinsemdin fólst í of nánum tengslum stjórnmálamanna við eigendur og stjórnendur bankanna og annarra stórfyrirtækja. Bankamenn ganga yfirleitt eins langt og þeir geta innan þeirra marka, sem stjórnmálamennirnir setja þeim með lögum og framkvæmd laga, og stundum lengra. Og stjórnmálamenn ganga yfirleitt einnig eins langt og þeir geta til að fara sínu fram með löggjöf og framkvæmd laga innan þeirra marka, sem stjórnarskráin setur þeim og stundum einnig almenningsálitið.

Þess vegna er það viðurkennd regla, en þó ekki einhlít, að hafa í stjórnarskrá ákvæði um ríkisvaldið og þrískiptingu þess, valdmörk og mótvægi, og hafa heldur í lögum ákvæði um þá, sem þurfa að lúta ríkisvaldinu, þar á meðal banka. Frumvarp Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er í þessum anda. Því er ætlað að skerpa þrígreiningu valdsins með því að reisa eldveggi milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds til að skerða getu yfirvalda til að skaða réttindi og hagsmuni almennings. Ákvæðum frumvarpsins um greiðan aðgang að upplýsingum, óspilltar embættaveitingar, rannsóknarnefndir og persónukjör við hlið listakjörs til að bæta mannvalið á Alþingi er einnig ætlað m.a. að draga úr líkum þess, að bankar geti að nýju vaxið ríkisvaldinu yfir höfuð eins og gerðist fyrir hrun.

Duga þessi ákvæði til að girða fyrir annað hrun? Nei. Engin stjórnarskrá getur girt til fulls fyrir þá hættu. Hér verður því að duga, að reynt sé að draga úr líkum á nýju hruni.

Hefði verið heppilegra að hafa í frumvarpinu sérstök ákvæði til að binda hendur bankanna? – t.d. með því að tiltaka, að erlendar skuldir bankanna megi ekki fara upp fyrir tiltekið hlutfall landsframleiðslunnar eða gjaldeyrisforði Seðlabankans megi ekki fara niður fyrir tiltekin mörk. Ekki endilega, þótt gjarnan megi setja slík ákvæði í lög. Hugsunin hér er sú, að stjórnarskrá þarf að vera sveigjanleg til að endast eins og Ragnhildur Helgadóttir prófessor hefur bent á. Það sjónarmið mælir gegn því að skorða sig við tilteknar tölur. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er að yfirlögðu ráði ekki heldur ákvæði um hallalausan ríkisbúskap, þótt málið væri rætt í þaula, því að ósveigjanlegar skorður af því tagi geta komið sér illa, ef í harðbakkann slær. Slík ákvæði eru sjaldgæf í öðrum löndum, þótt Þjóðverjar hafi ákvæði gegn ríkishalla í sinni stjórnarskrá, svo sem ég lýsti hér í blaðinu á föstudaginn var.