DV
27. apr, 2012

Fáránlegur og sprenghlægilegur 

Í réttarríki þurfa dómstólar að hafa starfsfrið fyrir stjórnmálamönnum, dæma eftir lögum og fullnægja réttlæti. Þetta er öðrum þræði hugsunin á bak við þrískiptingu ríkisvaldsins, sem rekja má til miðrar 18. aldar og þaðan til stjórnarskrár Bandaríkjanna frá 1787 og áfram. Fáheyrt er í lýðræðisríkjum, sem rísa undir nafni, að dómstólar sæti afskiptum eða árásum af hálfu stjórnmálamanna, hvorki þegar mál eru fyrir dómi né þegar dómar falla.

Ísland er annað mál. Hér stýrðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn dómsmálaráðuneytinu á víxl öll árin frá 1927 til 2008, ef aðeins fimm ár eru undan skilin (1944-1947, 1958-1959, 1979-1980 og 1987-1988), og réðu því skipan nær allra dómara. Þessir tveir flokkar, sem stjórnuðu landinu ýmist á víxl eða báðir í einu nær allar götur frá upphafi flokkakerfisins árin fyrir 1930 fram að hruni 2008, höfðu ekki ástæðu til að fetta fingur út í dómstólana og þá ekki heldur út í fallna dóma.

Árið 1998 bar þó svo við, að Hæstiréttur úrskurðaði, að fiskveiðistjórnarkerfið bryti í bága við stjórnarskrána. Málið, sem Valdimar Jóhannesson höfðaði gegn ríkinu, dæmdu hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason. Oddvitar ríkisstjórnarinnar brugðust ókvæða við dóminum og réðust gegn réttinum, og lýsti forsætisráðherrann þeirri skoðun, að landið myndi tæmast að fólki, fengi dómurinn að standa.

Og viti menn: hálfu öðru ári síðar sneri Hæstiréttur við blaðinu, þegar svipað mál (Vatneyrarmálið) kom til kasta réttarins. Nú sá Hæstiréttur ekkert athugavert við þá mismunun, sem bjó að baki fyrri dóminum 1998. Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein, en Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson skiluðu séráliti í samræmi við dóminn frá 1998, og það gerði einnig Hjörtur Torfason, sem markaði sér stöðu miðsvæðis milli meiri hluta dómsins og minni hlutans. Hæstaréttur hafði verið barinn til hlýðni í augsýn allrar þjóðarinnar. Nýjasta hefti Mannlífs birtir samantekt um málið.
Í þessu ljósi sögunnar þarf að skoða viðbrögð Geirs H. Haarde fyrrum forsætisráðherra við sektardómi Landsdóms yfir honum. Landsdómur er aukinn Hæstiréttur, skipaður fimm hæstaréttardómurum, tveim öðrum embættislögfræðingum og átta leikmönnum, ýmist löglærðum eða leikum.

Geir Haarde segir fullum fetum, að Landsdómur – og þá um leið flestir hæstaréttardómararnir, sem þar sitja – hafi fellt pólitískan úrskurð til að þóknast tilteknum stjórnmálaöflum á Alþingi. Viðbrögð Geirs Haarde vitna um forherta afneitun og einnig um skort á virðingu fyrir skaðanum, sem hrunið olli saklausu fólki, og fyrir grundvallarreglum réttarríkisins – ekki bara skort á virðingu hans sjálfs, heldur einnig flokksins, sem hann stýrði, úr því að formaður flokksins og fleiri forustumenn taka í sama streng og enginn flokksmanna hefur séð ástæðu til að gera athugasemd við málflutning hans.

Virðingarleysi gagnvart lögum og rétti virðist landlægt í Sjálfstæðisflokknum. „Fæddist lítil mús“, segir Fréttablaðið í yfirskrift forustugreinar um Landsdóm og hefur ekki miklar áhyggjur af því, að æðsti dómstóll landsins hefur dæmt fyrrum forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins sekan um brot á stjórnarskrá og landslögum. Málflutningur tveggja þjóðkunnra prófessora vitnar um sams konar virðingarleysi. Þeir segja í Morgunblaðinu, að „áður en við smíðum nýja stjórnarskrá ættum við að reyna að fara eftir þeirri gömlu.“ Þeir segja fullum fetum, að lögbrot geri lagabætur óþarfar. Þeir viðurkenna, að stjórnvöld hafa brotið stjórnarskrána. Þeir viðurkenna samt ekki stjórnarskrárbrotið, sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lét til sín taka, þegar hún hafnaði Vatneyrardómi Hæstaréttar og staðfesti Valdimarsdóminn með bindandi áliti 2007.

Annar bætir við: „ … nær engin tengsl eru milli löghlýðni þjóða og lögbókanna sem þær nota. Menn fara sínu fram.“ Eftir þessari kenningu er lögbrjótum einum treystandi til að setja lög og semja stjórnarskrár, því að þeir hafa lög og stjórnarskrá ekki kröfuharðari en svo að þeir treysti sér til að fara eftir lögunum og stjórnarskránni. Í þessu ljósi þarf að skoða hatramma andstöðu Sjálfstæðisflokksins gegn frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Andstaðan bendir til, að sjálfstæðismönnum er ekki alveg sama um stjórnarskrárbrot, ekki öllum, en þeir áskilja sér sumir rétt til að „fara sínu fram“.