Fréttablaðið
11. apr, 2019

Falklandseyjastríðið og fiskur

Stanley, Falklandseyjum – Einn atburður gnæfir yfir alla aðra í lífi fólksins hér á Falklandseyjum og það er Falklandseyjastríðið 1982. Í því stríði týndu 900 manns lífinu, 650 Argentíumenn og 250 Bretar, ekki bara til að verja 1.800 íbúa eyjanna heldur einnig rétt heimsins alls til að standa gegn landvinningum í krafti ofbeldisfullrar innrásar óvinahers. Sumir heimamenn telja að færri Argentínumenn en 650 hafi látið lífið í stríðinu því Argentínuher hafi lætt inn í bókhaldið nöfnum sumra þeirra sem herinn hafði áður svæft og fleygt út úr flugvélum yfir Suður-Kyrrahafi. Ungabörnum fórnarlambanna var sumum haldið eftir handa sérstakri leyniskrifstofu hersins sem afhenti þau barnlausum hershöfðingjum til ættleiðingar.

Stríðið kostaði herforingjana völdin og frelsið. Þeim var mörgum stungið inn en þeir voru síðar náðaðir.

Argentína hefur búið við lýðræði frá 1983 og gerir enn tilkall til Falklandseyja þótt 99,8% íbúanna hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu 2013 lýst sig fylgjandi óbreyttu sjálfstjórnarsambandi við Bretland. Argentínskar bullur heimsækja eyjarnar annað veifið og gera sér leik að því að láta ófriðlega á börunum í Stanley líkt og nasistar í gyðingahverfum. Ein hugmyndin sem Argentínuher ræddi 1982 var að myrða alla íbúa eyjanna til að losna við þá alla á einu bretti.

Líf fólksins á eyjunum hékk á bláþræði þessar haustvikur frá apríl fram í júní 1982, vikur sem enginn heimamaður getur gleymt og ekki heldur afkomendur þeirra. Þeim finnst þeir standa í djúpri þakkarskuld við Breta og þá sérstaklega við Margréti Thatcher forsætisráðherra sem tók af skarið og sendi brezk herskip á vettvang. Fram að stríði höfðu fiskveiðar rutt sér til rúms við hlið landbúnaðar sem mikilvægur atvinnuvegur, en þeim var illa stjórnað. Hver sem er gat mokað upp fiski án endurgjalds. Erlendir útvegsmenn gengu á lagið.

Það var eins og lífsháskinn 1982 vekti eyjaskeggja af værum blundi. Þeir ákváðu 1986 að taka sér tak, m.a. með því að vernda fiskstofnana innan 200 mílna landhelgi kringum eyjarnar með hagkvæmum og réttlátum fiskveiðistjórnarháttum.

Nú er komin rösklega 30 ára reynsla á þá skipan sem íbúarnir komu sér upp. Þeir selja réttinn til að veiða innan landhelgi eyjanna frekar en að úthluta honum ókeypis. Þeir selja réttinn jafnt erlendum sem innlendum útgerðum, enda telja þeir óheimilt skv. alþjóðalögum að mismuna mönnum eftir þjóðerni. Sjávarútvegurinn varð þannig að mikilvægasta atvinnuvegi íbúanna og stendur nú á bak við um helming landsframleiðslunnar. Fyrstu 20 árin námu tekjurnar af veiðigjöldunum um 10.000 pundum (1,6 mkr.) á ári á hvert mannsbarn á eyjunum. Síðustu ár hafa veiðigjaldstekjurnar verið um þriðjungi minni en áður en þær halda þó áfram að skipta sköpum.

Þetta er kjarninn í þeirri skipan sem Alþingi hefur verið brýnt til að taka upp allar götur frá því árin eftir 1970. Alþingi kaus sem kunnugt er að þóknast heldur sérhagsmunum
Sjávarútvegur veldur engri úlfúð og engum ágreiningi á Falklandseyjum enda hefur enginn fengið að njóta forréttinda umfram aðra í sjávarútvegi. Útvegurinn hér suður frá lifir í sátt og samlyndi við fólkið, landbúnað, ferðaútveg og aðra atvinnu.

Eyjaskeggjar leggja rækt við náttúruvernd. Allar dýrategundir eru friðaðar nema fiskurinn í sjónum, rollurnar og ein gæsategund sem fjölgar sér hratt. Mikilvægasta fisktegundin innan lögsögu eyjanna er smokkfiskur sem nemur um 75% af fiskaflanum og síðan tannfiskur og skyldar tegundir. Milljón mörgæsir fá nú að vera í friði, en fita úr þeim var á fyrri tíð notuð m.a. til lampalýsisgerðar. Hvalveiðar eru stranglega bannaðar. Eyjaskeggjar hvá nema þeir súpi hveljur þegar þeim er sagt að til sé land norður í höfum þar sem hvalveiðar eru varðar m.a. með þeim rökum að hvalurinn keppi við útvegsmanninn um æti.

Veiðigjöldin halda ekki aðeins uppi góðum lífskjörum með lágum sköttum heldur draga þau einnig úr þörfinni fyrir hvalveiðar og önnur náttúruspjöll.

Á Falklandseyjum eru engir stjórnmálaflokkar heldur eru þingmenn kjörnir persónukjöri, allir átta.

Íbúarnir telja sig ekkert hafa að gera með eigin gjaldmiðil nema bara að nafninu til. Falklandseyjapundið er rígbundið við brezka pundið í hlutfallinu 1:1. Fiskur er þar engin fyrirstaða fastgengis, ekki frekar en í Færeyjum og á Grænlandi þar sem heimamyntin er með líku lagi rígbundin við dönsku krónuna í hlutfallinu 1:1.