DV
5. mar, 2012

Færeysk mál og menning

Þegar ég steig ásamt félögum mínum, tveim prófessorum, Dana og Norðmanni, inn í Lögþingið í Þórshöfn í Færeyjum á föstudaginn var, blasti við okkur ægifagurt málverk í móttökunni. Ég sagði við þá: Þarna sjáið þið, herrar mínir, hvað Færeyingar eiga fína málara. Þegar við komum nær, sáum við, að myndin var eftir Jóhannes Kjarval, gjöf frá Alþingi til Lögþingsins. Þegar okkur var boðið inn í þingsalinn, sáum við hanga yfir ræðustólnum enn stærra málverk, glæsilega mynd eftir Ingólf af Reyni (1920-2005), einn merkasta listamann Færeyja á öldinni sem leið.

Lögþingið í Færeyjum er elzta þjóðþing heims, stofnað um 860. Færeyingar hafa ekki hátt um þetta. Lögþingið starfaði óslitið til 1816, lá síðan niðri til 1852, þegar það var reist upp aftur sjö árum eftir endurreisn Alþingis, og hefur starfað æ síðan. Erindi okkar þremenninganna til Færeyja var að rökræða um fiskveiðistjórn ásamt innlendum mönnum á 500 manna fundi í Norðurlandahúsinu; 22 lögþingsmenn af 33 voru í salnum, þar á meðal lögmaðurinn, forsætisráðherrann. Mismunun er mannréttindabrot, sagði ég og vitnaði í bindandi álit mannréttindanefndar SÞ 2007 um kvótakerfið.

Frammi fyrir málverki Ingólfs af Reyni í þingsalnum rifjaðist upp fyrir mér samnorræn yfirlitssýning í Finnlandi fyrir mörgum árum. Þá sá ég fyrst færeysk málverk, enda hafði ég þá ekki enn komið til Færeyja. Málararnir, sem áttu verk á sýningunni, virtust mér skiptast í tvo flokka: svipmikla finnska, færeyska og íslenzka málara annars vegar og heldur daufgerða danska, norska og sænska málara hins vegar. Þetta er auðvitað einföldun, fyrstu hughrif einnar sýningar. Hitt orkar þó varla tvímælis, að Færeyingar státa líkt og Íslendingar af fjölskrúðugu menningarlífi, þar sem myndlistina ber trúlega hæst í Færeyjum, en tónlist og bókmenntir eru einnig hafðar í hávegum. Færeyingar hafa t.a.m. rekið sinfóníuhljómsveit í aldarfjórðung. Henni stjórnar nú Bernharður Wilkinsson, sem hefur verið og er enn umsvifamikill í íslenzku tónlistarlífi. Bókmenntir blómstra. Jógvan Isaksen, lektor í Kaupmannahafnarháskóla, heldur áfram að gefa út skínandi góðar færeyskar glæpasögur um blaðamanninn Hannis Martinsson, nú síðast Metusalem 2008 (dönsk þýðing 2011). Bækur hans ættu heima í Hollywood. Færeyingar eru nú tæplega 50 þúsund talsins líkt og fyrir hrunið 1989-93. Talið er, að 25 til 30 þúsund Færeyingar búi utan lands. Heildarfjöldi Færeyinga er því 75 til 80 þúsund.

Færeysk myndlist og þá ekki sízt verk Ingólfs af Reyni ættu frá mínum bæjardyrum séð að búa við heimsfrægð. Samt nær frægð þeirra varla nema til Íslands og Danmerkur og varla þangað. Að vísu eru til veglegar bækur með verkum Ingólfs af Reyni, þar á meðal nýleg og stórglæsileg bók, sem Listasafn Færeyja gaf út 2009, viðhafnarútgáfa, sem slagar hátt upp í Kjarvalsbókina, sem Nesútgáfan gaf út á 120 ára afmæli Kjarvals 2005, glæsilegustu listaverkabók, sem gefin hefur verið út á Íslandi, með miklum fjölda mynda Kjarvals auk rækilegs efnis um líf hans og störf frá ýmsum hliðum. Kjarvalsbókin sómir sér vel meðal veglegustu listaverkabóka heimsins. Samt eru verk þeirra beggja svo að segja óþekkt utan Íslands og Færeyja. Ég leyfi mér að efast um, að hátt verð fengist fyrir þau í New York, París eða Tokíó. Vandinn er ekki bundinn við Færeyjar og Ísland. Þjóðmálarar margra annarra landa eru svo að segja óþekktir utan landsteinanna.

Markaðseinangrun býður ýmsum hættum heim. Einangraður málverkamarkaður býr í haginn fyrir falsara. Ef listaverkakaupendur einblína á innlenda listamenn og verk þeirra, geta falsarar gengið á lagið. Falsari tekur erlenda mynd, bætir íslenzku berjalyngi í annað hornið og íslenzkri undirskrift í hitt hornið, og verðlítil mynd eftir óþekktan danskan listamann selst á uppsprengdu verði á Íslandi sem nýfundin íslenzk mynd eftir gamlan meistara. Falsarinn græðir, og það gerir einnig galleríið, sem selur myndina, og stjórnendur þess, en verðið á verkum listamannsins fellur líkt og ásýnd verka hans. Skv. gögnum lögreglunnar, sem sagt var frá í Morgunblaðinu og öðrum fjölmiðlum á sínum tíma, eru um 900 fölsuð málverk í umferð á Íslandi, sumir segja 1100. Aðeins þrjú þessara verka hafa komið til kasta dómstóla. Málið er alþekkt í listaheiminum, en enginn hefur enn þurft að sæta ábyrgð. Hér er verk að vinna að loknu uppgjöri við hrunið. Ekki er vitað um fölsuð málverk í Færeyjum.