DV
2. nóv, 2011

Erlendir gestir, evran og lungnalæknirinn

Tveir erlendu gestanna á Hörpufundi AGS í fyrri viku, Paul Krugman prófessor í Princeton og Martin Wolf aðstoðarritstjóri Financial Times, lýstu efasemdum um, að Íslendingar hefðu gott af að taka upp evruna. Efasemdir þeirra eiga fullan rétt á sér. Til þess liggja tvær ástæður.

Önnur er ástæðan er sú, að spurningin um ESB og evruna snýst öðrum þræði um stjórnmál. Það er ofureðlilegt, að menn greini á um stjórnmál, og gildir þá einu, hvort menn eru hagfræðingar að starfi, pípulagningamenn eða prestar. Ágreiningur um stjórnmál liggur í hlutarins eðli.

Hin ástæðan er sú, að á efnahagshlið evrumálsins eru bæði ljósir fletir og dökkir. Það er eðlilegt, að hagfræðingar leggi ólíkt mat á kosti og galla evrunnar, hver af sínum sjónarhóli.

Það leysir engan vanda að taka upp evruna, ef gamla vitfirringin í efnahagsmálum heldur áfram að vaða uppi að öðru leyti líkt og gerðist í Grikklandi og víðar. Upptaka evrunnar getur hins vegar orðið til góðs, ef hún kallast á við gagngerar umbætur í hagstjórn.

Myndu gagngerar hagstjórnarbætur heima fyrir geta skilað sama árangri án evrunnar? Já, vissulega. En vandinn er sá, að án evrunnar er ólíklegra en ella, að nauðsynlegar umbætur nái fram að ganga. Upptaka evrunnar er hvati eins og efnafræðingar myndu segja: hún knýr á um nauðsynlegar umbætur í hagstjórn m.a. með aðhaldi að utan. Evran er hvort tveggja í senn: markmið og leið.

Þetta er ein þyngsta röksemdin fyrir upptöku evrunnar hér heima líkt og t.d. í Eystrasaltslöndunum og annars staðar í Austur-Evrópu. Löndin þar eru nú loksins laus úr köldum hrammi Rússa og komin inn í hlýjan meginstraum evrópskrar menningar. Þeim tókst þetta hratt og örugglega m.a. vegna þess, að þau settu markið á ESB og evruna til að flýta fyrir sér. Fjarlægari lönd eins og t.d. Georgía eiga lengra í land, því að þau settu markið ekki á ESB og evruna. Þar heldur gamla vitleysan áfram í friði fyrir aðhaldi að utan. Þar vantar agann, sem fylgir væntanlegri inngöngu í ESB og upptöku evrunnar.

Paul Krugman og Martin Wolf eru meðal gleggstu manna, sem fjalla um efnahagsmál, en þeir virðast samt ekki skeyta nóg um þá lykilstaðreynd, að gengi krónunnar hefur fallið um 99,95% gagnvart dönsku krónunni frá 1939. Seðlabankanum og öðrum stjórnvöldum hafa verið mislagðar hendur í peningamálum, að ekki sé meira sagt. Ísland er alræmt verðbólgubæli. Seðlabankanum hefur næstum aldrei tekizt að ná verðbólgumarkmiði sínu. Enn er verðbólgan langt yfir settu marki eins og löngum fyrr, og sparifé landsmanna brennur í bönkunum með gamla laginu. Þess vegna m.a. eigum við að útsúrsa peningastjórnina, fela hana öðrum.

Fyrirkomulag gengismála er ofmetið eins og Gylfi Zoëga prófessor lýsti réttilega í Hörpu. Margar þjóðir festa gengi gjaldmiðla sinna, aðrar leyfa genginu að fljóta. Margar þjóðir festa gengið og láta það fljóta á víxl eftir aðstæðum. Ólíkar aðstæður kalla á ólíkar lausnir. Ekkert er við það að athuga.

Finnar hafa frá öndverðu notað evru, ekki Svíar. Báðum þjóðum hefur eigi að síður vegnað vel í hremmingum síðustu ára, svo að engan mun sér á.

Írar hafa frá öndverðu notað evru, ekki Íslendingar. Báðum þjóðum tókst samt að koma sér í alvarleg vandræði, og má vart á milli sjá að öðru leyti en því, að Írar ákváðu að borga brúsann sjálfir. Það gátu Íslendingar ekki, til þess var vandinn of mikill, holan of djúp.

Þessi dæmi sýna, að spurningin um upptöku evrunnar er ekki upphaf og endir efnahagsmálanna. Hitt er annað mál, að þjóð, sem býr við ónýtan gjaldmiðil, sem enginn tekur lengur mark á, jafnvel ekki ríkisstjórnin sjálf, og enginn vill eiga, hún ætti kannski að gaumgæfa, hvort tímabært sé að skoða aðra kosti í gjaldeyrismálum. Þetta er ein ástæða þess, að ríkisstjórnin undanskildi ekki evruna, þegar hún lagði inn umsókn um aðild að ESB fyrir tveim árum.

Ef Eistar gátu tekið sér tak og tekið upp evruna með góðum árangri, hvers vegna skyldu Íslendingar ekki geta tekið sig saman í andlitinu og gert það líka? Eða eigum við heldur að hafa þetta eins og lungnalæknirinn, vinur minn? Hann segir stundum við sjúklinga sína, sem eru að reyna að hætta að reykja: Þú ert aumingi. Þú getur ekki hætt.