Fréttablaðið
31. des, 2009

Enn við áramót

Ástand heimsins nú er nokkuð gott á heildina litið og horfurnar einnig góðar. Svo er þrátt fyrir allt einkum fyrir að þakka staðgóðri þekkingu á efnahagsmálum og getu helztu þjóða heims til að læra af fenginni reynslu langt aftur í tímann. Fyrir ári óttuðust margir, að heimsbúskapurinn myndi hafna í djúpri lægð í kjölfar bankahruns í Bandaríkjunum og víðar, jafnvel svo djúpri lægð og langvinnri, að samanburður við heimskreppuna 1929-39 kynni að eiga við. Óttinn greip einkum þá, sem af hugmyndafræðilegum ástæðum höfðu hafnað lækningunni, sem fannst við djúpum lægðum eftir kreppuna miklu. Lækningin er tvíþætt. Hún felst í ströngu aðhaldi og eftirliti með bönkum og öðrum fjármálastofnunum til að tryggja, að þær fari ekki sjálfum sér og öðrum að voða. Lækningin felst einnig í vilja og getu almannavaldsins til að fylla skörðin, sem einkaframtakið skilur eftir sig í efnahagslífinu, þegar það missir kjarkinn og heldur að sér höndum.

Bandaríkin stóðu á barmi hengiflugs haustið 2008. Um það mátti hafa margt til marks, þar á meðal undirmálslán ábyrgðarlausra banka til húsnæðiskaupa fólks með tvær hendur tómar. Önnur skýr vísbending var aukin misskipting af völdum rangsleitinnar skattastefnu ríkisstjórnar Bush forseta. Frá 1970 til 2005 hækkaði hlutfall forstjóralauna og launa óbreyttra starfsmanna í bandarískum fyrirtækjum á heildina litið úr 30 í næstum 300. Þessi þróun hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum. Aukin misskipting stafar yfirleitt öðrum þræði af sjálftöku, sem er að sínu leyti ávísun á illa meðferð fjár. Aukin misskipting vestra 1920-30 var meðal fyrirboða kreppunnar miklu. Aukin misskipting hér heima 1993-2007 samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra hefði með líku lagi átt að hringja bjöllum, en hún gerði það ekki. Stjórnvöld og erindrekar þeirra, sem þrættu fyrir misskiptingu af völdum kvótakerfisins, þrættu einnig fyrir aukna misskiptingu af völdum skattastefnu ríkisstjórnarinnar, þótt rangsleitnin blasti við. Hagstofan hreyfði varla legg eða lið til að lýsa þróun tekjuskiptingarinnar og veitti óprúttnum stjórnmálamönnum og öðrum svigrúm til að þræta. Hagstofan óttaðist kannski að bíða sömu örlög og Þjóðhagsstofnun og Samkeppnisstofnunin gamla, sem voru lagðar niður í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf.

Ríkið getur rétt einkaframtakinu örvandi hönd með því að auka útgjöld og almannaþjónustu eða lækka skatta og safna skuldum um skeið. Þessi leið er fær, þegar skuldir eru viðráðanlegar. Til þessara ráða var gripið í fyrra með samstilltu átaki helztu iðnríkja undir forustu Bandaríkjamanna og Breta. Átakið skilaði þeim árangri, að óttinn við nýja heimskreppu hvarf. Manna mestan þátt í þessum árangri átti löngu látinn hagfræðingur, John Maynard Keynes (1883-1946), faðir þjóðhagfræðinnar. Þessi leið er þó ekki fær þeim löndum, sem hafa haldið illa á fjármálum sínum og hafa því ekki svigrúm til að safna frekari skuldum. Þar skilur nú, eftir hrun, milli Íslands og nálægra landa. Aukin misskipting olli ekki hruni bankanna, en ósannindi og sinnuleysi stjórnvalda um hana voru eitt skýrasta sjúkdómseinkennið. Um þetta sagði ég í áramótapistli á þessum stað á gamlársdag 2003:

„Um það leyti sem ríkisbankarnir hér heima hættu að geta mismunað mönnum í skjóli neikvæðra raunvaxta, upphófst í staðinn skipuleg mismunun í gegnum kvótakerfið. Stjórnmálaflokkarnir, sem skipulögðu þessa mismunun í upphafi og höfnuðu markaðslausnum á borð við gjaldtöku fyrir veiðiréttinn, hafa goldið vanrækslunnar: þeir hafa veikzt og spillzt, svo sem við var að búast. Þingstyrkur þeirra hefur aldrei verið minni en hann er nú. Kompásinn hjá þeim hefur ruglazt, enda þótt þeir hafi á endanum látið undan síga með því að lögfesta lítils háttar veiðigjald. Kompásskekkjan virðist hafa ágerzt með tímanum. Sjálftökusamfélagið, þar sem menn skipa sjálfa sig og hverjir aðra í embætti, selja ríkisfyrirtæki á undirverði og halda ítökum sínum þar, gera vandræðalega eftirlaunasamninga við sjálfa sig og mylja undir einkavini sína og amast um leið við öryrkjum án þess að blikna og þræta svo fyrir allt saman: þessi skipan er eins og skilgetið afkvæmi siðaveiklunarinnar á bak við kvótakerfið. Myndu Bush og félagar hafa eitthvað við þetta að athuga? Varla. En ranglæti er eins og annað illgresi: það breiðist út, nema það sé rifið upp með rótum. Þarna er verk að vinna með hug og orði.” Endurreisnin úr rústum hrunsins þarf að taka mið af réttum kompási.